Í slopp með rannsóknarspjald, skrúfjárn í annarri og pumpuna í hinni, hefur Dr. Bæk birst meðal Íslendinga frá því á vordögum 2008. Hugmyndin var fengin að láni frá vinum vorum Bretum og  Doktorinn fæddist  á Umhverfisráðstefnu sem haldin var í Perlunni á Degi Umhverfisins þá um vorið.

 Frá þeim tíma hefur Dr. Bæk verið vinsæll á vinnustöðum þar sem hann skoðar hjól starfsmanna, pumpar og smyr og ráðleggur hjólreiðamönnum varðandi gott ástand reiðhjóla. Doktorinn vottar ástand hjólsins og smellir að lokum límmiða á stellið sem innsiglar skoðunina.

Dr. Bæk er einnig eftirsóttur á vorhátíðum skóla, fyrirtækja og stofnana.
Þeir sem sinna starfi Doktorsins eru nokkrir laghentir félagsmenn Íslenska fjallahjólaklúbbsins. Á vordögum verður haldið námskeið fyrir nýja Doktora, sem opið er öllum þeim sem hafa áhuga á að starfa í framvarðasveit Dr. Bæk. Námskeiðið verður auglýst þegar nær dregur á póstlista ÍFHK.

Hjólafærni á Íslandi sér um bókanir fyrir heimsóknir Dr. Bæk. Nánar má fræðast um starf Dr. Bæk og Hjólafærni á heimasíðunni www.hjolafaerni.isÁrni og Sesselja við setningu Hjólað í vinnuna. Þau mættu að sjálfsögðu með pumpur og olíu á hjólin og yfirfóru nokkur hjól.