Þessi bók er eins og skrifuð með mig í huga.  Ég ferðast iðulega þannig að ég finn mér 20-80 km hringleið, kem mér á áfangastað á bíl með hjólið aftan á, og hjóla svo í hring, aftur að bílnum eða í náttstað, tek jafnvel annan hring ef stutt er liðið á daginn.

Í Hjólabókinni er margs konar fróðleikur. Þar er 14 dagleiðum lýst í máli og myndum, gps hnit, erfiðleikastigsflokkun og sýnt hversu mikil hækkun og lækkun er á leiðunum.  Þetta er alveg upplagt fyrir hjólafólk, sem veit ekkert þegar það leggur af stað í hringinn, t.d. hvort það verði tvo eða tíu tíma á leiðinni.  Varðandi  Vestfirði, þá hef ég lítið hjólað þar, nema tvær leiðir í bókinni, hringinn í kringum Reykjanes og yfir Steinadalsheiði.  Ég var á leiðinni að setjast niður og skipuleggja hjólaferð næsta sumars, en þarf þess ekki, þessi bók mun sjá mér fyrir skemmtilegum hjólaleiðum a.m.k. tvö sumarfrí.

Það ættu allir að hafa gaman af þessari bók, hvort sem þeir eru nýbyrjaðir að hjóla, sem og reyndir hjólanaglar sem hafa nú þegar hjólað þetta, því alltaf er gaman að rifja upp hvað maður er búinn að afreka.

Ómar Smári, til hamingju með þessa líka fínu bók.

Hjólhesturinn, mars 2012

Stytt útgáfa af bloggfærslu Hrannar. Fylgist með blogginu hennar:  hrannsa.blog.is