Við ætlum að kveðja Klúbbhúsið á táknrænan hátt með því að hjóla frá Brekkustíg 2 yfir að Sævarhöfða 31 og taka þar hefðbundið vöfflukaffi í nýju aðstöðunni okkar. Við reiknum með að leggja af stað kl. 14:00 25 apríl 2024.

Vinsamlega merkið við mætingu hér á Facebook viðburðinum, svo við getum áætlað magn af vöfflum og hversu mikið á að hella upp á.

Þá er komið að hinu árlega pökkunarkvöldi. Við munum hittast kl 19:00 fimmtudaginn 14. mars og byrja á því að fá okkur pizzu og gos. Svo pökkum við Hjólhestinum niður ásamt skírteinum þeirra sem eru búin að greiða félagsgjöldin. Margar hendur vinna létt verk.  Pizzurnar eru í boði Fjallahjólaklúbbsins.  Gott ef fólk merkir mætingu við þennan viðburð, svo við getum áætlað magn af pizzum.

Samstarfshugvekja til hjólreiðafólks

Í langan tíma hefur ótrúlega mikið og gott starf verið unnið við skipulagningu og framkvæmd ýmissa viðburða á vegum Fjallahjólaklúbbsins. Margir hafa rétt klúbbnum hjálparhönd við ýmis tækifæri en mikið af innra starfi félagsins hefur þó hvíld á fáum herðum, stundum kannski of fáum. En sú staðreynd að það reynist sífellt erfiðara að fá fólk almennt til að taka virkan þátt í félagsstarfi er alls ekki bundin við Fjallahjólaklúbbinn.
Margt fólk sem skipuleggur alls kyns félagsstarf á ýmsum sviðum, hvort sem það eru fundir, námskeið eða annað, hefur að undanförnu rætt það sín á milli hversu mikla vinnu þarf að inna af hendi til að fá félagsfólk almennt upp úr sófanum og af stað til að njóta allra þeirra fjölmörgu viðburða sem í boði eru.

Samkvæmt hefð förum við í hjólaferð um Eurovision helgina. Í ár ætlum við í Húsafell, gistum þar í bústað með heitum potti. Við höfum bústaðinn fram á mánudag, um að gera að taka langa helgi ef hægt er.

Fyrir ofan er stjórn Fjallahjólaklúbbsins eins og hún var kosin á síðasta aðalfundi. Fremstur til vinstri er Þórður formaður. Síðan Hrönn gjaldkeri sem gerir flest sem gera þarf svo sem að halda utan um félagatalið, opin hús, þriðjudagsferðir, dags- og helgarferðir. Tryggva þekkja allir sem koma í opnu húsin okkar sem snilldar bakara. Sjálfur er ég lengst til vinstri í aftari röðinni, ritari klúbbsins, ritstjóri Hjólhestsins og heimasíðunnar. Síðan koma Geir og Fjölnir sem líka sinna ýmsum hlutverkum. Fleiri koma að starfseminni s.s. í ferðanefnd og húsnefnd.

Fimmtudaginn 16. febrúar 2023 ætlum við að hafa kynningu á ferðum sumarsins.  Hún verður haldin í húsnæði Fjallahjólaklúbbsins að Brekkustíg 2, 101 Reykjavík og hefst kl 20:00 og síðan verður opið hús til kl 22:00  Viðgerðaaðstaðan opin á neðri hæðinni.

Við ætlum að fara yfir ferðir sumarsins í máli og myndum. Dagskráin verður gefin út og fólk getur merkt við á dagatali sínu. Heitt á könnunni, bakkelsi að maula með. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Samkvæmt venju kemur Hjólhesturinn, árlegt tímarit Fjallahjólaklúbbsins, út í mars og enn er opið fyrir aðsent efni. Efnið má vera tengt starfsemi klúbbsins eða bara hjólamenningu almennt, hvort sem það eru ferðalög á reiðhjólum eða reynslan af notkun reiðhjólsins í daglegu lífi og sem samgöngutæki. Við látum aðra um að fjalla um keppnissportið.

Endilega sendið póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. ef þið eruð með hugmyndir af efni. Skilafrestur er til 15. febrúar.

Það er frábært að hjóla um Höfuðborgarsvæðið. Í tilefni af Samgönguviku 16. - 22. september tengjum við saman sveitarfélögin í þremur hjólalestum sem hjóla frá bæjarskrifstofunum í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Seltjarnarnesi, Reykjavík og Mosfellsbæ.

Árnes er í 95 km fjarlægð frá Reykjavík.  Þar er tjaldsvæði, sundlaug og þjóðvegasjoppa.  Þar ætlum við að hjóla helgina 15-17 júlí.  Nema þar verði arfavitlaust veður eða óguðleg rigning, þá förum við kannski til Hvammstanga.  Alla vega.  Takið helgina frá fyrir tjaldferðalag.

Framundan er 3ja daga hjólahelgi.  Gist á tjaldsvæðinu á Hvammstanga eða hver og einn planar sína gistingu.  Aksturstími á Hvammstanga er ca 2.5 klst, um 200 km.

Fyrsta þriðjudagsferðin verður næstkomandi þriðjudag og samkvæmt hefð endar hún í Klúbbhúsinu okkar í Vesturbæ.  Þar verður boðið upp á kaffi og kökur.  Við hittumst við Landsbankann í Mjódd og leggjum af stað þaðan kl 19:30.  Ferðirnar eru styttri og léttari til að byrja með og taka ca 1.5 tíma.  Þegar líður á sumarið lengjast ferðirnar og má þá búast við að þær taki 2-3 tíma.

Aðalfundur ÍFHK var haldinn 7. apríl 2022 eftir frestun vegna Covid takmarkana á samkomum. Gekk hann vel fyrir sig, reksturinn er með ágætum, fjöldi félagsmanna nokkuð stöðugur og hugur í fólki að vera með öfluga starfsemi á árinu.

Síðustu forvöð að nýta nagladekkin. Við ætlum að fara laugardaginn 9 apríl og hjóla Svínadalinn. 40 km á malbiki og góðum malarvegum. Ekki mikil hækkun. En það spáir frosti og snjókomu. Hlýr klæðnaður sem og nagladekk eru nauðsyn.

Þá er komið að okkar árlega pökkunarkvöldi fyrir félagsskírteini og Hjólhestinn okkar, brakandi ferskan úr prentun. Fimmtudaginn 17. mars á Brekkustíg 2, 101 Reykjavík.  Athugið að við byrjum kl 19:00 á pizzuveislu, því er gott að sjá hversu margir koma, endilega merkið "going" á Facebook viðburðinum ef þið mætið í pizzu og gos.