Nafn og aðsetur

1.grein: Félagið heitir Íslenski Fjallahjólaklúbburinn, skammstafað ÍFHK.

2.grein: ÍFHK eru sjálfstæð og óháð samtök.

3.grein: Póstfang er Brekkustígur 2, 101 Reykjavík.

Markmið

4.grein: Markmið félagsins er að auka reiðhjólanotkun og vinna að bættri aðstöðu fyrir þá sem hjóla og að vinna að eflingu og framgangi ferðalaga og samgangna á reiðhjólum hérlendis. ÍFHK standi meðal annars fyrir útgáfu- og fræðslustarfsemi til að kynna stefnu sína og markmið.
 

Rekstur ÍFHK

5.grein: Tekjur ÍFHK eru: 1. Félagsgjöld sem ákveðin eru á aðalfundi ár hvert. 2. Framlög frá stuðningsaðilum. 3. Aðrar tekjur.

6. grein: Reikningsár félagssins er 1. oktober - 30. september.

7. grein: Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjald fyrir aðalfund, hefur hann ekki atkvæðisrétt á aðalfundi og er ekki kjörgengur í stjórn og nefndir. 

Stjórn og fundir

8. grein: Aðalfund félagsins skal halda í október ár hvert og skal hann boðaður með minnst 10 daga fyrirvara. Einstaklingar sem gengið hafa í ÍFHK fara með eitt atkvæði á fundinum.

9. grein: Stjórn félagsins skal kjörin á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður, sem er kosinn í sér kosningu og skal hann kosinn til eins árs í senn. Síðan skulu tveir menn kosnir til stjórnar árlega, til tveggja ára í senn. Stjórn skiptir með sér verkum og skal vera skipað í embætti varaformanns, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda. Sé formaður kosinn úr stjórn eftir árs stjórnarsetu, af tveimur, skal kosið í stað þess stjórnarmanns til eins árs. Ef stjórnarmaður hættir áður en kjörtíma hans lýkur, þá tekur varamaður sæti í stjórn og síðan kosinn nýr varamaður á næsta aðalfundi félagsins.

Einnig skal kjósa tvo varamenn í stjórn, formenn nefnda og skoðunarmann reikninga til eins árs í senn.

10. grein: Stjórninni ber að gæta hagsmuna félagsins. Hún ber ábyrgð á eignum þess og boðar til funda. Stjórnarfundir skulu haldnir að jafnaði mánaðarlega. Stjórnin getur enga fullnaðarákvörðun tekið, nema þrír stjórnarmenn séu henni fylgjandi. Stjórnin getur vikið mönnum úr félaginu álíti hún framkomu þeirra félaginu til vansa. Þó getur viðkomandi óskað þess að málið verði tekið fyrir á félagsfundi.

11. grein: Lögum þessum verður einungis breytt á aðalfundi félagsins með einföldum meirihluta greiddra atkvæða. Allar tillögur um lagabreytingar verða að hafa borist stjórn amk. 14 dögum fyrir aðalfund. Kynning á lagabreytingum verður kynnt í aðalfundarboði til félagsmanna.

- Lög samþykkt á aðalfundi 31. október 2019 -