Það var mikill kraftur í ritnefnd Hjólhestsins í ársbyrjun 1996 sem í febrúar það ár gaf út stærsta blaðið fram til þess eða 32 bls. Efnið var sérlega fjölbreitt og meðal annars minnst á þörfina á betri snjóruðning, fleiri hjólastígum og hneykslast á kaupmönnum við Laugaveg sem vildu banna hjólreiðar eftir gangstéttum þar.
Já þetta hljómar sumt eins og rispuð plata því nú 16 árum seinna er enn hjakkað í sömu förunum á mörgum sviðum en þó eru yngri ráðamenn farnir að þoka málum í rétta átt þó reynslan verði að sýna hversu miklu þau koma í verk. Amk. eru enn ekki komnir aðskildir hjólastígar meðfram helstu umferðaræðum höfuðborgarsvæðisins né eru áform um að gefa hjólreiðamönnum sambærilegan rétt á stígum með blandaðri umferð og þeir hafa á akbrautum í drögum að nýjum umferðarlögum.