Í októbermánuði 1996 kom út þrettándi Hjólhesturinn í fullri stærð þó ekki væri það merkt á framhliðina. Stundum gleymast svona smáatriði. Á forsíðunni er Hjólhesturinn kominn á sólarströnd og syngur um að hann sé kominn í fríið, vetrarfríið, og tók með sér graskögglasnakk.

Innihaldið var mjög fjölbreitt og margt sem nú kemur á vefinn í fyrsta skipti á jafn vel við í dag og fyrir 16 árum. Má þar nefna erindi á Umferðarþingi þar sem fullyrt var að hjólrieðamenn væru hornreka í umferðarmálum. Augljós sönnun er sagan af því hvernig það kom til að hjólreiðar voru bannaðar á gangstéttum Laugavegar.

Leiðarinn - okt. 1996

Gísli Jónsson skrifaði leiðarann og fjallaði þar um fyrstu kynni sín af hjólastígum í draumalandi hjólreiðmanna, Danmörk, ein það gekk víst illa að rata. Pistillinn er nú kominn á vefinn í fyrsta skipti og má lesa hann hér.

Lesið leiðarann

 

Nýtt á nafninu - okt. 1996

Það var einnig ýmislegt nýtt á nafinu, meðal annars kom fram að Guð sjálfur hefði heimsótt Ísland, nánar tiltekið Gary Fisher skapari fjallahjólanna. Minnst var á nýjan stíg upp í Grafarvog, litlum 15 árum á eftir akveginum, og annan sunnan kirkjugarðsins í Fossvogi. Einnig skrautlegan fréttaflutning af hrakförum Hollendings í miðbænum:


Í lok september var sagt frá því í fréttum, sem þykir nú ekki mikil frétt, að hjólreiðamaður hefði verið barinn í buff á Laugaveginum. En í sama fréttatíma var sagt af annari stórfrétt, að hollenskur ferðamaður hefði orðið fyrir árás fjögurra ofbeldisseggja með þeim afleiðingum að eftir grimmileg slagsmál var hann allt í senn, blóðugur, rifinn, slitinn, brotinn, vankaður og marinn… eða því sem næst, svoleiðis hljóðuðu fréttirnar. Eins og allir vita eru Hollendingar vanir sléttu landslagi og ekki síst sléttum göngu- og hjólastígum. Það fór því svo að þegar vesalings Hollendingurinn ætlaði að fá sér göngutúr niður að höfn frá miðbænum, að hann átti leið um Geirsgötu. Eins og allir vita eru séríslenskar gangstéttabrúnir á þessum slóðum, frá þeim tíma þegar borgin átti heilan helling af umframsteypu. Þar sem Hollendingurinn var á annarskonar menningarsvæði en hann hafði alist upp við, og ekki áttað sig á íslenskum staðháttum, skipti engum togum að hann hrapaði niður af gangstéttinni, alveg og alla leið niður á götu þar sem líklega var ekið yfir hann nokkrum sinnum. Við illan leik sagðist hami hafi klifið umferðaeyjuna á miðri leið en vegna svima hrapað niður hinumegin. Snemma um morguninn virðist hann hafa klifið gangstéttabrúnina við Miðbakkann og komist með bókstaflega yfirnáttúrulegum hætti í geymsluport við Faxaskála, þar sem hann sleikti sótið og sárin, frávita af hræðslu. Honum var svo bjargað með lögreglufylgd í sjúkrabíl til baka yfir Geirsgötuna, þegar líða tók á morguninn. Ástæðan fyrir röngum fréttaflutningi af gönguferð Hollendingsins kom síðar í ljós. Hún var sú að fréttaritarinn sem skildi aðeins fornsænsku og gat skrifað lítið eitt á íslensku, hélt að flæmskumælandi Hollendingurinn hefði spjallað við sig á þýsku, sem var svo í raun enska.

Lesið um hvað var nýtt á nafinu í október 1996

 

Framtíðarsýn

Óskar Dýrmundur Ólafsson fjallaði um framtíðarsýn fyrir þá öld sem við nú lifum á og á sá pistill jafnt við í dag eins og fyrir 16 árum. Hér er brot:


Staða reiðhjólsins í Utopiu 21. aldarinnar er skýr. Reiðhjólið er einfaldur og sígildur samgöngukostur sem mætir tveimur risavöxnum vandamálum sem hrjá mannkynið. Hið fyrra eru umhverfismálin. Notkun reiðhjólsins mengar ekki, tekur t.d. 10 sinnum minna landrými en einkabifreiðin og gerir notendur þess mun meðvitaðri fyrir sínu umhverfi á meðan firring bílnotendans er nánast algjör á bak við málm og gler. Hið síðara snertir heilbrigði og velferð mannskepnunnar. Með hjólreiðum vinnur notandinn gegn ýmis konar sjúkdómum jafnt banvænum sem minniháttar. Í raun eru þessi mál samofin rétt eins og allt annað sem snertir okkar dýrmæta vistkerfi. Kostir reiðhjólsins eru ótvíræðir og því kemur ekki á óvart að reiðhjólið er óðum að fá lykilhlutverk í Evrópu sem borgarsamgöngutæki framtíðar. Þetta á einnig við í Reykjavík eins og sjá má af þeirri vinnu sem Borgarskipulag hefur innt af hendi nú þegar. Í tillögu að Stofnbrautarkerfi hjólreiða sýnir Borgarskipulagið okkur hvernig hluti af framtíðarsýn þeirra sem hjóla í Reykjavík lítur út. Kerfið myndar net stíga sem tengja alla borgarhluta saman þar sem gert er ráð fyrir öruggum tengingum yfir og undir hin breiðu stórfljót vélknúinnar umferðar. Í tillögunni kemur fram að ýmislegt þarf að bæta við og breyta svo sem hönnun á stígum, gatnamótum og svo hjólastæðum. Einnig kemur fram að þörf er á sérstökum hjólreiðareinum í Gamla miðbænum. En hvaða skoðun höfum við á þessarri framtíðarsýn sem lögð er fram fyrir okkur sem höfum valið að fara okkar ferða á reiðhjóli? Fellur þessi framtíðarsýn að því fyrirmyndarsamfélagi sem við getum hugsað okkur í víðara samhengi?
Lesið pistilinn

 

Hjólabannið á Laugaveg

Það þekkja ekki allir hvernig það kom til að bannað var að hjóla eftir gangstéttunum við Laugaveg kom til en um það var fjallað í þessum Hjólhest og kemur þar skýrt fram hversu kjánalegur málflutningur samtaka kaupmannanna var. Rökstuðningur lögfræðingsins sem keyptur var í verkið dugar jafn vel til að banna umferð bifreiða eins og reiðhjóla eins og sýnt er fram á.
Lesið pistilinn

 

Hjólað á fæðingadeildina

Þýdd grein sem Carlotta Cuerdon skrifaði og fjallar um reynslu sína af því að æfa keppnishjólreiðar samhliða óléttu og draum sinn um að ná svo langt að geta hjólað á fæðingadeildina eins og hefur víst verið gert.
Lesið greinina

 

Eru hjólreiðamenn hornrekur í umferðinni hér á landi?

Yfirskrift erindis sem Guðbjörg Halldórsdóttir flutti á umferðarþingi 1996 á jafn vel við í dag sem þá og flest það sem hún gagnrýnir líka, því miður. Lesið erindið sem nú er birt í fyrsta skipti á vefnum ásamt umfjöllun Magnúsar Bergs sem fylgdist með úti í sal:

 

Umferðarþing 1996

En hvað má læra af þessu þingi? Það er ýmislegt. Það stendur ekki til að gera neitt raunhæft eða standa í neinum stórræðum til að bæta umferðamenninguna, fækka slysum, minnka útgjöld samfélagsins, hvað þá greiða náttúrunni og umhverfinu því sem frá henni er rænt enda er þetta þing ekki til þess, enn sem komið er. Það virðist afskaplega erfitt að   hægja á þeirri skrílræðisþróun sem ríkir í umferðarmálum, þar sem hvergi má hrófla við neinu. Því er ekki að vænta neinna breytinga. Sú umræða virtist vera svolítið áberandi að venja ætti börnin enn frekar og fyrr við bílakennslu svo að, eins og mér skildist, að þau gætu þroskast og dafnað enn frekar sem sannar og heiðarlegar bílaverur! Stærri og fyrirferðameiri umferðamannvirki fyrir bíla virtust heilla, til að auka „umferðaöryggi“ o.s.frv. Munið svo bara að brosa, spenna beltin, vera jákvæð og allsgáð undir stýri, eins og venjulega...

Lesið pistilinn

 

Blikkað á bílana

1996 var ekki mikið framboð af góðum framljósum með blikki svo við sýndum fólki hvernig hægt er að bæta því við með því að lóða saman nokkra íhluti:


http://fjallahjolaklubburinn.is/content/view/143/89/

 

Látum ljósin skína

Einnig var í blaðinu ýtarleg úttekt á gæðum þeirra ljósa sem voru þá á markaðinum.
http://fjallahjolaklubburinn.is/content/view/142/89/


Lesa má blaðið allt hér.

Hjólhesturinn