Hjólreiðar eru öruggur fararmáti þó margir virðist gefa sér annað. Í raun eru þær öruggasti fararmátinn á Íslandi. Það er hægt að notast við ýmsa mælikvarða til að mæla slíkt en einn sem er oft notaður í samanburði á milli landa er fjöldi banaslysa. Þau eru blessunarlega fá hér meðal hjólandi, það fyrsta síðan 1997 varð í desember síðastliðnum. Á sama tíma hafa 336 einstaklingar látið lífið í  umferðarslysum, flestir ökumenn eða farþegar bifreiða en einnig bifhjóla og gangandi vegfarendur.  

Evrópusamtök hjólreiðamanna, ECF, birta tölur um fjölda hjólandi sem láta lífið í umferðinni í aðildarlöndum Evrópusambandsins í skýrslu sem kallast The ECF Cycling Barometer og það er fróðlegt að bera þær saman við íslenskar tölur. Því miður er tölfræði um hjólandi umferð af skornum skammti hérlendis en ef horft er til samgöngukönnunar Reykjavíkurborgar má þó finna tölur sem hægt er að miða við*.

Malta fær bestu einkunnina fyrir umferðaröryggi en líklega ekki vegna öruggrar aðstöðu heldur vegna þess að lítið sem ekkert er hjólað þar eins og sést á vöntuninni á síðustu súlunni á fyrra stöplaritinu sem sýnir hlutdeild ferða á reiðhjóli í samanburði við aðra fararmáta. Ísland væri þarna líklega fyrir miðju með 5,5%*. 

 

Hitt grafið sýnir hversu margir hjólandi láta lífið í umferðinni í hlutfalli við hversu mikið er hjólað.

Öruggast virðist samkvæmt þessu að hjóla í Lúxemborg og á Möltu. Svíþjóð, Holland, Danmörk og Finnland koma á eftir sem þau öruggustu í heimi. Með ekkert banaslys árin 1998 til 2014 var Ísland það öruggasta með núll á stöplaritinu fyrir ofan. En slysið 2015 breytti stöðunni, ef tekið er meðaltal þessa tímabils til að jafna út skammtímasveiflur þá reiknast mér til að Ísland sé nálægt nágrannalöndum okkar og þar með samt enn eitt það öruggasta í heimi (0,00003). 

Ísland á annað sameiginlegt með Möltu, hér er enginn launaður starfsmaður hjá hagsmunasamtökum hjólandi né innan kerfisins.

Meðan ríkið kostaði tugmilljarða uppbyggingu mislægra gatnamóta síðustu áratuga setti það ekkert í uppbyggingu fyrir hjólandi. Leiða má líkur að því að þetta fyrsta hjólandi fórnarlamb í umferðinni í 18 ár hafi að hluta til verið  fórnarlamb þess skipulagsslyss sem aðstaðan á slysstað er með tilliti til  gangandi og hjólandi. Aðstöðu sem versnar eða hverfur alveg þegar snjóar eins og þennan dapra morgun í desember síðastliðnum. Þarna og víðar er úrbóta þörf á leiðum milli hverfa og borgarhluta á höfuðborgarsvæðinu og víða um landið. Þó fyrir nokkrum árum hafi verið opnað á fjárveitingar til hjólastíga af hálfu ríkisins eru þær í engu samhengi við hlutdeild hjólandi, stefnu stjórnvalda um að auka hjólreiðar eða áratuga uppsafnaðan vanda þegar kemur að fjárveitingum.

*Sjá umfjöllun í Hjólhestinum 1. tbl. 2014

Lesið líka Hvað er alvarlegt og hvað ekki?
og
Hjólreiðar bjarga mannslífum

 

Hjólhesturinn 25. árg. 1. tbl. mars. 2016