Innviðarráðherra skipaði starfshóp til að kortleggja stöðu smáfarartækja í umferðinni og vinna tillögur að úrbótum, m.a. til að tryggja umferðaröryggi og bæta innviði fyrir nýjan ferðamáta. Starfshópurinn á að skila af sér tillögum fyrir 1. júní n.k. Smáfarartæki eru nú einkum rafmagnshlaupahjól sem líka eru kallaðar rafskútur. Það er er stefnt að því að sumarið 2022 liggi fyrir tillögur að breytingum á regluverki smáfarartækja, ásamt áherslum og aðgerðum um örugga notkun, búnað og umhverfi smáfarartækja hér a landi sem samræmist þessum markmiðum. Starfshópurinn á að eiga samráð við opinbera aðila og einkaaðila svo og almenning.

Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) hafa komið eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri við starfshópinn:

1. Aðgerðir sem starfshópurinn leggur til má ekki verða til þess að draga úr möguleikum hjólreiða t.d. með því að skerða réttindi þeirra sem nota reiðhjól, auka skyldur á þennan hóp eða leggja frekari tálmanir í vegi hjólreiða.

2. Smáfarartæki ýmiskonar eru skilgreind í 3. grein, 30. tölulið, c. lið í umferðarlögum. LHM leggja eindregið til að þau verði sett undir sérstaka skilgreiningu, Smáfarartæki. Um þau geta gilt ákvæði um reiðhjól ef ef ekki er annað tekið fram um þau í umferðarlögum.

3. Rafskútur og rafreiðhjól frá leigum er illa lagt á stígum og gangstéttum um allan bæ og getur stafað hætta af þeim fyrir þá sem hjóla um stígana. LHM leggja til að settar verði reglur um lagningu leiguhjóla og að ekki megi skilja þau eftir þar sem þau eru fyrir og valdi hættu á stígum. Í framkvæmd má skilgreina margar aðgengilegar leigustöðvar með rafrænum girðingum (þar sem notast er við GPS-staðsetningar leiguhjóla) þar sem skilja verður þessi tæki eftir en ella að borga aukagjald.

4. Slysahætta af smáfarartækjum virðist einkum tengjast notkun fullorðina á leiguhjólum undir áhrifum áfengis- og vímuefna. LHM leggur til að spornað verði gegn því vandamáli með því að takmarka útleigu á hjólum á ákveðnum svæðum á ákveðnum tímum. Það er t.d. að hætta útleigu þeirra í miðborginni um helgar frá kl. 21-06.

5. Slysahætta virðist einnig tengjast notkun barna á rafskútum. LHM leggur til að spornað verði gegn því vandamáli með því að setja aldursmörk á notkun rafskúta í umferðarlögum. Þar mætti miða við t.d. 13 ára aldur.

6. Hraði smáfarartækja er takmarkaður við hraðann 25 km á klst. Þau hafa flesta þá eiginleika sem reiðhjól hafa í umferðinni og því leggur LHM til að í umferðarlögum gildi sömu reglur um þau og fyrir reiðhjól. Til dæmis verði umferð þeirra heimiluð á götum.

7. Það virðist algengt í tilfelli rafskúta og léttra bifhjóla í flokki I að stýringar sem takmarka hraða þeirra við 25 km á klst. hafi verið aftengdar. Hafa þarf skýrar reglur í löggjöfinni sem heimilar lögreglu að taka slík tæki úr umferð þar til þau hafa verið lagfærð og sekta ökumenn þeirra fyrir brot. Lögregla þarf að útvega sér búnað til að kanna hámarkshraða slíkra ökutækja í umferðinni.

Árni Davíðsson,
formaður Landssamtaka hjólreiðamanna.

© Birtist í Hjólhestinum mars 2022.