Ég er ein af þeim fjölmörgu sem hafa uppgötvað hjólreiðar. Það eru til staðir á Íslandi sem eru til fyrirmyndar fyrir hjólandi og gangandi umferð. Víðidalurinn er einn af þessum stöðum. Allar aðstæður þar eru til fyrirmyndar. Göngustígarnir eru tvískiptir, annar helmingurinn fyrir hraða umferð og hinn fyrir hæga umferð. Þótt að landsmenn séu ekki allir búnir að uppgötva til hvers þetta strik er eiginlega þá er þetta spor í rétta átt. Það er meira að segja sér hestastígur. Hrifningin snarminnkaði hins vegar þegar ég komst í kast við hestamennina þar í fyrsta sinn. Hingað til hef ég ekkert haft á móti hestamönnum. Ég þekki meira að segja persónulega nokkra hestamenn og þeir eru ekkert verri en gengur og gerist.