Á fimmtudaginn - 7. maí, kl. 20 - verður kynning að ferðinni í Nesjavelli. Allir sem áhuga hafa á að taka þátt í Nesjavallaferðinni eru hvattir til að líta við í klúbbhúsinu á fimmtudagskvöldið; sýna sig og sjá aðra og spyrja um allt það sem praktískt er og gott að vita fyrir svona gistileiðangur á hjóli. Magnús Bergsson mun kynna ferðina og svara spurningum fólks. Auk þess er lag að kíkja aðeins á gírana, smyrja keðjuna og blása loft í dekkin á verkstæðinu eftir kynningu.

Sunnudagurinn 10. maí verður sögulegur hjólasunnudagur í sögu ÍFHK.
Fyrsta sérlega barna- og fjölskylduhjólaferðin verður farin úr Laugardalnum; nánar tiltekið kl. 11 frá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.
Þessi ferð er hugsuð fyrir alla á eigin hjóli frá 7 ára aldri með fjölskyldum sínum. Við biðjum alla að koma með gott nesti með sér og ef vel gengur, þá borðum við nestið í Geldinganesi. Þangað stefnum við og ætlum að skoða saman eyjuna áður en við hjólum aftur í Laugardalinn.
Þeir sem vilja geta skellt sér í sund við heimkomuna en við áætlum að vera 3 - 4 klukkutíma í ferðinni og fara rólega yfir.
Önnur ferð á vegum klúbbsins verður farin fyrr um daginn; þá hittast öllu vanari kappar við Víkingsheimilið kl. 9.30 og hjóla um borg og bý. Þessi hópur mun væntanlega hjóla til móts við fjölskylduhjólahópinn og þá verður þetta væntanlega býsna glæsileg fylking!

Fimmtudaginn 14. maí langar stjórn ÍFHK að bjóða í klúbbhúsið til fundar öllum þeim félagsmönnum sem langar að koma að skipulagi við afmælisdagskrá félagsins í júlí nk. Þann 5. júli verður klúbburinn 20 ára og viljum við gera eitthvað sérstakt í tilefni þessa. Fundurinn hefst kl. 20 og að sjálfsögðu boðið upp á kaffi og með því :-)

Svo hlökkum við bara til þess að sjá hvert annað á hjólinu á leið til og frá vinnu næstu vikurnar. Hvetjum vinnufélagana með okkur í þátttöku í Hjólað í vinnuna og munið að hver sá sem sleppir bílnum einn dag á þessum tíma; gerir útiloftið hreinna handa okkur öllum :-)

Brosum og njótum þess að hjóla!

Vikulegar þriðjudagshjólaferðir klúbbsins hefjast nk. þriðjudag. Það verður lagt af stað kl. 19.00 frá aðalinngangi Fjölskyldu - og húsdýragarðsins. Við reynum með þessu móti að nota dagsljósið betur - færum okkur fram frá því sem verið hefur - og viljum byrja ferðirnar frá einum af fallegustu stöðum borgarinnar. Ferðanefndin vonar að trúir og dyggir þriðjudagshjólarar séu sáttir við þessar breytingar og ekki síður óskum við þess að fleiri sjái sér fært að koma með út að hjóla. Fyrsta ferðin verður á léttum nótum; við komum saman, skráum í þriðjudagshjólabikarbókina hverjir eru mættir og rúllum svo vestur í bæ um Fossvoginn og fáum okkur kaffi og vöfflur í klúbbhúsinu:-)

Vel heppnuð vorhátíð í klúbbhúsinu. Það var notaleg stemming í blíðunni í Vesturbænum þegar klúbburinn bauð upp á vorhátíð sína þetta árið. Garðar mætti með grillið og fólkið streymdi að. Börnin sem léku sér í kringum húsið tóku vel við sér. Komu í heimsókn létu sér vel líka við hjólafélagið í götunni sem bauð upp á pylsur og kók. Félagar ÍFHK komu á hjólum sínum og nutu samverunnar. Nýstárleg íslensk smíð á bögglaberum var til sýnis á verkstæðinu og fáum við væntanlega fljótlega nánari kynningu á þeirri völundarsmíð. Kvöldið var fagurt og sjálfsagt komið vor í Vaglaskóg:-) Smellið á myndina til að sjá fleiri myndir.

Nú þegar hjólin eru orðin vel smurð, búið að fara á viðgerðanámskeið og farið að huga að fyrstu ferðalögum sumarsins, er lag að koma með góða skapið á vorfagnað ÍFHK í klúbbhúsinu fimmtudaginn 30. apríl. Öll frjáls tóndæmi eru hjartanlega velkomin, hvort heldur fólk fremji þau með sínu eigin nefi eða framkalli þau með verkfærum. Léttmeti verður á grillinu, söngur og gleði.
Allir koma á nýbónuðum hjólunum sínum og þeir sem standa við grillið mega dást að gripunum; hinir chilla á baðstofuloftinu. Nánar um fleiri smáatriði í næstu viku en þangað til; takið frá kvöldið og hlakkið til:-)

Síðasta viðgerðarnámskeið þessa vors er á fimmtudaginn - Sumardaginn fyrsta - í klúbbhúsinu að Brekkustíg 2. Magnús Bergs, Darri og Garðar verða á gólfinu og munda verkfærin með áhugasömum en á efri hæðinni verður Árni Guðmundur að teina vöfflur og baka gíra; hvernig svo sem það bragðast fólki:-) Húsið opnar kl. 20. Þetta er kjörið tækifæri fyrir alla í félaginu til þess að koma og kynna sér starfsemi klúbbsins og aðstöðuna í klúbbhúsinu. Kaffi og með því á baðstofuloftinu.

Íslenski fjallahjólaklúbburinn stóð fyrir heilmiklum ratleik eftir strandlengjunni á milli Korpúlfsstaðagolfvallar og að Ástorgi í Hafnarfirði. Til þess að vera fullgildur þátttakandi í leiknum var nóg að finna 5 - 10 pósta og heimsækja nokkur fyrirtæki á Ferðafagnaði. En fjöldi keppenda gerði gott betur og fóru margir alla póstana 34 og hafa þá hjólað um 50 km leið. Auk þess má gera ráð fyrir að fólk hafi þurft að hjóla til og frá heimilum sínum svo margur hlýtur að hafa hjólað allt að 80 km þennan dag til þess að taka þátt í ratleiknum.

Enn er hægt að skila inn þátttökuseðlum. Það er hægt rafrænt á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. - eða skila þeim inn á Höfuðborgarstofu, Aðalstræti 2, 101 Reykjavík. Dregið verður úr innsendum þátttökuseðlum í beinni útsendingu á Rás 2, 2. maí nk. og listi yfir vinningshafa verður birtur á vef klúbbsins.

Hjólaratleikur Stærsti ratleikur vorsins; Öll strandlengja Höfuðborgarsvæðisins með í Ferðafagnaði

Umhverfisvænn ferðamáti er framtíðareinkenni Höfuðborgarinnar og því býður Íslenski fjallahjólaklúbburinn öllum í ratleik á Ferðafagnaði sem best er að leysa á reiðhjóli. Ferðafagnaður fer fram laugardaginn 18. apríl nk. Frá kl. 12 – 18 verða 34 póstar staðsettir við strandlengjuna frá Korpúlfsstaðagolfvelli í norðri að Ástorgi í Hafnarfirði í suðri. Bilið á milli póstanna er frá 0,6 – 2,0 km. Á hverjum pósti er að finna ágæta lýsingu að því hvar sá næsti er væntanlegur. Auk þess koma nöfn allra póstanna fram á þátttökuseðlinum sem keppendur prenta út sjálfir.

Sunnudagshjóltúrinn 5. apríl 2009 Alveg einstaklega gott veður er þessa dagana. Þó hitastigið þennan sunnudagsmorgun hafi ekki verið mjög hátt, var milt og gott veður. Stefnan var tekin upp í Heiðmörk þar sem þræddir voru nokkrir göngustígar í skógi og trjágöngum og  á götunum til skiptis. Greinilegt er að vorið er komið því gróður er aðeins byrjaður að taka við sér, lóan komin og snjórinn farinn (þó má sjá eins og tvö snjókorn á þessari mynd). Næsti sunnudagshjóltúr verður 19. apríl og er um að gera að skella sér með út í vorið í góðra knapa hópi. Ef hjólið liggur enn í geymslunni síðan í vetur og ef til vill með sprungið dekk, er um að gera að notfæra sér eitt af viðgerðanámskeiðunum sem verða: 9. 16 og 23. apríl (sjá nánar á dagskránni). Komdu með – það er aldrei að vita nema þú uppgötvir eitthvað nýtt í þínu nánasta umhverfi.

Ferðanefnd Fjallahjólaklúbbsins og Guðný Einarsdóttir hjolakonur.net

Mikilvægt er að þau sem vilja í Fjallabaksferðina okkar 4. - 12. júlí skrái sig strax því vegna skipulags verður skráningu að ljúka fyrir páska. Það er hægt að skrá sig í ferðina, eða fá frekari upplýsingar með því að senda tölvupóst til Darra á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. Svo þarf að borga staðfestingargjald 10.000 kr.. Skoðið nánari upplýsingar um ferðina hér .

2. apríl, fimmtudagur:  Kl. 12:00.  Bíllaus lífstíll afhendir samgönguráðherra bréf fyrir utan samgönguráðuneytið að Tryggvagötu fimmtudaginn 2. apríl kl. 12.00. Partur af átaki þeirra til að hvetja fyrirtæki og stofnanir til að gera samgöngusamninga við starfsfólk.  Lesið fréttatilkynninguna alla á vef þeirra billaus.is.

Viðgerðanámskeið2. apríl, fimmtudagur: Kaffihúsakvöld í klúbbhúsinu Brekkustíg 2 frá kl. 20, samhliða myndasýningu úr starfssemi klúbbsins frá síðasta ári og myndbandi um hjólaviðgerðir.

5. apríl: Sunnudagshjóltúrinn frá Víkingsheimilinu kl. 09:30. Vikulegir hjóltúrar á vegum hjolakonur.net frá Víkingsheimilinu kl 09:30 á sunnudagsmorgnum út apríl.  Miðað er við að vera 2 tíma á ferðinni og eru ákvarðanir teknar af hópnum sem mætir hverju sinni. Frá maí skiptum við yfir á racera, hraðinn aukinn og æfingatíminn breytist. Allar nánari upplýsingar gefur Guðný í síma 564 5964.

9. apríl, fimmtudagur: (Skírdagur) Viðgerðanámskeið 1. Grunnatriði tekin fyrir svo sem að gera við sprungið dekk, stilla bremsur og hvernig maður stillir hjólið sitt "rétt". Aðeins talað um gíra.

 

Klúbbhúsið, Brekkustíg 2

Klúbbhúsið Brekkustíg 2

Á Brekkustíg 2 er ágætis aðstaða fyrir 20-30 manns á efri hæðinni, þar sitjum við í mesta bróðerni, sötrum kaffi, ræðum heimsmálin, hjólamálin og þjóðmálin. Það verða haldin kompukvöld, myndasýningar,, viðgerðanámskeið og ýmsar óvæntar uppá­komur sem við kynnum á póstlistanum okkar eða Facebook síðu klúbbsins.

namskeid.jpg

Á jarðhæð er viðgerðaraðstaða fyrir félags­­­fólk. Öll áhöld til viðgerða eru til staðar en ætlast er til þess að fólk geri við sjálft og gangi fallega um aðstöðuna.

Í byrjun apríl munu Samtök um bíllausan lífstíl senda bréf til allra stærstu fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og skora á þau að taka upp samgöngustyrki fyrir þá starfsmenn sem kjósa að nota ekki einkabíla til ferða til og frá vinnu. Slíkur styrkur er ætlaður til þess að verðlauna þá starfsmenn sem ekki kæmu til vinnu á einkabíl og spara fyrirtækinu um leið talsverðan kostnað vegna bílastæða.

Fyrsta bréfið verður afhent samgönguráðherra fyrir utan samgönguráðuneytið að Tryggvagötu fimmtudaginn 2. apríl kl. 12.00. Við hvetjum ykkur til að mæta á staðinn og sýna málefninu samstöðu. Afrit af bréfinu má finna hér

Lesið fréttatilkynninguna alla á vef þeirra billaus.is.

Kæri félagi ÍFHK.

Nýtt fréttabréf Fjallahjólaklúbbsins var að koma úr prentun stútfullt af skemmtilegu efni og ferðasögum. Fréttabréfið hefur verið sent í pósti ásamt skírteini fyrir árið 2009 til félagsmanna sem þegar hafa greitt félagsgjaldið. Tekin var ákvörðun um að hækka ekki félagsgjaldið þrátt fyrir almennar hækkanir að undanförnu. Gjaldið er 2000 krónur fyrir einstakling eða 3000 krónur fyrir fjölskyldu. Því hefur aldrei verið hagkvæmara að gerast klúbbmeðlimur en einmitt nú. Að auki eru fleiri fyrirtæki en áður sem veita afslætti en eftir næstu mánaðamót þarf að vísa fram skírteini 2009. Viðburðum í klúbbhúsinu hefur fjölgað og þeir fjölbreyttari og fleiri ferðir eru fyrirhugaðar í sumar en oft áður. Í ár er 20. starfsár klúbbsins og því verða ýmis konar óvæntar uppákomur árinu sem verða auglýstar síðar.

Sértu meðlimur þá finnur þú greiðsluseðil í heimabankanum. Með því að greiða hann er fyrrgreindur ávinningur þinn og félagsgjaldið fljótt að borga sig. Þú styrkir gott félagsstarf og málefni hjólreiðamanna. Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) fá prósentu af félagsgjöldum en samtökin berjast fyrir bættri aðstöðu hjólreiðafólks og lagningu hjólreiðastíga á höfuðborgarsvæðinu. Árangur af starfi þeirra má glöggt sjá víða í borginni og það er ekki síst þeim að þakka að hjólreiðar eru nú raunverulegur kostur til samgangna. En betur má ef duga skal og margt sem má bæta. Við óskum því eftir stuðningi þínum og framlagi í þróun og velferð hjólreiða á Íslandi.

Kveðja stjórn ÍFHK,

Fjölnir Björgvinsson.

Hjólað um hálendiðÞess má geta að allir viðburðir í mars eru ókeypis og öllum opnir.
Hjá mörgum liggur hjólið í dvala í skammdeginu en nú er vorið á næsta leiti og sólin hækkar á lofti.  Því er tímabært að dusta rykið af hjólinu og kanna loftþrýstinginn í dekkjunum. Má sjá glögg merki á götum og stígum að æ fleiri hjóla allt árið um kring og láta ekki snjó eða kulda slá sig út af laginu enda eru hjólreiðar mögulegar allt árið með réttum búnaði og jákvæðum huga.

5. mars: Kaffihúsakvöld og myndasýning undir yfirskriftinni "Hjólað á fjöllum".

8. mars: Sunnudagshjóltúrinn verður með óhefðbundnu sniði! Lagt verður af stað frá Víkingsheimilinu kl 9:00. Hjólum upp í Mosfellsbæ þar sem við förum í sund. Hjólað aftur til baka að því loknu.

Fimmtudaginn 26. febrúar kl. 20:00 verður sýnd myndin: The science of mountain biking og annað áhugavert myndefni.

Húsnefnd.

smellið á myndina til að sjá fleiri myndir af svæðinu Þessi ferð um Fjallabak er 9 daga og það verður trússbíll í för með okkur. Það gerir ferðina mun aðgengilegri fyrir marga sem efast um eigin getu og hugsanlega reynsluleysi. Við förum af stað úr bænum 4. júlí og komum heim 12. júlí. Sumar dagleiðir munu reyna á, sérstaklega ef við erum óheppin með veður, þannig að þessi ferð er ekki hugsuð fyrir krakka. Það eru aðrar ferðir í boði hjá klúbbnum sem henta krökkum mjög vel.