Ferðafélög landsins hafa boðið upp á hjólreiðaferðir lengi. Hefðin er rík hjá Útivist. Í allnokkur ár hélt félagið úti svokallaðri Hjólarækt, þar sem hjólað var á laugardögum á veturna á höfuðborgarsvæðinu og svo farið í lengri túra á sumrin. Um þessar mundir eru ferðir hjónanna Páls Ásgeirs Ásgeirssonar og Rósu Sigrúnar Jónsdóttur, hjá Ferðafélagi Íslands afar vinsælar og vel sóttar. Deildir Ferðafélags Íslands hafa af og til boðið upp á hjólreiðaferðir. Ein þeirra er Ferðafélag Ísfirðinga.

Ferðafélag Ísfirðinga var endurvakið árið 2010. Árið 2014 var farið í fyrstu hjólaferðirnar. Þær voru tvær talsins. Síðan þá hefur verið farin ein hjólaferð á ári.

 

2014 Óshlíð

17. maí 2014 skyldi bryddað upp á nýjungum hjá Ferðafélagi Ísfirðinga. Þá stóð til að fara í hjólreiðaferð. Það var gert en ekki með fararstjóranum sem ætlaði að fara. Sá sem fara átti var Þröstur Jóhannesson sem lengst af var ötulasti maðurinn í göngunefnd félagsins. Hann hefur auk þess leitt allar skíðagöngur þess. Einhverra hluta vegna komst hann ekki í þessa fyrstu hjólaferð en fékk annan til þess. Það var ég, höfundur þessarar greinar. Síðan þá hef ég leitt allar hjólreiðaferðir félagsins. Fyrsta ferðin var um Óshlíð. Auk mín mættu 12 manns og ég var drullustressaður, því leiðsögumenn þurfa helst að geta sagt frá einhverju. Flestir þarna vissu meira um Óshlíðina en ég. Hvatti ég fólk sem hafði frá einhverju að segja að spara það ekki. Þannig fengust nokkrar hræðilegar slysasögur. Af nógu er að taka. Auðvitað var líka eitthvað rætt um sögu vegarins og samgangna og um verbúðirnar sem voru undir hlíðinni. Ferðinni lauk við Óshólavita. Ég bauð þeim sem vildu að halda áfram til Bolungarvíkur að skoða nýju varnargarðana, nýtt útilistaverk sem mig langaði að monta mig af og sitthvað fleira. Nokkrir þáðu það. Ég hitti kunningja minn sem var nýkominn úr bjargi og seldi mér svartfuglsegg. Fáeinir hjólarar sem nenntu að hjóla með mér heim til Ísafjarðar borðuðu eggin með mér.

2014 - Heimsins besta drykkjarvatn er í Vígðá í Seljadal á Óshlíðinni.

 

2014 - Nærri áratugur er liðinn frá því þessi mynd var tekin. Nú er skarðið orðið mun stærra.
Það verður sorglegt þegar það verður komið alveg upp í klett og leiðin lokast.
Óshlíðin er heimsklassa hjólaleið. Ljósmynd: Rögnvaldur Þór Óskarsson.

 

Dýrafjörður

Fáum árum áður skrifaði ég mína fyrstu Hjólabók. Ég ákvað að prófa eina af leiðum bókarinnar á fólki. Þetta er stutt og auðveld leið; innsti hluti Dýrafjarðar, 16 km að lengd. Vegurinn hefur lítið viðhald fengið síðan fjörðurinn var brúaður, árið 1990. Hann var orðinn grófur á köflum þegar ferðin var farin. Sumum reyndist leiðin erfið. Það var því að kenna að ég hafði auglýst hana sem ágætis æfingarleið fyrir alla fjölskylduna. Einn ferðalangurinn var helst til of ungur og ekki bætti úr skák að það var alltaf að leka loft úr dekki hjá honum. En þetta var hraustur og þrjóskur strákur sem kláraði hringinn og allir voru sáttir að lokum. Rögnvaldur Óskarsson, formaður félagsins um þessar mundir, var ekki í ferðinni. Aðrir höfðu ekki rænu á að taka ljósmyndir þá. Það þarf bara að trúa því að þessi ferð hafi verið farin. Engar ljósmyndir sanna það. Það er heldur engin lygi að þátttakendur hafi verið 7 talsins.

 

2015 Ísafjörður

Frá því ég flutti á Ísafjörð hef ég notið þess hversu mikið er af alls kyns vegum, stígum og troðningum sem gaman er að ganga á og hjóla eftir. Ég vildi leyfa fólki að njóta með mér og kynnti ferðina þannig að þau sem ekki hjóluðu mikið gætu kannski kynnst einhverju nýju. 7 manns þáðu boðið. Ég held að flestir hafi farið einhverja króka og kima í fyrsta sinn í þessari ferð. Það þurfti í það minnsta að passa upp á að fólk æddi ekki á undan fararstjóranum, því hann gat verið skyndilega horfinn inn í dularfullt sund eða myrkan skógarstíg. Síðan þessi ferð var farin hefur mikið bæst við af stígum á Ísafirði.
Þetta sumar stóð til að vera með aðra Skutulsfjarðarferð fyrir fólk sem þolir meira erfiði. Vegir og slóðar ofan byggðar skyldu rannsakaðir. En áður en þar að kom flaug ég á hausinn í Hjólabókarleiðangri og braut í mér viðbein. Ég gat ekki hjólað meira það sumarið. Hálendið fyrir ofan Ísafjörð beið seinni tíma.

2015 - Á heimasíðu Ferðafélags Ísfirðinga eru ljósmyndir úr flestum ferðum þess.

Svona er gengið frá þeim. Þar má meðal annars finna þessa mynd sem Pernilla Rein tók.

 

2016 Óshlíð – næturferð

Sumarnóttin er besti tíminn til að hjóla Óshlíðna, sérstaklega ef það er léttskýjað. Sólin er fögur þaðan að sjá á þeim tíma. Ég tók áhættuna, að fá rétta veðrið og að einhver nennti að mæta í hjólreiðatúr um miðja nótt. Mér finnst reyndar betra að vera með fáum en mörgum. Veðrið var gott og það mættu fjórir. Semsagt alveg fyrirtaks ferð. Ég held að þetta hafi verið fyrsta ferðin hjá Ferðafélagi Ísfirðinga sem ekki byrjaði að morgni dags.

2016 – Nótt

 

2017 Seljalandsdalur – Botnsheiði – Dagverðardalur

Nú var komið að því að kynna hálendið upp af Ísafirði. Þessa helgi var akkúrat þríþrautarkeppni á Ísafirði og flestir sem nenntu að hreyfa sig hafa líklega verið að keppa í henni eða fylgjast með henni. Einn vinur minn (eldri og feitari en ég) mætti í mína ferð og tveir krakkar sem voru nýbúnir að klára mest alla orku í hlaupi og sundi. Sjálfur var ég á lánshjóli því hann Trekkur minn var á verkstæði. Öll þræluðumst við lengst upp á heiði. Þar gengum við rúman kílómetra yfir ófærur. Ég var að reka áróður fyrir að þarna þyrfti að koma tenging til að ná góðri hringleið. Uppi lentum við í þoku. Þessi strembna leið var samt hin skemmtilegasta. Enginn sá eftir að hafa farið hana þrátt fyrir stunur og svita. Ég bauð upp á að kynna enduro-brautir sem var þá nýbúið að leggja. Það var kurteislega afþakkað.

 

2016 - Puðað og streðað.

 

2016 - Runnið ljúflega.

 

2018 Önundarfjörður 1

Móðir okkar Jörðin snýst um Önundar­fjörðinn. Ég var nýbúinn að teikna göngu­leiða­kort af innsta hluta fjarðarins fyrir ferða­bóndann Pál í Korpudal. Páll ólst þar upp. Hann er minnugur, fróður og skemmtilegur. Mér fannst því kjörið að fá hann til að segja frá svæðinu og kynna í leiðinni nýja kortið. Hann var hinn eiginlegi fararstjóri. Ég gerði ekki annað en að skipuleggja ferðina. Því klúðraði ég. Venjulega þegar ég hjóla þennan tæplega 15 km hring er ég um klukkutíma að því. Ég reiknaði með einum og hálfum til tveimur tímum en þeir urðu fjórir. Það var ekki bara vegna þess að Páll hefði frá svo mörgu að segja (sem hann sannarlega hafði) heldur buðu hann og Halla, kona hans, okkur líka í kaffi og meððí. Í ferðalok þáðum við líka veitingar hjá Gunnu í Breiðadal. Hún ákvað að taka á móti ferðafélaginu með ókeypis kaffi og rabbarbaragraut. Við vorum bara þrír sem þáðum það, því tvö voru búin að fá nóg og drifu sig heim.

2018 - Í kaffi á Kirkjubóli í Korpudal.
Húsráðendurnir Páll og Halla sitja undir hvölunum.

 

2018 - Í rabbarbaragrautarveislu í Neðri-Breiðadal (Kaffi Sól).
Húsráðandinn, Guðrún Hanna Óskarsdóttir, tók myndina af okkur Pétri og Páli.

 

2019 Önundarfjörður 2

Mér fannst Önundarferðin svo frábær að ég vildi að fleiri nytu hennar. Stjórn ferðafélagsins samþykkti að ég gerði aðra tilraun. Í þetta sinn klúðraði ég engu og það mættu miklu fleiri (11 með fararstjórunum), enda var ég búinn að kynna ferðina vel. Veðrið var gott og Páll var í stuði. Sami háttur var hafður á og árið á undan, að Páll fór á undan á fjórhjólinu sínu og stoppaði á stöðum þar sem frá einhverju var að segja. Útgáfa þessa árs var lítið eitt lengri í kílómetrum talin, þar sem farinn var eldri og fáfarnari vegur en núverandi alfaraleið sem liggur yfir Vaðal og Vöð. Ein eldri kona hélt að hún ætlaði ekki að ná að klára hringinn. Eftir fyrirlestra hennar um lélegt þrek og lungu kom í ljós að hún hafði hjólað leiðina föst í bremsu.

2019 - Spjallpásur voru margar, þó ekki færi hálft ferðalagið í kaffiþamb.

 

2020 Umhverfis Ísafjörð á 80 mínútum

Við Edda Björk Magnúsdóttir, þáverandi formaður félagsins, vorum að ræða um næstu ferð; hvort það væri kominn tími á aðra innanbæjarferð. Uppnuminn af stígakerfinu sá ég fyrir mér góða hringleið umhverfis Ísafjörð. Edda kom þá með bókmenntalega tilvitnun. Ég tók hana á orðinu og skipulagði ferð sem tæki 80 mínútur. Hún tók 80 mínútur. Þátttakendur gáfu sér samt tíma til að prófa fatbækið sem einn ferðafélaginn, Henna-Riikka Nurmi var á. Það tók svosem ekki langan tíma, því við vorum ekki nema 5 í ferðinni.

2020 - Dæmigerð auglýsing fyrir ferð á vegum Ferðafélags Ísfirðinga.

 

2020 - Við upphaf ferðar, hjá gamla sjúkrahúsinu. Nýja sjúkrahúsið í bakgrunni.

 

2021 Hestakleifarfjall

Það var kominn tími á krefjandi ferð. Hún var skipulögð með löngum fyrirvara. Því miður stangaðist hún á við annan hjólreiðaviðburð. Það kom í ljós að þetta var sami dagur og haldið var veglegt enduro-mót á nýju fjallahjólabrautum Ísfirðinga. Það mættu ekki nema tveir í mína ferð og það var þoka. En þokunni létti og þegar upp var staðið var þetta ein af gagnlegustu hjólaferðum mínum sem fararstjóri. Hún nýttist í tvennt í viðbót: Þessi leið upp Dagverðardal, upp á Botnsheiði, yfir Hestakleifarfjall, niður í Syðradal og Óshlíðina heim, nýttist aftur í Vestfjarða-hjólabók. Nýtt tilbrigði, nýjar ljósmyndir og fleira nýtt. Ferðin nýttist einnig sem rannsóknarleiðangur fyrir Cycling Westfjords-verkefnið. Þau sem mættu voru Halldóra Björk Norðdahl, höfundur þess verkefnis, og Kristinn, maður hennar. Við spáðum mikið og spökúleruðum og nú eru komnar upp merkingar á þessari leið. Svo reyndist ferðin hin skemmtilegasta og ég bauð þeim hjónum heim í ís að henni lokinni.

2021 - Komin upp á Botnsheiði. Þokan heldur sig niðri í firðinum.

 

2021 - Sumir kaflar hélt ég að væru ekki hjólanlegir, þangað til Kristinn sýndi mér fram á annað. Honum tókst þó ekki að hjóla upp sneiðinginn upp á Hestakleifarfjall, þennan sem sést í bakgrunni.

 

2021 - Fleygiferð niður grýtta hlíð. Það er ekki skrítið þó að springi aðeins.

 

2022 Þingmannaheiði

Hin leiðin sem ég endurnýtti í nýju Vestfjarðahjólabókinni er hringleið sem að hluta til liggur yfir Þingmannaheiði. Nýja bókin státar af óvenju mörgum mannamyndum. Halldóra og Kristinn prýða kaflann um Hestakleifarfjall og Ómar Dagbjartsson og Arnór Magnússon skreyta kaflann um Þingmannaheiði. Þeir voru einu ferðafélagarnir í þeirri ferð. Reyndar voru þeir félagar eins og bergmál af ferðinni árið á undan. Arnór og Kristinn eru báðir alfa-týpur sem vilja fara fremstir og þjóta yfir allt sem fyrir verður, því erfiðara, þeim mun betra. Ómar og Halldóra eru varfærnir einstaklingar sem eiga það auk þess sameiginlegt að bæði voru að prufukeyra glæný reiðhjól. Það kostaði auka aðgát. Einhversstaðar mitt á milli dólaði ég. Þegar heiðin var að baki og við komum niður á bundna slitlagið við sjávarsíðuna hittum við hóp hjólakappa. Margir slíkir heimsóttu Vestfirði í kjölfar þekktra ofurhjólara sem kynntu svæðið vel. Þarna misstum við Ómar af Arnóri. Hann fór á undan og hélt að við værum alveg á hælunum á honum. Það voru hinsvegar hjólagarparnir. Loks áttaði hann sig á hvað var að gerast og við þrír urðum samferða síðasta spölinn og að Flókalundi. Þar bauð Arnór okkur Ómörunum að borða. Þetta var sérlega skemmtileg ferð, ekki síst vegna þess að ég hélt um tíma að hún yrði ömurleg. Það var nefnilega rok og rigning daginn sem hún átti að vera. Ég frestaði henni um einn dag, sem betur fór.

2022 - Dæmigerður Arnór að fara yfir á.

 

2022 - Ómar á niðurleið. Myndin er ekki skökk.

 

2022 - Það er alltaf tími til að stoppa og spjalla, taka myndir, fá sér nesti og spá og spekúlera.

 

2023

Í ár ætla ég að vera með ferð í Súgandafirði. Það liggur vegslóði í norðanverðum firðinum frá Botni út í Selárdal. Það er næstum aldrei neinn á ferðinni þarna. Leiðin er mjög skemmtileg; passlega torfær fyrir venjuleg fjallahjól. Hún liggur ýmist uppi í kjarri grónum hlíðum eða neðst niðri í fjöru, þar sem stundum þarf að hjóla yfir þarabreiður. Alls er leiðin ekki nema tæpir 15 kílómetrar að lengd. Svæðið er í námunda við þéttbýlustu staðina á norðanverðum Vestfjörðum. Kannski nenna fleiri en tveir að mæta.

2023 - Frábær hjólaleið sem fáir eru búnir að uppgötva.

Texti og flestar myndir: Ómar Smári Kristinsson

© Birtist í Hjólhestinum mars 2023

 

Smellið á mynd til að skoða þær í fullri upplausn: