Í samfélagi þar sem stjórnvöld telja að ekkert séu samgöngur nema þær séu vélknúnar og þar sem óheft bílaumferð skiptir meira máli en umferðaröryggi er mikil þörf á breytingum. Þetta á svo sannarlega við um íslenskan ískaldan veruleika. Því er sannarlega hægt að fagna þegar einhver á Alþingi Íslendinga er tilbúinn til að bæta þetta hörmungarástand samgöngumála. Frá því um miðjan nóvember 2003 hefur beðið fyrstu umræðu á Alþingi ákaflega þörf og tímabær þingsályktunartillaga sem snertir hjólreiðar. Kolbrún Halldórsdóttir er frummælandi en þingmenn allra flokka standa að tillögunni. "Þar ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd með fulltrúum samgönguráðuneytis, umhverfisráðuneytis, Vegagerðarinnar, Umferðarstofu, samtaka sveitarfélaga og samtaka hjólreiðafólks. Hlutverk nefndarinnar verður að undirbúa áætlun og lagabreytingar sem gera ráð fyrir hjólreiðum sem viðurkenndum og fullgildum kosti í samgöngumálum.

Rauð hjólabrautHjólreiðabrautir verði sérstaklega skilgreindar og þeim fundinn staður í vegalögum, auk þess sem kveðið verði á um ábyrgð eða þátttöku ríkisvaldsins í gerð þeirra. Þannig verði komið upp sérstöku stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar, sem ríkisvaldið sjái um eða taki þátt í að kosta í samstarfi við sveitarfélögin. Hjólreiðabrautakerfið skuli tengja saman þéttbýlisstaði og hjólreiðastíga einstakra sveitarfélaga við þjóðvegakerfið. Einnig skal gert ráð fyrir stofnbrautum gegnum þéttbýlisstaði með svipuðu fyrirkomulagi og gildir um þjóðvegi í þéttbýli. Að auki, að samgönguráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp í samræmi við niðurstöður nefndarinnar eigi síðar en ári eftir samþykkt tillögunnar". Greinagerð tillögunnar má svo finna fremst á vefsíðu LHM á www.hjol.org .

HjólabrautÞað er einkennilegt að þessi tillaga hafi ekki fyrir löngu komið fram á Alþingi því bílaumferð í þéttbýli hefur stöðugt verið að aukast með öllum sínum vandamálum undanfarin ár. Fram til þessa hafa ríki og sveitarfélög kastað á milli sín þeirri ábyrgð að byggja upp nothæft stígakerfi milli sveitarfélaga. Þetta hefur útilokað fjölmarga vegfarendur í að komast leiðar sinnar með heilbrigðum og öruggum hætti. Það er ákaflega mikilvægt að stjórnun ALLRA samgangna komist undir einn hatt, svo skipulag samgönguæða og hönnun umferðarmannvirkja verði samræmd og þær skili sem mestum arði. Fyrr verður ekki hægt að gera samgöngu- eða umferðaröryggisáætlanir í sátt við alla vegfarendur eða með fullnægjandi hætti.

HjólabrautHvað er hjólreiðabraut? Það er talið að 30% allra ferða séu styttri en þrír km. Það er því stór hópur fólks sem auðveldlega gæti ferðast með öðrum hætti en með bílum. Hér á landi hafa hjólreiðabrautir ekki enn verið lagðar og því ekki hægt að benda á staði þar sem þær er að finna. Erlendis eru hjólreiðabrautir smækkuð mynd akvega fyrir bíla og því ekki gangstéttar.

 Þar sem rétt er að málum staðið hafa hjólreiðabrautir sama vægi í samgöngum og akbrautir. Þær rúma öll farartæki sem ekki er talið óhætt úti á akbrautum í hraðri bílaumferð eins og t.d. létt vélknúin bifhjól og rafmagnsreiðhjól. . Innan íbúðarhverfa með 30 km hámarkshraða geta hjólreiðabrautir og gangstéttar haft forgang fram yfir akvegi. Þannig má auka öryggi óvarinna vegfarenda innan slíkra svæða og hvetja til vistvænna samgangna. Hjólreiðabrautir eru lagðar meðfram öllum vegum sem hafa bílaumferð yfir vissum fjölda eða þar sem hætta er talin stafa af hraðri bílaumferð. Auðvelt er að halda 30-40 km meðalhraða á hjólreiðabrautum og hættulítið að mæta eða taka fram úr öðrum farartækjum. Það þýðir að sömu umferðareglur gilda fyrir akandi og hjólandi. Umferðarljós og vegmerkingar eru þær sömu og vegfarendur þurfa ekki að fara eftir mismunandi umferðarreglum, hvort sem þeir eru akandi eða hjólandi. Þá verða ökumenn að horfast í augu við aukin rétt annarra vegfarenda s.s. aðalbrautarrétt á hjólreiðabraut o.s.frv. Hjólreiðabrautir geta stuðlað að minni misnotkun bíla og fengið fleiri til að nýta önnur hættuminni og vistvænni farartæki. Aukin notkun léttra og kraftlítilla farartækja minnka slit akvega, létta á umferð á álagstímum og auka hagkvæmni og arðsemi samgöngukerfisins í heild. Ekki þarf svo að minnast á allan þann heilsufarslega ávinning sem í hjólreiðum og göngum felast og ætti því að vera stór þáttur í íslenskri umferðaröryggisáætlun. Magnús Bergs.

Pistillinn birtist í Hjólhestinum 1.tlb. 13. árg. © ÍFHK 2004