Fyrir nokkrum árum  fór ég að velta því fyrir mér hvort  mögulegt væri að gera hjólreiðar að alvöru samgöngumáta á milli Garðabæjar og Reykjavíkur. Í mínum huga voru það bara brjálaðir menn eða íþróttahetjur sem létu sér detta  í hug að fara þessa leið á reiðhjóli, hvað þá á hverjum degi og jafnvel líka yfir vetrartímann. Ég veit ekki í hvaða flokk hjólreiðamanna ég flokkast en núna fer ég þessa leið á reiðhjóli nánast daglega án þess að finnast ég vera brjálaður eða íþróttahetja. Það hefur komið mér á óvart að þetta skuli vera hægt og að maður geti jafnvel haft gaman af þessu. 

Ástæðan fyrir því að ég fór að stunda hjólreiðar í meira mæli og að nota þær sem samgöngumáta til og frá vinnu var að fá meiri hreyfingu og líkamlega þjálfun sem vantaði mikið upp á síðustu ár. Aðrar ástæður eins og útivist, sport, sparnaður, umhverfisvernd, hvatning á vinnustað og fleira lágu einnig að baki en fyrst og fremst var það  líkamsræktin og betri heilsa sem mér finnst vera mesti ávinningurinn auk þess að hafa gaman að því að takast á við nýjar áskoranir.

Leiðin á milli Ásahverfis í Garðabæ og  Höfðabakka í Reykjavík er nokkuð auðveld yfirferðar og einkennist af hlykkjóttum útivistarstígum, gangstéttum og öllum gerðum af umferðargötum. Ekki er um aðskilda hjólreiðarstíga á þessari leið að ræða nema að mjög litlum hluta og má segja að maður sé þátttakandi í allri þeirri umferðarmenningu og aðstæðum sem fyrir finnast á Höfuðborgarsvæðinu. Auðvelt er að velja um mismunandi leiðir en stundum finnst manni samgönguhjólreiðar ekki passa inn í þessa blöndu útivistarsvæða og almenningssamgangna því reiðhjólið virðist oft á tíðum vera fyrir annari umferð. Samt sem áður hefur þetta nú gengið upp með sérstakri tillitsemi við gangandi vegfarendur og svo aftur mikilli ákveðni og áræðni við ökutæki á umferðargötum. Stór partur af þessu er að vera vel sýnilegur og rétt staðsettur hvar sem maður fer.

Aðstæður á vinnustað skipta miklu máli og ég efast um að ég myndi nenna að hjóla þessa vegalengd dagsdaglega ef ekki væru mjög góðar aðstæður hjá EFLU verkfræðistofu þar sem ég starfa. Góð sturtuaðstaða, búningsherbergi, hjólageymsla og líkamsrækt ef menn vilja taka nokkrar lyftur eftir hjólatúrinn er fyrir hendi og er í raun forsenda fyrir þessum ferðamáta. Einnig er mikilvægt að vera vel útbúinn og á góðu hjóli, sérstaklega yfir vetrartímann þegar veður eru válind og vindar blása en yfir sumartímann er þetta mun minna mál og í raun ekki þörf á sérstökum búnaði nema að hafa sæmilegt reiðhjól og góðan hjálm.

Ávinningur af þessu brölti mínu kom fljótlega í ljós. Eftir 4-6 vikur fann ég fyrir meiri líkamlegum styrk sem var ekki vanþörf á eftir margra ára kyrrsetu. Þetta skilaði sér inn  í daglegar athafnir og útivist þar sem allt varð mun léttara og ég gat  framkvæmt hluti sem mér hafði ekki dottið í hug að gera áður. Auk þess bíður þetta upp á skemmtilegan félagsskap og möguleika á töluverðum sparnaði í rekstri heimilis.
Sverrir Jóhannesson