Sesselja Traustadóttir Síðastliðið skólaár tók greinarhöfundur ársleyfi úr hefðbundinni kennslu við grunnskóla til þess að hjólavæða Ísland í nafni Hjólafærni á Íslandi (HFÍ). HFÍ er fræðasetur um hjólreiðar og hefur að markmiði að miðla fræðslu og þekkingu um allt er að reiðhjólum lýtur til þeirra er þess óska. 

Bláfjallaævintýrin – Samstarf við Seeds

Eitt það alskemmtilegasta og ótrú-leg¬asta sem gerðist á liðnu starfsári voru Bláfjallaævintýrin. Með sérlegum stuðningi SEEDS; Mörtu, Kerly og hinum sjálfboðaliðunum auk samstarfs við ótal aðila og með styrkjum frá Orkusjóði, Velferðarsjóði barna og Reykjavík, var öllum grunnskólum á Höfuðborgarsvæðinu boðið að koma með í hjólandi skálaferð í Bláfjöll. Rétt um 40 km leið á blönduðu undirlagi um stíga borgarinnar, Heiðmörkina og síðustu 10 km í óbyggðum Bláfjalla; oftast í brjáluðu veðri! Í allt urðu ferðirnar 4 og var þá komið nóg fyrir flesta er að ferðunum stóðu  Þetta reyndist margfalt þyngra fyrir hina ungu æsku en við vorum búin undir. En mikil reynsla og mikið gaman! Svo fékk HFÍ Foreldraverðlaun Heimilis og skóla fyrir framtakið. Það var líka ánægjulegt.

 

 

Hjólaðu hringinn

 var annað ævintýri sem ýtt var úr vör í samvinnu HFÍ og SEEDS. Unnið er að merkingu hjólaleiða út frá þéttbýliskjörnum á Íslandi og voru nokkrir bæir á Suðurlandi heimsóttir í sumar með það í huga. Til landsins komu nokkrir ungir Evrópubúar sem prófuðu hjólaleiðir og framundan er að efla samvinnu við fleiri aðila Þetta verkefni er stórt og viðamikið og hefst aðeins með góðri samvinnu margra aðila. 

 

 

Dr. Bæk

hefur haft í nógu að snúast. Um borg og bý eru ótal döpur reiðhjól sem þarfnast aðhlynningar og skoðunar Doktorsins. Hann leiðbeinir eigendum um reglulegt viðhald og gott ástand reiðhjólsins og það eru margir tilbúnir að leggjaeyrun við. Foreldrafélög, grunnskólar, vinnustaðir og sveitarfélög leita eftir skoðunarvottun hans. Öllum stærri viðgerðum vísar hann á starfandi hjólaverkstæði. Í Samgönguvikunni í haust var hann rækilega kynntur í fréttatímum beggja sjónvarpsstöðvanna eftir hjólaskoðun í miðbænum í boði Umhverfissviðs Reykjavíkur.

 

Dr. BÆK

 

Fyrirlestrar

hafa verið vinsælir um land allt. Í samvinnu við ÍSÍ var HFÍ með fyrirlestra á Akureyri, Ísafjirði og víðar. Fræðsluyfirvöld umferðamála hafa hlustað á boðskap HFÍ með opnum eyrum, fjölmörg starfsmannafélög fengu fyrirlestur á meðan Hjólað í vinnuna stóð yfir í vor en fyrirlestur ársins var án nokkurs vafa í MK á umhverfisdögum í okt. 2010. Þá gafst loksins tækifæri til þess að hitta hluta týndu kynslóðar hjólreiða á Íslandi. Fullur salur unglinga í menntaskóla tók þátt í samtali um samgönguhjólreiðar. Gríðarlega frjó og skemmtileg umræða; áfram Ísland!

 

 

Kennsla

Fossvogsskóli er einn grunnskóla á Íslandi sem hefur 4 kennslustundir yfir skólaveturinn í eflingu hjólreiða sem skyldunám fyrir alla nemendur í 6. og 7. bekk.. Nemendur þar fá markvissa leiðsögn HFÍ um ökutækið reiðhjól og stöðu þess í samvinnu við gangandi umferð, dekkjaviðgerðir, viðhald bremsu og gíra og enda á því að læra stöðu reiðhjólsins í rólegri umferð á götunni. Einnig er gert ráð fyrir árlegum hjóladegi fyrir alla nemendur  skólans á vorin.  Í skólanum eru rúmlega 300 nemendur og á góðum degi er yfir 160 reiðhjólum lagt í hjólastæði skólans. 

 

Jón Gnarr borgarstjóri og Sesselja Traustadóttir

 

Framtíðin...

er óskrifað blað en nóg eru verkefnin fyrir HFÍ til framtíðar. Ótal samtöl og fundir í ráðuneytum og við sveitarfélög eins og verið hefur á liðnum misserum eru líklegri en ekki að breyta einhverju í viðmóti og viðhorfi til hjólreiða í samfélaginu. Samvinna við LHM og ÍFHK er mikilvæg forsenda framhaldslífs HFÍ. Það er eins og vor hjólreiðanna sé liðið, við erum komin inn í sumarið og hjólreiðamanna er óskað í umferðina.  Til hamingju Ísland!