Hjólið er eins manns/einnar konu faratæki – eða hvað? Þó hjólakona uppgvötvi að hún eigi von á barni, er engin ástæða til að hætta að hjóla. Margar skoðanir eru á því hversu lengi óléttar konur megi hjóla, en einnig að það sé í fínu lagi að hjóla alla meðgönguna. Algengt ráð er að konur breyti lífsmynstri ekki mikið að óþörfu á meðgöngu, þ.e. vanar hjólakonur ættu að halda áfram að hjóla, en óvanar ættu að bíða fram yfir fæðingu með að byrja. Það fer ekki bara eftir viðhorfi, heldur einnig eftir gerð og stillingum hjólsins; ágætt er að hækka stýrið og á síðustum vikum meðgöngu gæti verið þægilegt að hjólið sé með dömusniði svo að líkamsstaðan sé upprétt og maginn komist vel fyrir. Besti mælikvarðinn er hvernig tilvonandi mömmu líður á hjólinu sínu. Ávinningurinn af hollri hreyfingu er mikill, bæði fyrir móður og barn, og hættan á að detta er einnig til staðar á leiðinni út á bílastæði.

Þegar krílið er komið í heiminn bætast ný hjólavandamál við. Með nægum peningum er samt létt að leysa það: til eru dempaðir hjólavagnar með stuðningi fyrir ungabörn og nýfædda undrið á sér samastað á hjólinu um leið og foreldrar treysta sér til. Auk peninga þarf geymslupláss heima við fyrir dýrindis hjólavagn. Við nánari skoðun finnst aðeins einn framleiðandi sem býður upp á hjólavagna fyrir nýfædda, og á kanadískri heimasíðu segir jafnframt að vagninn eigi að nota sem barnavagn og ekki byrja að hjóla með barnið fyrr en það er eins árs. Á þýskri heimasíðu segir hins vegar að það megi „ganga, hlaupa og hjóla frá 0-12 mán.- eftir stærð barnsins“ með sama búnaði. Flestir framleiðendur tengivagna tilgreina einnig eins árs lágmarksaldur. Sumir festa barnabílstól í hjólavagn. Til eru bæði eins og tveggja barna vagnar, og ekki þarf að velja stóran vagn fyrir fyrsta barnið, því hann tekur þá bara meiri farangur á meðan fjölskyldan stækkar ekki meira.

 

Þessi unga íslenska dama hefur ferðast í hjólavagni frá 3ja mánaða aldri
Þessi unga íslenska dama hefur ferðast í hjólavagni frá 3ja mánaða aldri

 

 

Fyrir hin sem treysta sér ekki í tengivagn eru engin ráð önnur en að arka með barnavagninn í strætó og koma í veg fyrir að blautur, kaldur og úrvinda hjólreiðamaður komist upp í hann líka eða – ég þori varla að skrifa þetta – nota bíl. Einnig er hægt að koma litla barninu fyrir í burðarpoka á maganum, þá sleppur hjólreiðamaðurinn inn, en hér er ekki mælt með því að hjóla með barn í burðapoka. Kannski er svokallaður „babybiker“ lausn, en það er eins konar ungbarnastóll á hjólið, ekki ósvipaður þeim sem er að finna á innkaupakerrum í matvöruverslunum.

  babybikerfyrir ungbörn

En þetta „leiðinda“ tímabil á meðan barnið er mjög litið er stutt og brátt getur „júníorinn“ setið og fengið sitt pláss í venjulegum barnastól aftan á hjólinu eins og allir þekkja. Þessar græjur eru ódýrar, margir stólar eru í umferð og alltaf hægt að finna notaðan fyrir slikk. Aðrir kostir hefðbundinna barnastóla eru: barnið situr á bak við mömmu (pabba/ömmu/afa..) í skjóli fyrir veðri og vindum og stóllinn hentar alveg upp í 6 ára aldur.

 

Barnastóll á hjólið

 

Venjulegur barnastóll hefur líka ókosti. Fyrir þá sem hjóla með bakpoka þá á hann það til að nuddast í lítinn nebba, en yfirleitt er barnið fljótt að venjast þessu og notar bakpokann sem kodda á meðan aðrir vegfarendur hneykslast. Því miður er erfitt að koma samtímis fyrir hjólatöskum og barnastól. En þá er hægt að setja körfu eða kassa framan á hjólið, fá sér bögglabera og hjólatöskur fyrir framgaffal, vagn fyrir dótið og/eða barnið, eða fyrir mæður sem hjóla út meðgönguna – hafa bakpokann magamegin eða velja barnastól sem hægt er að koma fyrir fyrir framan sig. Barnið er þá í fanginu á þér allan tímann, hægt að spjalla við það og það hefur mjög gott útsýni. Á meðan getur allur farangur heimsins verið í hjólatöskunum að aftan. Ókostir: það er erfitt að koma framsætum sem algengust eru í búðum hérlendis fyrir á fjallahjólum og barnið fær él og mótvind í andlitið en það má leysa með „framrúðu“ sem fæst á suma fram-barnastóla. Ekki er heldur mikið pláss fyrir maga hjólreiðamanns. Rifrildi um hver fær að stýra hjólinu koma einnig upp. Þannig að ef næsta barn er á leiðinni þarf eldra systkinið að flytja sig aftur aftan á hjólið og nudda nefinu í bakpokann.

 

Ursula og börnin

  Ursula hjólar með börnin

 

Ingólfur Ólafsson hjólar með börnin

 

Ingólfur Ólafsson hjólar með börnin

Kannski hefðir þú átt að fjarfesta í hjólavagni? Sumt fólk kaupir sér nýjan bíl eða jafnvel íbúð þegar fjölskyldan stækkar. Umræðan um nýtt hjóladót í sama tilgangi ætti að fá meiri og jákvæðari hljómgrunn. Við þriðja barn er alveg óumflýjanlegt að eiga hjólavagn (nema elsta barnið sé farið að hjóla sjálft). Tvö börn í vagninum og eitt í barnastól. Ef tengivagn kemur ekki til greina þá tekur bara strætó og barnavagnaskeið við. Eldra barnið stendur til dæmis á systkinapalli eða hjólar sjálft. Eftir það er um að gera að koma báðum krökkunum fyrir á hjólinu – í stólum framan og aftan. Það er auðveldara að hjóla með tvö börn (og einhvern farangur) á hjólinu heldur en að draga hjólavagn. Gleðin getur haldið áfram þangað til annaðhvort barnið er of stórt fyrir sitt sæti.

 

tveir piltar í hjólavagni

 

Framsætið er til 15 kg/3 ára og það getur verið þungt að hjóla, því tvö börn t.d. 2ja og 4 eða 5 ára geta hæglega verið 40 kg samanlagt. Til viðbótar má nefna allar tegundir sérhjóla í Amsterdam („bakfiets“) og Kaupmannahöfn sem enn fást ekki hér á landi.

Nú er kominn tími til að stóra barnið flytji sig yfir á tengihjól eða eigið hjól með tengistöng. Tengihjólið er sagt vera stöðugra, en tengistöngina er hægt að taka af þegar aðstæður leyfa. Mín reynsla er að það telst til undantekninga að fá aðstoð frá farþega á tengihjóli nema með mútum af einhverju tagi. Litla barnið verður að vera í barnastól fyrir framan, því barnastóll fyrir aftan og tengihjól passa ekki saman. Á móti kemur að hjólatöskur geta aftur komið við sögu.

Ursula og börnin

Ursula hjólar með börnin

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Stóra barnið er að sjálfsögðu farið að hjóla sjálft og öðlast úthald og 7 ára getur það alveg farið í þokkalega langar ferðir, sérstaklega ef það hefur hjólandi foreldra með. Litla barnið getur að sjálfsögðu ekki beðið eftir að komast út úr barnastólnum.

Þeir sem hjóla allt árið velta kannski fyrir sér vetrarhjólreiðum með börn. Á góðum nagladekkjum og með góð ljós er vel hægt að mæla með því að hjóla með barnastól (og jafnvel tvo) allan ársins hring, jafnvel í töluverðum snjó og hálku en erfiðara getur verið að draga hjólavagn í vetrarfærð. Hingað til hafa 20 tommu nagladekk ekki sést hér í búðum, en þau eru víða til á netinu. Ef snjórinn verður of mikill bindur maður bara sleða við hjólið...

Tekur meiri tíma að skutla börnunum á hjóli en á bíl? Það tekur að vísu meiri tíma að klæða þau betur þegar kalt er, en reynsla höfunda er að börnum finnst gaman að hjóla, og vonandi öðlast þau samgöngusjálfstæði fyrr en aðrir sem eru vanir að láta skutla sér á bíl. Stundirnar með börnunum á hjólinu eru sannkallaðar gæðastundir. Athygli sem maður fær með tvö börn á hjóli er yfirleitt jákvæð, og kurteisi og tillitsemi bílstjóra eykst í réttu hlutfalli við fjölda barnastóla á hjólinu – líka þegar ekkert barn er í þeim. Fordæmið sem hjólandi foreldrar setja börnum sínum er ótvírætt verðmætt og mikilvægt. Börnin læra að til eru fleiri valkostir en bíllinn, og að eyða peningum ekki að óþörfu í eldsneyti og óholla lífshætti. Afsökunin „ég get ekki hjólað, því ég þarf að skutla krökkunum“ stenst bara ekki.

 

Ursula ferðaðist svona með móður sinni

Ursula ferðaðist svona með móður sinni.

 

Svona farangurshjól eru góð fyrir börnin

 

Svona farangurshjól eru góð fyrir börnin og mjög algeng í borgum þar sem vel er búið að hjólandi umferð

 

Svona farangurshjól eru góð fyrir börnin

Heimildir:
Haddad, S. Cycling while pregnant keeps you fit and prepares your body for the uphill struggle of childbirth, The Guardian, 21.5.2010. http://www.guardian.co.uk/environment/green-living-blog/2010/may/21/pregnant-cyclists

Barnahjólakerrur/tengivagnar
http://orninn.is/V%C3%B6rur/Vagnar/Vagnar/Chariot_Cougar_2 og http://orninn.is/V%C3%B6rur/Vagnar/Aukahlutir/Infant_Sling
http://www.utilif.is/vorur/hjol/vagnar/nr/293


Ungbarnasæti
http://fahrradzukunft.de/8/baby-biker/

Barnastóll að framan:
http://safe-t-seat.co.uk/
http://markid.is/?item=212&v=item&category-group=hjol
http://www.polisport.com/bicycles/produtos.php?ID=589

Tengistöng:
http://gap.is/V%C3%B6rur/Rei%C3%B0hj%C3%B3l/Fylgihlutir/Anna%C3%B0/Trailgator_Tengist%C3%B6ng

Nagladekk 20 tomma:
http://www.toma-rad-discount.de/products/Fahrradzubehoer/Schwalbe-Marathon-Winter-20-Zoll-Winterreifen-Spikes..html

 


Myndir: Páll Guðjónsson, Ásbjörn Ólafsson og fl.