Hjólreiðar hafa aukist mikið undanfarin ár eins og menn hafa orðið varir við en mikilvægt er að upplýsingar séu til um breytingar á vali fólks á ferðamátum og að hægt sé að bera saman upplýsingar milli tímabila. Ýmiskonar gögnum hefur verið safnað um ferðamáta fólks svo sem skoðanakannanir, ferðavenjukannanir og talningar. Allar þessar upplýsingar staðfesta breytingar á ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu þó þær séu gerðar með ýmsum hætti og gefi mismunandi upplýsingar. Það sem gefur besta mynd af aukningu hjólreiða eru skoðanakannanir sem Reykjavíkurborg hefur látið gera í um 10 ár í okt. - des. Hér eru niðurstöður úr þeim teknar saman.

Í skoðanakönnunum hefur verið spurt: „Með hvaða hætti ferðast þú að jafnaði til vinnu eða skóla á morgnana?“ Fram til ársins 2010 voru 17 ára og eldri spurðir en frá og með 2011 eru 18 ára og eldri spurðir. Vikmörk fyrir hjólreiðasvar hafa verið á bilinu +/- 1,1 til 1,7. Spurt er síðla hausts svo veður á könnunartímabilinu getur sennilega haft einhver áhrif á svör milli ára þó það sé ekki í sama mæli og áhrifin á hjólreiðar barna, sem leggjast nánast af yfir vetrartímann ef veðurlag er óhagstætt.

Hlutdeild fullorðinna Reykvíkinga sem hjólar að jafnaði í vinnu eða skóla

Niðurstöður eru sýndar á grafinu fyrir neðan sem sýnir hlutfall fullorðinna Reykvíkinga sem hjóla að jafnaði í vinnu eða skóla. Hjólreiðar héldust í um 2% frá 2003 til 2008. Árin 2009-2011 jókst hlutur hjólreiða en þá hjólaði að jafnaði yfir 5% Reykvíkinga í vinnu eða skóla. Árin 2012 og 2013 hefur þetta hlutfall verið svipað. Segja má með nokkurri vissu að um 5-6% Reykvíkinga hafi að jafnaði hjólað í vinnu eða skóla þessa mánuði undanfarin ár.

Mikill breytileiki er í hjólreiðum eftir búsetu. Á grafinu fyrir ofan er sýnt hlutfall fullorðinna Reykvíkinga sem hjólaði eftir búsetu í hverfum borgarinnar og breytingar sem urðu yfir árin 2008 til 2011. Hjólreiðar jukust allstaðar í borginni nema í Breiðholti og Grafarvogi/Kjalarnesi samkvæmt þessum niðurstöðum. Í öðrum hverfum er aukning nokkur eða mikil. Athyglisverð er aukningin í Vesturbæ þar sem hlutfallið fór úr 2% í um 13% á þessum fjórum árum. Mest er hjólað vestan Elliðaánna en einnig talsvert í Árbæ og Grafarholti. Árið 2013 var búið að slá saman hverfum og voru sambærilegar hlutfallstölur fyrir hjólandi: Mið-/Vesturbær 8%, Hlíðar/Laugard./Háaleiti 7%, Árbær/Grafarholt 3%, Breiðholt 2-3% og Grafarvogur/Kjalarnes 2-3%.

Hlutfall fullorðinna Reykvíkinga sem hjólar að jafnaði í vinnu eða skóla eftir búsetu

Reykjavíkurborg setti sér það markmið árið 2006 að hlutfall hjólandi yrði um 6% af ferðum árið 2026 og má því segja að borgin sé nánast búin að ná því markmiði núna. Í nýsamþykktu aðalskipulagi borgarinar var sett fram nýtt markmið um að hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum yrði a.m.k. 8% árið 2030.
Spennandi verður að fylgjast með breytingum í hlutdeild hjólandi á næstu árum. Stjórn LHM hefur rætt drög að markmiðum samtakanna og þar hefur verið rætt um sem raunhæft markmið að innan 15 ára verði hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum yfir 10% í þéttbýli og yfir 20% á miðsvæðum í þéttbýli. 

Hjólhesturinn 23. árg. 1. tbl. mars. 2014