Hér er erindið sem Guðbjörg Halldórsdóttir flutti á umferðaþinginu 10. maí 1996:

Komið þið sæl!

Það er mér mikil ánægja að fá tækifæri til að koma hér og fylgjast með þessu þingi og þá sér í lagi að spjalla aðeins um þau mál. sem mér eru hvað hugleiknust um þessar mundir, en það eru jú hjólreiðar almennt.

Eftir að haft var samband við mig frá Umferðarráði og ég beðin um að koma hér og reifa þessi mál hefur margt flogið í gegnum huga minn. Fljótlega varð mér ljóst að ég yrði að reyna að skipuleggja mál mitt vel því ég get auðveldlega rætt þessi mál fram og aftur í 2 daga ef ekki lengur, ef því er að skipta. Það stendur ekki til í þetta sinn, kannski verður í framtíðinni umferðarþing þar sem hjólreiðamenningin verður sérstaklega tekin fyrir. Það kæmi mér reyndar ekki á óvart, þar sem gífurleg aukning er á hjólanotkun um þessar mundir, og hefur verið síðast liðin ár.

Það hafa ekki verið gerðar neinar skipulegar kannanir á almennri notkun reiðhjóla en sölutölur verslana sýna, svo ekki verður um villst, að aukningin á milli ára er hreint ótrúleg. Hef ég heyrt að nú á vormánuðum sé verið að selja hjól fyrir tugi milljóna á dag hér í bæ. Þetta hlýtur að segja sína sögu þó svo við vitum að það eru ekki allir, sem nota hjólin sem sitt aðal farartæki. Stór hluti hjóleigenda eru jú börn sem nota hjólið sitt sem leiktæki.

Eru hjólreiðamenn hornrekur í umferðinni hér á landi? Svarið er einfalt frá   mínum bæjardyrum séð, það er JÁ. Það hafa allavega mörg horn verið rekin í mig á sl. árum. Þá á ég bæði við horn á bílum, því ég man í fljótu bragði eftir fjórum tilfellum þar sem hreinlega hefur verið ekið á mig. Sem betur fer þó án teljandi meiðsla eða skemmda á ökutækjum. Já og svo verður maður sífellt var við hornin á önugum ökumönnum og einnig gangandi vegfarendum. Ekki er ég nú að segja að allir hjólreiðamenn séu svo fullkomnir að ekki verði neitt hægt að setja út á þá. Þetta var nú svona útúrsnúningur og ekki ætlunin að vera á þeim nótum.

Við sem notum reiðhjól sem okkar aðal samgöngutæki verðum vör við það á hverjum degi að það er hreinlega hvergi gert ráð fyrir okkur. Við megum hjóla á gangstéttum, þ.e.a.s. ef við tökum fullt tillit til gangandi vegfarenda, og förum eftir þeim umferðarreglum sem gilda fyrir gangandi vegfarendur. Það stendur t.d. í 5 gr. umferðalaganna að eigi megi fara hraðar á reiðhjóli en á venjulegum gönguhraða ef gangandi vegfarandi er nærri.

Auðvitað er sjálfsagt mál að sýna öðrum tillitssemi og sýna ítrustu varkárni en gangandi og hjólandi vegfarendur eiga bara yfirleitt ekki samleið. Sá sem notar hjólið sem sitt aðal samgöngutæki, vill eðlilega geta nýtt sér það sem best og þann möguleika að komast hratt yfir. Það er ekki fjarri lagi að meðalhraði á „meðal“ hjólreiðamanni sé um og yfir 20 km. á klst. og á góðum degi við bestu aðstæður allt að helmingi meiri. Á þessum hraða er erfitt að vera uppá gangstétt.

Þegar á slíkum hraða er náð, verðum við að fara út á götuna, þar megum við líka vera, með sömu skilyrðum þó, að fara eftir þeim umferðarreglum, sem þar eru settar. En, þá er aftur komið ójafnvægi á aðstæður, bílarnir fara helmingi hraðar og eru margfalt fleiri þannig að hjólreiðamaðurinn er í mikilli hættu á mestu umferðargötunum.

Margir ökumenn líta hjólreiðamenn hornauga og virða ekki á nokkurn hátt rétt þeirra. Ekki er óalgengt að ökumenn „svíni“ fyrir hjólreiðamenn, sumir hreinlega ógna hjólreiðamönnum gróflega ef því er að skipta. Sem betur fer eru þessir ökumenn þó fáir og fer vonandi fækkandi! Þarna sjáum við líka augljóslega að hjól og bílar eiga ekki nógu góða samleið.

Það hafa reyndar orðið heilmiklar breytingar til batnaðar á sl. 2 árum í samgöngumálum hjólreiðamanna. Gangstéttabrúnir hafa verið jafnaðar niður og svo hafa verið lagðir nokkrir „göngu- og hjólreiðastígar“. Þetta er allt gott og vel og ber að þakka allt, sem vel er gert, en þó fylgja þessu þó nokkrir ókostir. Þarna komum við aftur að því að gangandi og hjólandi vegfarendum er blandað saman, reyndar eru sérmerktar brautir fyrir hjólreiðamenn á sumum þessara stíga, en það dugir bara ekki til. Á góðviðrisdögum þegar umferð er mikil á þessum stígum er hreinlega „kaos“ þar.

Fólk fer til að njóta útivistar, með börnin, aldraða foreldra, hundana og þar fram eftir götunum og í sælu augnabliksins gleymist að þarna gilda þær sömu umferðarreglur og annarsstaðar. Hjólreiðamaður, sem ætlar að reyna að komast leiðar sinnar á góðum hraða, eru skorður settar, hann verður að sýna mikla varkárni og þolinmæði.

Ég hef velt því fyrir mér, en veit ekki alveg hvaða rök liggja að baki því að hafa hjólareiðabrautirnar sums staðar á þessum nýju stígum sömu megin og bekkina, sem ætlaðir ern fyrir fólk að setjast á, en þetta er mikil slysagildra.

Ég ætla að segja ykkur eina litla sögu af sjálfri mér. Fyrir um 2 vikum átti ég leið á alveg yndislegum, björtum og fallegum sunnudegi um stíginn sem liggur frá Ægissíðu og upp í Elliðaárdal. Þetta var snemma dags, ekki mikil umferð og naut ég þess alveg í botn að gefa svolítið í. Ég sá framundan mér hvar nokkrar manneskjur sátu á bekk. Þegar ég svo er komin nær alveg að bekknum, þá hoppar lítið barn niður af bekknum og út á stíginn. Þarna munaði aðeins hársbreidd að ekki yrði stórslys. Ég var á um 25-30 km. hraða og rétt náði að beygja frá og forða slysi. Ég reyni nú að hugsa sem minnst um það hvað hefði gerst ef ég hefði lent á blessuðu barninu. En það sem gerðist í kjölfarið er nokkuð dæmigert, móðir barnsins sem eflaust var í miklu sjokki stökk á fætur og hrópaði á eftir mér ókvæðisorðum, sem ég ætla nú ekki að hafa eftir hér.

Þetta dæmi sýnir að það ber margt að varast og vekur upp spurningar. Er það forsvaranlegt að leggja þessa stíga fyrir blandaða umferð? Hver á réttinn í svona tilvikum ef slys hljótast af ?

Það sem yfirvöld verða að huga meira að í framtíðinni, er að hrinda í framkvæmd þeirri áætlun að skilja þessa ólíku samgönguhætti meira að. Það er líka annað sem mér finnst svo einkennilegt, þegar ég lít á þessa nýju fínu stíga, það er að þeir eru flestir svolítið út úr. Þeir liggja í allskonar króka og beygjur, upp og niður hóla og hæðir þannig að maður styttir sér oftast leið ef farið er eftir fjölfarinni umferðargötu. Þetta hugsa ég mikið um dags daglega, því ég þarf jú að komast milli staða á sem stystum tíma. Það sem meira er, ég þarf líka að hugsa um orkuna, ég er jú vélin á mínu farartæki og mín orka er mjög dýrmæt. Stundum finnst mér eins og að þessir títt ræddu stígar séu hugsaðir sem einhverskonar afþreyingarstígar fremur en samgöngubót.

Það þarf ekki annað en að líta rétt út fyrir landsteinana, t.d. til Danmerkur, til að sjá mjög gott kerfi. Ég þekki það þó ekki af eigin reynslu, en hef heyrt marga tala um það. Hins vegar þarf ég að leggja leið mína til Danmerkur nú í júní og ætla ég þá að nota ferðina og taka með mitt hjól og ferðast þar í 12 daga svo ég er spennt að kynnast þessu af eigin raun.

Þessi mikla aukning á hjólreiðum, sem ég hef áður komið að, er nú tiltölulega nýtilkomin og hefur langt því frá náð toppnum, svo vongóð um að innan fárra ára fáum við að sjá miklar breytingar til batnaðar. Um leið og þátttaka manna verður meiri, þá skynjar það frekar sjálft sig. sem hluta af heildinni og menningin verður áferðarfallegri.

Við sjáum bara hvað t.d. hjálmanotkun hefur stóraukist á örfáum árum, það er að verða hálfgerð skömm að fara um á hjóli hjálmlaus. Ég verð nú bara að segja það eins og er, að fyrir tæpum 2 árum gat ég ekki hugsað mér að setja slíkan höfuðbúnað upp, en nú fer ég ekki einu sinni hjálmlaus út í búð. Þetta er án efa hægt að þakka þeirri gríðarlega öflugu fræðslu, sem hefur verið beint sérstaklega að börnum .

Það eru oft blessuð börnin sem kenna okkur hvað mest, þegar upp er staðið. Þau fá mjög góða umferðarfræðslu alveg frá unga aldri, ég varð mjög hissa á dögunum, þegar ég óskaði eftir upplýsingum frá Umferðarráði um það fræðsluefni, sem börnum er boðið uppá. Ég gerði mér ekki í hugarlund, að til væri svo mikið af vönduðu og góðu fræðsluefni. Ég hélt nefnilega að slíkt væri í algeru lágmarki. en það er öðru nær.

Ef maður horfir í kringum sig getur maður auðveldlega séð, að það eru yngstu börnin sem virðast virða og kunna best grundvallarreglurnar í umferðinni, en þegar ofar dregur í aldri er æ algengara að sjá fólk brjóta af sér. Jafnvel sér maður fullorðið fólk draga úr börnum að fara eftir reglunum, það er kannski ekki tími til að fara eftir reglunum, eða hvað?

Það að vera þátttakandi í umferðinni sem hjólreiðamaður setur mann í vandasamt hlutverk. það er að mörgu að hyggja. ekki síður en þegar sest er undir stýri á bifreið.

Ég hef alveg frá barnsaldri notað hjólið mikið, bæði sem leiktæki og svo nú á síðari árum meira og meira sem farartæki, reyndar er hjólið mitt aðal samgöngutæki. Það er ekki nema í alverstu veðrum og af heilsufarsástæðum sem ég nota önnur farartæki en hjólið svona dags daglega, reyndar er það svo að ég tel mig tilheyra forréttindahóp, að hafa heilsu og þor til að nota þennan ferðamáta.

Það að hjóla á veturna er ekkert vandamál í mínum huga, réttur fatnaður, nagladekk og góður ljósabúnaður opnar manni allar leiðir. Nú og svo hafa borgaryfirvöld stórbætt snjómokstur á gangstéttum. Sl. vetur var tekin upp sú nýbreytni að ryðja nokkrar leiðir fyrir kl. 08:00 á morgnanna í samráði við félaga í Íslenska fjallhjólaklúbbnum. Mæltist þetta gríðarlega vel fyrir og bætti samgöngur okkar hjólreiðamanna stórlega svo það er nú ekki allt á móti okkur.

Jæja góðir áheyrendur nú ætla ég ekki að hafa þetta mikið lengra, þó að ég hafi bara rétt tæpt á því sem mér er efst í huga og vona að ég hafi getað að einhverju leiti rökstutt svar mitt við spurningunni „Eru hjólreiðamenn hornrekur í umferðinni hér á landi“.

Mig langar í lokin að mæla með þessu holla og umhverfisvæna farartæki, sem reiðhjólið er, fyrir alla.

Takk fyrir.