Hjólað til framfara

Það umhverfi sem hjólhesturinn kom að var eingöngu markað af manna fótum og hestahófum. Hjólið sem slíkt var að hefja innreið sína á Íslandi með hjólhestinn í broddi fylkingar. Annað eins framfaramál kallaði á stofnun félags til eflingar og styrkingar málefninu. Slíkt félag leit dagsins ljós 24. maí 1897 á Hótel Íslandi og fékk heitið, Hjólmannafélag Reykjavíkur. Þetta félag var einkum skipað heldri borgurum og eins og búast mátti við þá var Guðbrandur verslunarstjóri Fischerverslunarinnar skipaður formaður félagsins. Í stjórn félagsins voru líka: Pálmi Pálsson adjunkt, skrifari og H. Andersen skraddari, féhirðir. Seinna bættist Gísli Finnsson járnsmiður í félagatöluna. Einnig voru tveir endurskoðendur kjörnir; Guðmundur Björnsson héraðslæknir og Sigfús Eymundsson bóksali. Félagið stóð fyrir því að kenna fólki að hjóla, það tók að sér að selja ný og notuð reiðhjól og svo var sett sem markmið að stuðla að keppni á reiðhjóli, m.a á Þjóðhátiðinni 1898.

Félagið var svo lagt niður á þann hátt að félagssjóðurinn var étinn upp á Hótel Íslandi nokkrum árum síðar. og gæti hafa verið á vegum Hjólmannafélagsins þó ekki sé hægt að fullyrða um slíkt. Skömmu síðar fréttist svo aðeins af hjólreiðafélagi á Ísafirði sem virðist hafa helst tekið þátt í árlegum þjóðminningadögum á árunum1905 og 1906. Einu sinni virðist þó félagið halda sjálfstæða uppákomu. "Hjólreiðaklúbburinn "Fram" þreytir kappreiðar á morgun kl 2. Hjólreiðarnar byrja og enda á veginum fyrir ofan Eyrartúnið." Ekki fréttist meira til félagsins í heimildum eftir að þessi klausa birtist í Vestra árið 1906. Til er mynd af ferðafélagi frá 1917 þar sem um 10 manns hafa stillt sér upp með reiðhjól sín, útbúnir til ferðalags og er undirtexti myndarinnar "litla ferðafélagið". Ekki er meira vitað um þennan félagsskap.

Hjólreiðafélag Reykjavíkur

Næsti félagsskapur sem vitað er til að hafi verið stofnaður sérstaklega í kringum hjólreiðar á Íslandi var Hjólreiðafélag Reykjavíkur sem var stofnað sumarið 1924 og er til eftirfarandi lýsing af stofnun þess:

Hjólreiðafélag hafa nokkrir ungir menn hér í bæ stofnað nýlega. Þessir menn voru kosnir í stjórn félagsins: formaður Egill Guttormsson, bóksali, en meðstjórnendur þeir Þorsteinn Ásbjörnsson prentari, Axel Grímsson, trésmiður, Jón Brynjólfsson afgreiðslumaður og Zophanías Snorrason, trésmiður. Lög voru rædd og samþykt, fyrir félagið. Það er búist við góðri þáttöku, þar sem svo margir eiga reiðhjól hér í bænum.

Félagið starfaði af miklum þrótti þetta sumar og er áberandi í fréttatilkynningum þess hvað félagslíf félagsins er öflugt. Fundir eru tíðir og þá stundum farið inn að Elliðaám á hjólum. Í fréttatilkynningu frá félaginu er tilkynnt að það hafi verið "ákveðið að halda útbreiðslufund á góðum stað fyrir innan bæ á laugardagskvöld ef veður leyfir. Nýjir meðlimir verða teknir inn. Á eftir verður farið í leiki og dansað. Þáttakendur mæti á Lækjartorgi". Í tilkynningu um haustið eru svo félagar minntir á haustballið sem hugsanlega hefur verið einhverskonar uppskeruhátíð sumarsins: "Hjólreiðafélagar, munið eftir dansleiknum í kveld. Sækið aðgöngumiða fyrir ykkur og gesti ykkar í bókaverslun Sig. Jónssonar, Eimskipafélagshúsinu."

Sendisveinar Reykjavíkur

Á fjórða áratugnum var stofnað til félagsskapar sem var afleiðing þess að fyrirtæki voru í síauknum mæli farin að notfæra sér reiðhjólið í atvinnurekstri. Var vörum dreift nær eingöngu með hjálp hjóla og vagna fram undir 1930 en þá var farið að verða algengara að nota flutningabíla þó ekki drægi úr notkunargildi sendisveina á hjólum á fjórða áratugnum. Var stærsti vinnuveitandi sendisveinanna um miðbik fjórða áratugarins Mjólkursamsalan. Einnig voru sendisveinar ráðnir til starfa hjá bönkunum, Eimskip, ýmsum skrifstofufyrirtækjum, bakaríum og svo verslunum almennt eins og t.d. hjá Silla og Valda en hjólafloti þeirra samanstóð af 16 sendisveinahjólum.

Fyrsti skipulagði félagsskapurinn sem vitað er um að hinir hjólandi verkamenn fylktu sér í, var sendisveinafélagið Merkúr. Merkúr sem stofnað var 28 desember 1913 samdi fyrst sérstaklega fyrir sendisveina árið 1920. Áratugi seinna höfðu sendisveinar orðið svo stór hluti af Merkúr að sérstök sendisveinadeild var stofnuð innan félagsins í apríl 1931, en ætla má að um 5/7 hluti félagsins hafi samanstaðið af sendisveinum. Það virðist svo hafa lognast að mestu út af þegar nýtt félag var stofnað og telur Lýður Björnsson sagnfræðingur að ástæður þess að svo margir skiptu um félag voru vegna pólitískra skoðana og svo að nokkrir voru reknir úr Merkúr. Nýja félagið sem tók við sendisveinum Merkúr hét Sendisveinafélag Reykjavíkur (SFR) og gerðist aðildafélag innan Alþýðusambandsins mjög fljótlega, eða þann 29 maí 1933. Félagar SFR voru ungir að árum, t.d. var slegið á að meðaldur þeirra væri 13 1/2 ára í Blossa, fréttabréfi félagsins. Því hefur þótt nauðsyn til að forsvari væru "þrír fullveðja menn...umsjónarmenn fjelagsins". Þessir umsjónarmenn áttu þó ekki að skipta sér mikið af innanfélagsstarfi þar sem 5 manna stjórn sendisveina bar hitann og þungann af starfi félagsins. Í lögum félagsins kemur fram að tilgangur félagsins hafi verið "að bæta launakjör sendisveina, aðbúð þeirra á vinnustöðvunum og útiloka það, að sendisveinum sje misboðið af atvinnurekendum á nokkurn hátt."

En þó að í lögum félagsins kveði við hógværan tón þá er auðséð í Blossa að róttæk öfl höfðu búið um sig eins og kemur fram í fyrsta tölublaði: "Blossi berst fyrir alþýðuheimilin, fyrir menningu þeirra, mætti þeirra og valdatöku þeirra." Stjórnmálaáhugi hinna ungu sendisveina virðist hafa verið með ólíkindum því að skjótt kvaddi nýr hópur innan félagsins sér hljóðs. Stigið var skrefi lengra. "Eflum samtök okkar og samfylkingu svo að burgeisastjettin geti áþreifanlega fengið að kenna á samtökunum og sameiginlegu afli yngstu hluta öreigaæskunnar." Var hér á ferðinni Samfylkingalið sendisveina sem fljótlega fór að gefa út sitt eigið fréttabréf sem þeir nefndu Leiftur. Var verið að vísa til leiftursins sem ljós hjólanna vörpuðu frá sér, en á haus blaðsins var einmitt teikning af lýsandi reiðhjólaljósi. Stjórn SFR varaði félagsmenn við þessum kofningshópi og lét jafnvel liggja að því að Samfylkingaliðið færi eftir tilskipunum kommúnistaflokks Íslands. Á sama hátt töluðu Samfylkingamenn um "kratana" í SFR.

Þessar erjur virðast einungis hafa styrkt félagið í baráttu sinni sem þeir háðu af líf og sál, a.m.k. á síðum fréttabréfa sinna. Sendisveinar kröfðust kjarabóta sem þeir svo fengu og er ein sú helsta þegar samið er við Mjólkursamsöluna 12 janúar 1935. Kaupið hjá sendisveinunum hækkaði úr 70 krónum á mánuði upp í 100 krónur og svo fylgdu fjölda ákvæða um vinnutíma, ýmis hlunnindi og margt fleira. T.d segir í samningnum að "einginn einn sendisveinn skal bera út meiri mjólk en 260 lítra á dag" og er enginn furða að slíkt skuli hafa verið takmarkað ef haft er í huga hvernig vegir voru almennt í Reykjavík á þessum tíma, en malarvegir voru algengir innanbæjar og ef rigndi þá varð allt að foraði. Félagið hafði mest 128 félaga en fullyrt var í Blossa að það væru um 250 sendisveinar í Reykjavík árið 1933. Guðmundur Ellert Erlendsson reiðhjólasmiður, sem seinna fór að starfa við hjólasmíðar og viðgerðir í Fálkanum, starfaði sem sendisveinn í Reykjavík 1937-8. Hann minnist þess að félagið hafi verið talsvert öflugt og hver félagsmaður fékk sitt eigið skirteini.

En hvernig voru sendisveinahjólin? Hjólið sem sendisveinarnir fengu til afnota var svart, með litlu framhjóli og stóran, sterklegan bögglabera að framan. Fleiri gerðir virðast hafa verið afar sjaldgæfar. Pétur Pétursson sem var ritari SFR á fyrstu árunum, minnist þess að Mjólkursamsalan hafi látið smíða sérstakt þríhjól sem var með feiknarstóran kassa framan á tveim hjólum. Þar í hafi grindum með mjólkurflöskunum (sem voru úr gleri), verið raðað. Axel Janssen man eftir því að hafa séð um viðhald við þetta hjól. Grindin hafði verið smíðuð erlendis en kassinn var svo smíðaður hér og þyngslin voru slík að oft þurfti að ýta því upp brekkur og þegar snjóaði í gegnum skafla. Þegar hér er komið við sögu er augljóst að flutningar með smávöru hafa þótt borga sig á reiðhjóli og svoleiðis virðist það hafa verið eitthvað fram yfir miðja þessa öld. Í Handbók fyrir búðarfólk sem SÍS lét gefa út er mikilvægi sendisveinahjólsins fyrir verslunina út á við tekið sérstaklega fram.

Sendiferðahjólið er fulltrúi búðarinnar á götum og þjóðvegum. Það er því mjög mikið undir því komið, að það sé vel hirt. Þar sem óhreint og illa útlítandi sendiferðahjól er á ferð, álykta menn sem svo, að vinnubrögðin í verzluninni muni fara eftir útliti hjólsins.

Í handbókinni koma einnig fram þau vandamál sem sendisveinarnir áttu við að etja í daglegu starfi sínu. "Það er oft erfitt fyrir sendisveinana að komast áfram með þungar byrðar í mikilli umferð, en einmitt þegar svo stendur á, gefst sendisveininum tækifæri til að sýna, hvað hann getur."

Undir lok fjórða áratugsins virðist starfsemi félagsins róast niður en síðasta kjör í stjórn S.F.R. fór fram 1938. Samningar um kjör sendisveina voru orðnir frambærilegir og segja má að baráttan við breytta flutningatækni fari að segja til sín fljótlega með tilkomu seinni heimsstyrjaldarinnar Um 1940 má segja svo að félagi hafi horfið á hljóðlátan hátt þó að sendisveinahjólið héldi áfram notagildi sínu áfram um sinn. Ólafur Rúnar Dýrmundsson minnist þess að hafa verið að sendast fyrir kaupmann í lítilli martvörubúð um veturinn 1956 og fór hann með pantanir nokkrum sinnum í viku til kúnnanna. Þá hafi þetta verið enn nokkuð algengt hjá matvörubúðum en fór greinilega fækkandi. Það síðasta sem Ólafur sá til sendisveinahjóls var "í kringum 1980. Þá sá ég Stefán frá Möðrudal með slíkt hjól fullfermt af heyi og amboðum (hrífur, orf og ljá) hjólandi niðrí bæ, en þá átti hann hesta og var að hirða hey af lóðum borgarbúa."

Réttindi hjólreiðamanna

Þó ekki sé um auðugan garðinn að gresja fram að níunda áratugnum hvaðvarðar hjólreiðafélög þá birtist ljós í myrkrinu uppúr 1978, nokkurskonar undanfari þeirra breytinga sem áttu eftir að verða í hjólreiðum hérlendis. Er hér átt við "Félag áhugamanna um hjólreiðar". Megintilgangur þess var að berjast fyrir breyttum umferðareglum og breyttu skipulagi til að tryggja öryggi hjólreiðamanna. Á stofnfundinum fylltist Sóknarsalurinn af heitum hjólreiðamönnum sem voru eflaust orðnir langeygir eftir umbótum til handa hjólandi umferð. T.d. talaði heimildamaður; Helgi Skúli Kjartansson um að sérstaklega kvartaði fólk undan því þegar hjólreiðamaðurinn ætlaði að halda beinni stefnu þá væri það siður hjá bílstjórum að "svína" þegar beygt væri til hægri. Úr varð að félagsmenn fjölmenntu í hjólreiðaferð 22 maí 1979. Hjólað var frá Skátabúðinni á Snorrabrautinni, austur Lönguhlíðina og niður Laugaveg að Lækjartorgi. Þáttakendur hengdu á bak sér skilti með slagorðum eins og: "Hjólhestur mengar ekki", "Hjólin snúast þótt bensínið hækki" og "Ekki er þeim kalt sem hjóla", þannig lauk hópurinn hinni sameiginlegu hjólferð sinni í baráttunni fyrir bættri aðstöðu í hópstöðu fyrir framan Alþingi. Jarðvegur "hjólabyltingarinnar" hafði verið lagður og eitt helsta baráttumál félagsins, hjólreiðar á gangstéttum, náði svo fram að ganga í byrjun níunda áratugarins eins og greint verður frá í næsta kafla.

 

Árni Bergmann:

Lof um hjólhestinn
(sett saman í vikunni að gefnu tilefni)

Leyfið mér bræður að ég slái hörpustrengi
og lofi hjólhestinn

Hjólhesturinn er lítilþægur
hann hreykir sér ekki hátt
hann öskrar ekki með flautu, ýlfrar ekki með bremsum
hann hneggjar ekki af illkvittni.

Hann eyðir ekki viðkvæmum gróðri Íslands
og brennir ekki sjaldgæfu bensíni
hann skítur ekki og lekur ekki smurolíu
hann hvorki bítur né slær
og kremur ekki sundur börn og gamalmenni
hann rekst ekki á aðra hjólhesta nema í gamni

Hjólhesturinn er vinur okkar
hann stælir fæturna, hann fyllir lungun
hann eflir viðbragðsflýti, skerpir sjón
hann eflir börnum sjálfstraust
og bætir gjaldeyrisstöðuna.

Hann er hliðhollur gamalli sérvisku og ungum ástum.

Hjólhesturinn er eini bróðir skáldfáksins...

HFR og ÍFHK

Í kringum þær tískubylgjur sem bárust hingað í gervi msijafnra hjólategunda voru stofnuð tvö félög. HFR sem hét sama nafni og gamla félagið, Hjólreiðafélag Reykjavíkur, var stofnað síðla ágúst 1980 og svo var Íslenski fjallahjólaklúbburinn (ÍFHK) stofnaður 5 júlí 1989 á rigningardegi á tjaldstæðinu í Skaftafelli. Mismunurinn á félögunum var fyrst og fremst sá að HFR einblýndi á keppnishjólreiðar og framgangi þeirra eins og sagt er frá í kaflanum hjólakeppni, en ÍFHK var stofnaður til að vinna að eflingu og framgangi ferðalaga á fjallahjólum hérlendis, m.a. til að efla tengsl við þann mikla fjölda útlendinga sem hingað koma til að hjóla.

© Óskar Dýrmundur Ólafsson