Velo City ráðstefnan 2021 fór fram í Lissabon í september s.l. Höfundur fór á ráðstefnuna ásamt tveimur öðrum íslendingum, Sesselju Traustadóttir frá Hjólafærni og Katrínu Halldórsdóttur frá Vegagerðinni. Ráðstefnan er án efa stærsta ráðstefnan um hjólreiðar í heiminum og er skipulögð af Evrópusamtökum hjólreiðamanna ECF, sem Landssamtök hjólreiðamanna eiga aðild að. Hún er haldin í mismunandi borgum og verður næst 14.-17. júní í Ljubljana í Slóveníu[1]. Á ráðstefnunni er fjallað um allt sem viðkemur hjólreiðum bæði niðurstöður strangra vísinda og reynsluvísinda alls staðar úr heiminum.

Í mörgum vísindagreinum hefur verið sýnt fram á félagslega, heilsufarslega, efnahagslega og umhverfislega kosti hjólreiða fyrir samfélagið. Ótvíræðir kostir fylgja auknum hjólreiðum þar sem mannvirki fyrir hjólreiðar eru tiltölulega ódýr í samanburði við flesta aðra samgöngukosti og þau hafa langa endingu ef þau eru rétt byggð í upphafi. Hjólreiðar hafa jákvæð heilsuáhrif, þær draga úr umferðartöfum í þéttbýli og hlutfallslega færri slys verða þar sem bílar og og virkir vegfarendum lenda saman þegar virkir vegfarendur eru sýnilegri í umferðinni með auknum fjölda gangandi og hjólandi. Auk þess leiða þær til bættra lífsgæða í þéttbýli með því að draga úr umferð bíla. Þegar umhverfið er hannað með þarfir allra vegfarenda í huga en ekki bara bílstjóra verður umhverfið í borgum meira aðlaðandi og vistlegra. Tengsl íbúa við nágrennið verður betra, þar þrífst meiri þjónusta og minni þörf verður fyrir lengri ferðir. Aukin hlutdeild hjólreiða dregur líka úr loftmengun í borgum og gróðurhúsaáhrifum samgangna. Hjólreiðar draga úr orkunotkun, hávaða frá umferð og þær nýta takmarkað pláss í borgum betur en flestir aðrir samgöngumátar.

Velo City 2021 var haldin í Lissabon. Portúgal er stærsti framleiðandi reiðhjóla í Evrópu.

Í vísindagreinum hefur líka verið bent á nokkra ókosti sem geta fylgt hjólreiðum. Líkur á slysum og öryggi hjólreiða, er einna helst það sem dregið er fram í þessum greinum en einstaka greinar hafa líka bent á hættu af loftmengun ef hjólað er í menguðum borgum. Þetta er þó ekki einhlítt. Í sumum greinum hefur komið í ljós að bílstjórar í menguðum borgum fá í sig meiri loftmengun en hjólreiðamenn enda eru bílstjórar staddir beint aftan við útblástursrörið í næsta bíl en oft eru hjólreiðamenn aðeins til hliðar eða jafnvel á sérstökum hjólastígum í grænna umhverfi þar sem loftmengun er minni. Nokkrar áhrifamiklar greinar hafa borið saman lífslíkur þeirra sem hjóla til vinnu við lífslíkur þeirra sem t.d. aka bíl úr og í vinnu. Í ljós hefur komið að þeir sem hjóla bæta árum við lífið og lífi við árin þar sem þeir lifa bæði lengur og hafa betri heilsu fram eftir aldri. Jákvæð áhrif hjólreiða í Danmörku og Hollandi á heilsu eru talin um 21 föld umfram áhrif af slysum og hugsanlegum áhrifum loftmengunar. Mögulega eru þessi áhrif eitthvað mismunandi eftir löndum en ef menn fara varlega er engin ástæða til annars en að telja að þau geta verið svipuð á Íslandi.

Í ljós kemur líka að þar sem best er búið að hjólreiðum er hlutfall kvenna og karla tiltölulega jafnt meðal hjólreiðamanna en þar sem illa er búið að hjólreiðum veigra konur sér við að hjóla vegna þess að þær upplifa sig óöruggar og meta hættuna af umferð of mikla. Þar verður hlutfall karlmanna mun hærra. Markmið okkar á Íslandi ætti því að vera að ná jöfnu hlutfalli kvenna og karla sem hjóla með því að bæta aðstöðu til hjólreiða og gera umhverfið aðlaðandi og öruggt.

Leiguhjólin í Lissabon eru þægileg. Hluti þeirra eru rafmagnshjól með aðstoð.

Í greinum hefur líka komið fram að klassískar ástæður fyrir að hjóla ekki, eins og vont veður, árstíðir, hitastig, úrkoma og brekkur hafa áhrif en þó mun minna en menn halda og í flestum löndum eru dæmi um hátt hlutfall hjólreiða þótt aðstæður í viðkomandi borg séu ekki hvetjandi til hjólreiða að öllu leyti. Það virðist eins og skipulag borga, fjarlægðir milli staða og aðstaða til hjólreiða hafi mun meiri áhrif en þessir klassísku þættir. Það virðist einna helst að hæðótt landslag fæli frá hjólreiðum en þar koma rafmagnsreiðhjól þó sterkt inn til að draga úr fælingarmættinum.

Þrátt fyrir marga kosti hjólreiða kemur í ljós að hlutdeild hjólreiða í samgöngum er mjög misjöfn milli landa og milli borga innan landa. Enskumæland löndin Bretland, Bandaríkin, Kanada og Ástralía eru með sérstaklega lága hlutdeild hjólreiða með um 1-2% ferða farna á reiðhjóli. Þar vekur sérstaka athygli að flestar borgir í Kaliforníu og Ástralíu, sem alla jafna mundu vera talin ákjósanleg til hjólreiða með sumarveðri nánast árið um kring og slétt landslag, hafa líka svona lága hlutdeild hjólreiða. Þar ræður bílvænt skipulag væntanlega mestu, sem skapar miklar fjarlægðir og hættulegt umhverfi fyrir hjólreiðar ásamt slæmum aðbúnaði fyrir hjólreiðar á þessum stöðum. Það vekur líka athygli að þessi lönd eru líka þau þar sem tiltölulega lítið hefur verið gert fyrir hjólreiðar, hjólreiðar eru hættulegri á hjólaðan km en í flestum löndum Evrópu, og mest áhersla er lögð á einkavarnir hjólandi með hjálmum og búnaði frekar en að skapa hjólandi öruggt umhverfi.

Í skoðunarferð á Velo City var skoðað torg í biðstöðu í Lissabon. Stólpar sem afmarka bíllausa svæðið gefa eftir ef hjólað eða ekið er á þá.

 

Hlutdeild hjólreiða í ferðum í Evrópu er 10% í Þýskalandi, 18% í Danmörku og 27% í Hollandi. Það er þó talsverður munur eftir borgum í þessum löndum. Þessi lönd hafa í flestum borgum og jafnvel milli borga öruggar og hentugar leiðir fyrir hjólandi. Skipulag borganna og þéttleiki hafa greinilega mikil áhrif á hlutdeild mismunandi ferðamáta. Borgir, þar sem hjólreiðar eru þægilegasti ferðamátinn og sá fljótlegasti, eru líklegar til að hafa háa hlutdeild hjólreiða. Það fer þá líka saman við fjölda og staðsetningu bílastæða sem eru aðgengileg bílstjórum á miðsvæðum eða þar sem mesti fjöldi fólks ferðast til og frá vinnu og skóla. Í borgum með háa hlutdeild hjólreiða eða háa hlutdeild ferða með almenningssamgöngum eru bílastæði oft í útjaðri svæðanna og fjöldi bílastæða sem er aðgengilegur er kannski bara 20-30% af fjölda starfa á viðkomandi stað auk þess sem öll bílastæði eru með gjaldskyldu.

Borgir með marga háskóla og marga nemendur eru oft borgir með háa hlutdeild hjólreiða. Þéttar háskólaborgir og háskólasvæði eru þau svæði sem oft hafa einna hæst hlutfall hjólreiða í viðkomandi löndum. Þannig eru til háskólasvæði í Bandaríkjunum þar sem hjólreiðar eru miklar og Cambridge og Oxford eru borgir í Bretlandi þar sem hlutdeild hjólreiða er langt umfram landsmeðaltal.

Afstaða íbúa til hjólreiða fer saman við hlutdeild hjólreiða. Afstaðan mótast af mjög mörgum þáttum en þar sem neikvæð afstaða er ríkjandi er líka minna hjólað. Þar sem afstaðan er jákvæð er oftast meira hjólað og fólk hefur jákvæðar fyrirmyndir í fjölskyldum og umhverfi sínu sem væntanlega hefur áhrif á afstöðu þeirra til hjólreiða.

Hjólastígarnir í Lissabon eru þægilegir og flestir tvístefnustígar.

Í ljós hefur líka komið að sögulegar skýringar hafa mikil áhrif á hlutdeild hjólreiða. Í löndum og borgum þar sem menn hafa litið á reiðhjólið sem leikfang og æfingatæki er hlutdeildin oft lág en þar sem menn hafa lítið á reiðhjólið sem fullgilt samgöngutæki er hlutdeild hjólreiða í ferðum hærri. Greinilegt er líka að afstaða yfirvalda hefur líka haft mikið að segja fyrir þróun hjólreiða á viðkomandi svæði. Í borgum þar sem skipulagsyfirvöld hafa haldið fast við hefðbundið samgöngumynstur á fyrri hluta 20. aldar með göngu, hjólreiðum og almenningssamgöngum sem meginþunga samgangna, hafa ganga, hjólreiðar og almenningssamgöngur haldið stærri hlutdeild. Í mörgum þeirra var byrjað að skipuleggja fyrir bílinn um 1960 en upp úr olíukreppunni snéru menn fljótlega við blaðinu og tóku upp fyrri stefnu. Í borgum þar sem borgaryfirvöld köstuðu þessu fyrir roða og skipulögðu fyrir bílinn upp úr miðri öldinni og héldu því síðan áfram fram á þennan dag hefur bíllinn náð stærri hlutdeild og haldið henni. Reykjavík er gott dæmi um þannig borg en það er ekki fyrr en eftir 2008 sem stjórnvöld víkja raunverulega af þeirri stefnu að reyna að útrýma öðrum samgöngumátum en bílnum með meiri útþenslu borgarinnar, aukinni umferð og verri samgöngum fyrir alla nema á bíl.

Vísindagreinar geta gefið góðar vísbendingar um hvað gæti verið líklegt til að auka hjólreiðar og virkar samgöngur. Þar má telja:

Jákvæð hvatning þar sem stutt er við breytingu í hugarfari.

Jákvæðar fyrirmyndir, venjulegt fólk í venjulegum fötum.

Þéttari byggð frekar en dreifð.

Blönduð byggð með aðgengilegri þjónustu innan seilingar.

Öruggir stígar með sléttu yfirborði, góðri lýsingu og góðri þjónustu sumar sem vetur.

Örugg gatnamót þar sem virkir vegfarendur eru settir jafnfætis eða framar bílum.

Aðlaðandi umhverfi, gróðursælt og skjól.

Göng og brýr með sléttu yfirborði og góðri lýsingu og sýn í gegnum göng.

Minni umferð bíla í umhverfinu - minni loftmengun - minni hávaði og meira öryggi.

Samfellt gatnanet en þar sem eru botnlangar þá er samfellt net stíga úr botni þeirra með merkingum.

Þjónusta á áfangastað með upplýstum og skýldum hjólastæðum.

Samtvinnun almenningssamgangna og virkra samgangna.


[1] https://www.velo-city2022.com/en/



Höfundur á Velo City 2021.

 

Árni Davíðsson,
formaður Landssamtaka hjólreiðamanna.

© Birtist fyrist í Hjólhestinum mars 2022.