Nú á dögunum barst okkur vilyrði fyrir styrk úr Borgarsjóði til að lagfæra Brekkustíginn enn frekar. Er verið að smíða gluggann og smíða blikkkantana á þakkantana svo að ekki leki inn.Einnig þurfum við að setja hita á efri hæðina og bæta kaffiaðstöðuna.Á sumardaginn fyrsta stóð til að mála allt húsið en Hörpumenn sem veittu okkur Hörpustyrkinn í fyrra réðu okkur frá því vegna þess að enn væri of kalt. Það mætti hins vegar vaskur hópur í klúbbhúsið á sumardaginn fyrsta og málaði allt húsið að innan gerði þar ýmis smáverk sem ekki veitt af að gera.Fljótlega verður húsið grunnað og málað að utan með grillveislu í lok dags svo að nú fylgjumst við með veðurspánni, veljum hentugan dag, og hóum í mannskapinn gegnum tölvupóstlistann.

   "Eins og að hjóla yfir mólendi" var fyrirsögn á athyglisverðri frétt í Morgunblaðinu 31. ágúst 2000 um íbúa í Garðabæ sem ofbauð aðstæður til hjólreiða, settist niður og skifaði bréf til bæjaryfirvalda í Garðabæ. Þar færði hún rök fyrir máli sínu og var bréfið tekið fyrir á fundi bæjarráðs. Það þarf að láta í sér heyra ef maður vill breytingar.  Það kom í ljós að þar á bæ var meira lagt upp úr því að leggja lengri stíga en að huga að því að gera það almennilega, stígarnir voru lagðir án undirbyggingar og voru svo skemmdir eftir frostlyftingar að, eins og íbúinn komst svo lýsandi að orði, það er "eins og að hjóla yfir mólendi".
   Það er ekki nóg að leggja stíga sem líta vel út á kortum og í pappírum, það þarf að vanda til verka þannig að þeir nýtist til samgangna, árið um kring og til framtíðar. Lesið fréttina alla hér fyrir neðan.  PG

 

P6180066.jpg Þann 18. júní s.l. var haldin hjólreiðadagur í Reykjavík í samvinnu Fjallahjólaklúbbsins, ÍBR og VÍS. Þarna var boðið uppá ýmsar þrautir og hjólatúr og einnig var þarna kynning á ýmsum búnaði tengdum hjólreiðum. Þarna mætti dágóður slatti af fólki á öllum aldri. Byrjað var á að fara hring í Laugardalnum og allir fengu Sprite og Prince og þau sem voru heppin unnu hjálma og húfur. Síðan kom á daginn að það, að fara bara hring í Laugardalnum var alls ekki nóg fyrir hjólaþyrsta hjólafíkla svo ákveðið var að fara upp í Elliðaárdal og bjuggumst við nú við að aðeins þeir allra hörðustu myndu fara en, það stormaði öll hersingin upp eftir og alla leið upp að stíflunni og þar yfir og svo sömu leið til baka. Það hellirigndi á okkur, nema hvað (annað hefði nú verið ósanngjarnt), en það var logn. Þegar við komum aftur í Laugardalinn fengu allir hressingu og eftir tískusýningu lauk svo þessum ágæta degi.

Sunnudaginn 21. nóvember síðastliðinn var haldin umhverfisráðstefna á kaffihúsinu Sólon Íslandus undir nafninu GRÆNA BYLTINGIN - hverjar eru horfurnar? Áður en hún hófst hjóluðu nokkrir félagar ÍFHK frá Kolaportinu, í fullum skrúða og í baráttuhug, smá hring um miðbæinn, og enduðu síðan við Sólon Íslandus. Í upphafi ráðstefnunnar var afhentur undirskriftalisti, með 3000 nöfnum, þess efnis að bæta þyrfti aðstöðu hjólreiðamanna á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Á haustin hefjast haustútsölur í reiðhjólaverslunum og þar má gera góð kaup á reiðhjólum og fylgihlutum þeirra, og hjólafatnaði ýmisskonar. Haustið er nefnilega rétti tíminn til að kaupa sér reiðhjól, þá eru þau ódýrust. Ekki er þó ráðlegt að kaupa hjól handa börnum á haustin, því hjól sem passar barninu í haust getur verið of lítið næsta vor.