Hjólhesturinn des 1995 Nú höldum við áfram að draga fram gamla Hjólhesta og rifja upp sögu klúbbsins sem nú er 22 ára gamall. Eins og áður hefur verið rifjað upp var 1995 öflugt ár í útgáfu Hjólhestsins og blöðin þau stærstu fram að því. Desemberblaðið var 28 síður. Blaðið hafði verið sett upp með ritvinnsluforritum þess tíma, prentuð út þar sem höfundar komust í prentara, oft gamaldags nálaprentara, stækkað og minnkað í ljósritunarvélum, dálkarnir klipptir niður og límdir á sína staði ásamt teikningum.

Nýtt fólk var komið í ritnefnd þegar þetta blað var gefið út með mikinn metnað til að bæta blaðið, m.a. Páll Guðjónsson, undirritaður, sem stýrði útgáfunni og hélt því áfram nokkur næstu ár. Gísli Jónsson sá um uppsetninguna og Jón Örn sá um teikningar sem fyrr og fleiri lögðu hönd á plóg.

Allt blaðið má lesa hér en þær greinar sem hafa ratað á vefinn eru líka taldar upp með úrdráttum, og hér má skoða alla þá Hjólhesta sem komnir eru á vefinn.

Leiðarinn

Nú er liðið enn eitt gæfuríkt sumar fyrir hjólafólk. Aldrei hefur sést annar eins fjöldi manns hjólandi um götur borgarinnar og þetta sumar og ekki var það til að draga úr áhuganum þegar borgin tók sig til og byrjaði að rífa niður helstu farartálmana við Miklubraut, Suðurlandsbraut og víðar. Endapunkturinn i ár verður svo þegar nýja göngu- og hjólabrúin yfir Kringlumýrarbraut verður opnuð, sem verður vonandi um svipað leyti og þetta blað kemur út. Þá opnast mjög skemmtileg leið sem gerir manni kleift að hjóla vestan af Ægissíðu og allt upp í Breiðholt eða Árbæ án þess að þurfa að kljást við bílaumferðina eða þau óhreinindi sem henni fylgir.

Ristillinn (ritstjóra pistillinn) vék fyrir leiðara frá ritstjóra sem má lesa í heild sinni hér.

Ódýr bylting í samgöngumálum hjólafólks

Það má segja að á þessu ári höfum við hjólreiðamenn horft á byltingu í samgöngumálum okkar þar sem vaskar sveitir manna frá bænum hafa farið um margar af helstu leiðum okkar, brotið þar kanta og fjarlægt steypueyjar af gatnamótum sem gerðu ekkert annað en að hindra umferð fólks. Í staðinn komu fallegar hellulagnir og góðir flágar. Fyrir vikið hrökklast færri út í stórhættulegt bílahafið á götunum eftir að hafa gefist upp á hindrunarstökki yfir farartálma sem ómældum upphæðum hefur verið sóað í uppbyggingu á.

Borgaryfirvöld hafa oft verið skömmuð áður en trúlega kom sparkið í rassinn sem vakti þau þegar Reykjavíkurdeild Sjálfsbjargar kynnti úttekt á aðgengi fatlaðra í Reykjavík. Eftir að hafa farið um allar götur bæjarins og skoðað öll gatnamót var niðurstaðan sú að ein gata hefði fundist sem var sæmilega fær fötluðum. 2.000 hindranir lokuðu öllum öðrum götum borgarinnar. Það var ákveðið að taka til hendinni og árangurinn er strax auðséður.

Lesið allan pistilinn hér.

0405-bru2-500.png

 

Hjólreiðastígar og skipulagsmál

Haustið 1993 afhenti klúbburinn fulltrúum borgarinnar undirskriftalista um bætta aðstöðu til handa hjólreiðamönnum. Um svipað leiti sendi klúbburinn bréf til Dómsmálaráðuneytisins um að bæta við í umferðamerkjaflóruna merki sem varar bílstjóra við hjólandi umferð. Fljótlega upp úr áramótunum var stofnuð hjólanefnd innan borgarkerfisins sem átti að skila af sér tillögum um úrbætur fyrir kosningar. Fengu hagsmunasamtök fatlaðra og Fjallahjólaklúbburinn að koma með sínar tillögur.

Eftir kosningar, vorið 1994 var haldið áfram með þessa vinnu. Að auki var kominn maður í umferðanefnd borgarinnar sem hafði mikla reynslu af hjólreiðum, Óskar Dýrmundur Ólafsson. Sumarið 1994 stóð klúbburinn fyrir myndasýningu í Þróttheimum þar sem almenningur fékk að sjá samanburð á stígum hér á landi og erlendis. Sú sýning vakti töluverða athygli og var hún sýnd í styttri útgáfu í Borgarskipulagi um veturinn, þar sem allir fulltrúar þessa málaflokks voru viðstaddir.

Er talið að hún hafi líka vakið þar marga til umhugsunar þó svo að umræður eftir sýninguna hafi því miður að mestu leiti snúist um það hvernig setja mætti upp hraðahindranir fyrir hjólreiðamenn!

Lesið allan pistilinn hér.

 0405-hindranir-500.png

 

Landssamtök íslenskra hjólreiðamanna

Þann 23. nóvember síðastliðinn markaði hjólahreyfíngin sér tímamót. Haldinn var stofnfundur að heildarsamtökum fyrir hjólreiðamenn á Íslandi sem 80 manns sóttu. Samtökin eru stofnuð til þess að styðja við bakið á þeim hjólafélögum sem fyrir eru og hvetja til stofnunar nýrra félaga sem öll hafa það sameiginlega markmið: að efla hjólreiðar á Íslandi.
Í því tilefni fékk undirbúningsnefnd fyrirlesara til að fjalla nokkra þætti hjólreiða á Íslandi og svo hjólreiðar í nágrannalöndum okkar. Mikla athygli vakt nærvera og svo framlag Thomasar Krag á fundinum. Hann kom til landsins í boði samtakanna, annars vegar sem framkvæmdastjóri Den Dansk Cyclist Forbund, DCF, og hins vegar sem formaður European Cyclists Federation, ECF.

Meðan hann var hér þá átti hann fund ásamt Óskari Dýrmundi Ólafssyni frá undirbúningsnefnd með ýmsum aðilum sem hafa unnið að málefnum hjólreiðamanna. Voru fundir haldnir með Borgarskipulagi, Umferðaráði, Sigurði Magnússyni framkvæmdastjóra Íþróttasambands Íslands, ÍSÍ, og Svavari Gestssyni alþingismanni en hann hefur lagt fram frumvarp um grundvallarbreytingar á vegalögum þar sem gert yrði ráð fyrir hjólandi umferð.

Lesið allan pistilinn hér.

0405-lihm-500.png

Hvernig klekkja má á Kuldabola á eyrum og hnjám

Jæja elskurnar þá fara brátt í hönd þessir uppáhaldsmánuðir okkar hjólreiðamanna des.-mars. Oft er nú svo að Kuldaboli vill vera að narta í okkur á hinum ýmsu stöðum. Ég ætla því að nota hönnunarhornið í þetta skiptið til að sýna ykkur hvernig klekkja má á Kuldabola á eyrum og hnjám.

Lesið allan pistilinn hér..

 

Landmannalaugar 1995 - opinská lýsing

Opinská lýsing ungrar konu af sinni fyrstu ferð með ÍFHK.
Helgina 8. - 10. september 1995 fór ég í mína fyrstu ferð með ÍFHK. Ferðinni var heitið um svokallaða Krakatindaleið, sem liggur að hluta til á Fjallabaksleið Syðri, hjólað skildi frá Landmannalaugum niður á Hellu í tveimur áföngum. Á laugardagsnótt var ætlunin að gista í svokölluðum Dalakofa sem er í einkaeign og klúbburinn hefur fengið að láni gegn vægu gjaldi.


Lesið alla ferðasöguna hér og hér má skoða myndir úr ferðinni.