REIÐHJÓLIÐ Á ÍSLANDI Í 100 ÁR

Saga reiðhjólsins á Íslandi á bilinu 1890-1993 með erlendu baksviði

 

I. Inngangur

Viðfangsefnið sem er í raun saga reiðhjólsins í félagslegu samhengi er áhugavert ef litið er til þess hve ólíkra hópa það hefur höfðað til í tímans rás. Ritgerð sem þessi ætti því að vera æskileg viðbót við þá menningarflóru sem við búum við á Íslandi í dag.

Í upphafi ritgerðar mun ég gefa stutt yfirlit yfir sögu reiðhjólsins í Evrópu og Bandaríkjunum og verður einblínt á alþjóðlegt baksvið reiðhjólsins, en það er upprunnið frá Evrópu þó svo að til séu frekar óljósar kenningar um að það sé komið frá Kína eða að Leonardo de Vinci hafi verið fyrstur til að teikna reiðhjólið eins og við þekkjum það. Næst verður meginviðfangsefni ritgerðarinnar tekið fyrir sem er saga reiðhjólsins á Íslandi. Henni skipti ég upp í kafla eftir viðfangsefnum. Byrjað er að skoða reiðhjólið almennt og upphaf notkunar hérlendis, svo og þau félög sem hafa verið stofnuð í kringum hjólreiðarnar. Verslun og viðgerðir verða svo teknar fyrir, og því næst verða hjólreiðar sem tómstundagaman skoðaðar.

Við samningu ritgerðarinnar komu upp margvísleg vandamál og var heimildaskortur þar áberandi. Þrátt fyrir að hátt á þriðja hundrað þúsund reiðhjól hafa verið flutt inn til landsins á þessarri öld þá reyndust heimildir strjálar og fór mikill tími í öflun heimilda um reiðhjól hérlendis. Í þeim tilfellum sem heimildir skortir reyni ég að fylla upp í með viðtöl við fólk af mismunandi aldursskeiðum. Að öðru leyti er vitnað til dagblaða, fréttabréfa, æviminninga, rita eftir sagnfræðinga svo og óbeinar og beinar tilvitnanir í ýmsar opinberar frumheimildir eins og Alþingistíðindi og Árbækur Reykjavíkur.

© Óskar Dýrmundur Ólafsson