Hvað eiga veikindi og áhugamál sameiginlegt? Bakteríur. Hér er saga af hjólabakteríu. Hún helltist yfir undirritaðan þegar hann var orðinn rúmlega fertugur. Allflestir kannast við að fá kvef af og til um ævina. Svo kemur skaðræðis lungnabólga einhvern tímann. Þannig er minni hjólabakteríu háttað. Auðvitað andskotaðist ég þvers og kruss um sveitina, sem krakki, loksins þegar mér tókst að læra að hjóla. Seinna meir, sem námsmaður í flatri þýskri borg með reiðhjólamenningu, gaus upp áhugi á reiðhjólinu og kostum þess. Hann varð eftir í Þýskalandi. Nú loksins er „lungnabólgan“ komin.

Það er eitthvað við þennan fertugsaldur. Gráa fiðringinn þekkja margir. Klofið á mér fær að finna fyrir þessum aldri, þó ekki tengist það kynlífi eða komplexum meira en verið hefur. Oft var gaman að lifa, en aldrei sem nú. Á þessum aldri uppgötva margir að þeir eru ekki eilífir. Sitthvað minnir á að einhvern tímann verði maður gamall. Það gæti borgað sig að gera loksins eitthvað fyrir heilsuna. Það að fá hólabakteríu er alveg kjörið. Ég til dæmis skipti á henni og tíðum höfuðverkjum.

Ég hef engan áhuga á að losna við hjólabakteríuna mína og nokkur atriði benda til þess að muni ekki gerast. Í fyrsta lagi er það sem að framan er greint, að hún stuðlar að heilbrigðu lífi. Það er skemmtilegra að vera til þegar maður er í lagi. Í öðru lagi þá eru hjólreiðarnar nátengdar annarri ástríðu. Það eru ferðalög. Loksins, loksins hef ég fengið langþráð tækifæri til að ferðast um landið mitt. Og þegar það loksins gerist, er ég búinn að komast að því að minn uppáhalds ferðahraði er hraði hjólreiðamannsins. Í þriðja lagi er það svo Hjólabókin.

Hvað gera karlmenn þegar þeir fá áhuga á einhverju? Þeir gera eitthvað mikið úr því. Prjónauppskriftabækur, matreiðslusjónvarpsþættir, meistara-þetta og prófessora-hitt. Nú er ég búinn að skrifa Hjólabók, þá fyrstu af átta. Nú má mér hreinlega ekki batna af hjólabakteríunni, því hún er hvatinn að þessu verki. Í þessari bók sameina ég það sem ég hef lært í gegnum tíðina og það sem ég hef ánægju af. Þess vegna er ég ánægður með útkomuna og ég veit að margir eru það  líka. Ég hef engan áhuga á að bregðast þeim sem bíða eftir næstu bókum.

Megi sem flestir smitast af hjólabakteríunni. Ef hún verður að heimsfaraldri, þá er engin ástæða til að finna móteitur og koma af stað bólusetningarátaki.

Hjólhesturinn, mars 2012