pall-gudjonsson.jpgTillaga Skipulagsstofu  höfuðborgarsvæðisins  rifjuð upp

Árið 1981 eða fyrir 30 árum starfaði Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins hér og lagði meðal annars fram hugmynd að aðalhjólreiðastígakerfi fyrir allt höfuð­borgarsvæðið sem vert er að rifja upp. Þar var aðal áherslan á að bjóða fólki vandaðan valkost við að hjóla í þungri umferðinni á stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins með víðtæku stígakerfi. Af hverju þessar leiðir eru ekki komnar 30 árum seinna og af hverju skipulagsvinna hvers sveitafélags á höfðuborgarsvæðinu í dag tekur lítið tillit til hinna skil ég ekki. Það eru jafnvel lagðir stígar að næsta sveitafélagi sem enda bara þar ef næsta sveitafélagi hentar ekki að láta leiðina halda áfram.

Í fyrra varð t.d. alvarlegt slys til þess að klárað var að tengja síðustu metrana af stíg frá Kópavogi að undirgöngum yfir í Mjódd í Reykjavík. Ungur drengur hafði ekki fundið undirgöngin sem þó höfðu verið þar alla hans ævi. Meðfram Reykjarnesbrautinni er engin hjólaleið komin enn, þar sem hún liggur frá Reykjavík í gegnum Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð. Það vantar líka hjólastíga úr Reykjavík meðfram Vesturlandsvegi upp í Mosfellsbæ og áfram og meðfram Hafnarfjarðarvegi til Hafnarfjarðar.

Hraðbraut án aðstöðu fyrir hjólandi

Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins taldi skýra þörf á hjólastígum á þessum leiðum fyrir 30 árum og þær hafa verið eitt helsta baráttumál hjólreiðamanna alla 22 ára sögu ÍFHK og LHM síðustu 12 ár. Samt vantar þá enn.

Á sama tíma hafa stofnbrautir fyrir bifreiðar vaxið hömlulítið og ekkert til sparað svo þær líkjast einna helst erlendum hraðbrautum margfalt stærri samfélaga.

Það átti að kosta 90 milljónir að leggja 150 km. af 2,5 m breiðum stígum en á móti var áætlaður 30 m.kr. árlegur sparnaður vegna færri slysa, minni reksturs einkabíla og minni þarfar fyrir gatnaframkvæmdir.

Seinna sama ár var valin sú lausn að leyfa hjólreiðar eftir gangstéttum. En það var ekki fyrr en 14 árum seinna eða 1995 sem var gengið í að útbúa flága á einum 2000 gatnamótum eftir ábendingar frá Reykjavíkurdeild Sjálfsbjargar enda erfitt að ferðast um háa kanta hvort sem maður er á reiðhjóli eða í hjólastól. 1995 opnaði líka brú yfir Kringlumýrarbraut og þar með frábær útivistarleið eftir endilangri Reykjavík. Hjólreiðamenn sem aðrir hafa notað stíginn mikið frá upphafi og fljótt kom í ljós að umferð gangandi og hjólandi fór illa saman. Aftur ákváðu stjórnvöld að ganga á rétt gangandi vegfarenda frekar en kosta til raunverulegra úrbóta og mörkuðu einbreiðar hjólaræmur þar sem engin leið var að ferðast samkvæmt hefðbundnum umferðarreglum. Reykjavíkurborg hefur hætt þessum merkingum en ekki fjarlægt, en Garðabær málaði svona línur síðast í fyrra án nokkurs samráðs við Landssamtök hjólreiðamanna sem hafa mótmælt þessu fyrirkomulagi frá upphafi.

Eftirfarandi eru nokkrir punktar úr þessari tillögu sem flestir eru í fullu gildi nú 30 árum seinna:

aetlun_hofudborgarsvaedis_1981-11.gif

Segja má, að nú séu nánast engir hjólreiðastígar á höfuðborgarsvæðinu. Til þess að hjóla milli hverfa, þarf fólk yfirleitt að notast við stofn- eða tengibrautir og þá innan um mikla bifreiðaumferð.  Þetta skapar hættu og óþægindi, bæði fyrir hjólreiðamenn og bifreiðastjóra.

Áhugi á hjólreiðum hefur vaxið töluvert hér á landi undanfarið.

Skólabörn nota reiðhjól talsvert mikið. Nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins kannaði ferðahætti grunnskólanemenda (1979).  Kom í ljós, að um 80% nemenda í grunnskólum eiga reiðhjól og um 34% nota þau til að fara í skólann, ýmist alltaf, oft eða stundum. Rösklega 44% nemenda er ekið í skólann, alltaf, oft eða stundum, en strætisvagn eða skólabíl nota rösk 24%, en færri að staðaldri.

Hér á landi hefur afstaða fólks, til skamms tíma, verið nokkuð neikvæð gagnvart hjólreiðum fullorðinna. Hefur það, ásamt veðurfari, eflaust átt drjúgan þátt í því, hversu fáir fullorðnir nota reiðhjól sem farartæki.

Ef ákveðið verður að gera hjólreiðastígakerfi fyrir höfuðborgarsvæðið í heild, eða hluta þess, þarf slíkt kerfi að uppfylla ýmis skilyrði til þess að geta talist gott:

Aðskilnað frá gatnakerfi.

Vera greið leið frá upphafsstað að ákvörðunarstað.

Liggja um skjólgóð og falleg svæði.

Lengdarhalli verður að vera lítill.

Kerfi verður að vera samhangandi.

Vaxandi áhugi fólks hefur einkum beinst að hjólreiðum sem íþrótt, en einnig er hugsanlegt, að áhugi fólks fyrir þessum ferðamöguleika muni glæðast með hækkuðu orkuverði, og ef það á völ á reiðhjólastígum.

Eins og áður er vikið að, er æskilegt, vegna slysahættu, að skilja hjólreiðastíga frá gatnakerfinu, þó einkum við gatnamót. Á höfuðborgarsvæðinu er byggð yfirleitt dreifð. Gatnakerfið er víða sæmilega vel stigflokkað, þannig að yfirleitt eru það aðeins stofn- og tengibrautir sem tengja hin ýmsu bæjarhverfi saman um óbyggð landsvæði milli hverfa.  Það er því víðast hvar tiltölulega auðvelt og ódýrt, enn sem komið er, að skilja kerfi aðalhjólreiðastíga með undirgöngum eða brúm frá aðalgatnakerfinu.

Tillöguna má lesa í heild sinni hér: PDF skjal

aetlun_hofudborgarsvaedis_1981-10.gifBirtist fyrst í Hjólhestinum mars 2011