pall-gudjonsson.jpg Áhrif aukinna hjólreiða á bætta lýðheilsu, í baráttunni við offitu, hjartasjúkdóma, streitu, þunglyndi, mengun og ótal önnur atriði eru með því mesta sem völ er á og því ætti að hlúa að hjólreiðum og efla en ekki kæfa þær með óþörfum boðum og bönnum. Það þarf að höfða til þeirra sem eru líklegir til að skipta um ferðamáta, fremur en þeirra sem nú þegar hjóla.

Í frumvarpi til nýrra umferðarlaga eru ný boð og bönn lögð á hjólreiðamenn. Við erum við ekki að fjalla um þær góðu og gildu umferðarreglur sem þar eru heldur óþarfar íþyngjandi reglur um klæðaburð og leiðaval. Til stendur að setja í lög í fyrsta skipti að fólki verði bannað að hjóla nema það sé með öryggishjálm á höfði. Þó ákvæðið gildi aðeins um þá sem eru undir 15 ára aldri er líka opnað fyrir ráðherra að útvíkka þessar reglur til allra aldurshópa og setja svipaðar reglur um skyldunotkun á nánast hverju sem kalla má „öryggisbúnað“ s.s. endurskinsvestum á hjólreiðamenn, hestamenn og gangandi vegfarendur. 

Flestar lagasetningar sem takmarka frelsi einstaklinganna eru settar með langtímahagsmuni samfélagsins í huga, með það fyrir augum að koma í veg fyrir samfélagslegt tjón, hvort sem það er af efnahagslegum, umhverfislegum eða heilsufarslegum toga. Þessi ákvæði í frumvarpinu uppfylla ekki þessi skilyrði og eru að auki ekkert rökstudd.

En var þetta gert í góðu samstarfi við hjólreiðamenn? Nei, samráðið var ekkert fyrir utan að við, eins og aðrir, fengum að skila inn umsögnum en fengum enga umræðu eða viðbrögð. Þessi tvö aðal atriði varðandi hjálmana og leiðaval voru hunsuð. Það var ekki hægt að fá fundi, koma á samræðu, ekki einu sinni fá nokkur rök fyrir þessum ákvörðunum. Hvergi er vísað í hvað lá að baki þessum ákvörðunum annað en að færa bæri gildandi reglu í lög. Þó tilgangur  frumvarpsins sé endurskoðun umferðarlaganna virðist engin endurskoðun hafa farið fram á þörfinni fyrir eldri reglu frá 1999 sem löngu tímabært eftir 12 ár. 

Hagsmunasamtök hjólreiðamanna, ekki bara á Íslandi heldur um alla Evrópu hafa lagst gegn lagasetningum sem banna hjólreiðar án hlífðarhjálma eða endurskinsvesta. Lesa má um stefnu Evrópusamtaka hjólreiðamanna annarsstaðar í blaðinu og tillögur þess til Evrópsku umferðaröryggisáætlunarinnar á vef LHM í íslenskri þýðingu.  Landssamtök hjólreiðamanna, LHM, hafa sent inn ítarlega rökstuddar athugasemdir á öllum stigum málsins allt frá 2008. Í þeim höfum við farið yfir slæma reynslu annarra þjóða sem hafa reynt slíka löggjöf. Reynslan er alltaf neikvæð þegar horft er heildstætt á málin. Þegar upp er staðið eru það auknar hjólreiðar sem auka öryggi einstakra hjólreiðamanna og hefur notkun hjólreiðahjálma lítil áhrif til eða frá.

Stundum er vísað til rannsókna sem benda til undraverðar virkni reiðhjólahjálma en því miður hafa þær ekki staðist skoðun og komið í ljós að ýmsum ráðum var beytt til að fegra niðurstöðurnar. 

Hin norska Institute of Transport Economics birti núna í febrúar nýja skýrslu sem komst að þeirri niðurstöðu að samkvæmt nýjum rannsóknum væri gagnsemi reiðhjólahjálma ekki merkjanleg þegar slys á höfði, andliti og háls væru skoðuð heildstætt. Eina íslenska rannsóknin á gagnsemi reiðhjólahjálma komst að sömu niðurstöðu 1996. Í henni voru skoðaðar slysatölur árin 1992 - 1995 þar sem borin var saman tíðni höfuð­áverka hjá þeim sem notuðu hjálm og hinum sem ekki notuðu hjálm. Niðurstaðan var að enginn marktækur munur væri þar á. Norska vegagerðin lagðist gegn hjálmaskyldu ungmenna 2007 að athuguðu máli.

Hver er þá þörfin á að leiða þessar takmarkanir á frelsi einstaklinga í lög? Ég sé hana ekki og verður hugsað til slagorða öryrkja hér áður „Ekkert um okkur án okkar“.

Þegar frumvarpið var lagt fram notaði ráðherrann orðalag sem stakk; „við hlífum hinum unga ökumanni, verjum hann og verndum gagnvart sjálfum sér“. Þar var hann að fjalla um hækkaðan bílprófsaldur en frumvarpið endurspeglar svipaðan hugsunarhátt gagnvart hjólreiðamönnum; það þarf að hafa vit fyrir okkur.

Það er horft fram hjá því að hjólreiðar eru mjög öruggur fararmáti. British Medical Association telur kosti hjólreiða vega tuttugufalt þyngra en áhættan. Það er líka horft fram hjá neikvæðum áhrifum hjálmaskyldu á öryggi, lýðheilsu og umhverfi þvert á yfirlýst markmið stjórnvalda sem segjast vilja efla hjóleiðar til að ná fram þessum jákvæðu áhrifum. Færri hjóla þar sem svona lög eru sett, öryggisáhrif fjöldans minnka, fleiri keyra, fleiri menga, færri fá nauðsynlega hreyfingu, lýðheilsa versnar, útgjöld til gatna- og heilbrigðiskerfis vaxa, en ekki dregur úr höfuðmeiðslum.

Við viljum auka hjólreiðar og teljum ekki að bönn við hjólreiðum hjálpi því markmiði. Við viljum fá að velja fötin okkar sjálf og hvort við notum reiðhjólahjálm eða ekki. Það eru hvorki fötin né hjálmarnir sem bæta hreysti eða umhverfi heldur hjólreiðar, sem eru og verða áfram einn öruggasti fararmáti sem völ er á. Bæði þegar hjólað er með reiðhjólahjálm í öryggisvesti og án – bæði er gott! Vonandi verður þessum lögum breytt í umfjöllun samgöngunefndar og þingsins og skynseminni leyft að ráða.

Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2011