Versla í matinn? Hjóla með börnin? Komast í vinnuna án þess að vera sveitt og illa lyktandi allan daginn? Ferðast? Komast klakklaust í gegnum daginn án þess að verða undir bíl? Kljást við veðrið?
Já, hvernig er þetta hægt á reiðhjóli? Þeir sem nota reiðhjól dags daglega eru oft spurðir hvernig þeir fara að, hvernig þeir komist leiða sinna í flestum veðrum o.s.frv. Það er allt hægt ef viljinn til að breyta er fyrir hendi. Það sem þarf er hugarfarsbreyting og jákvæðni.

Nýr lífsstíll.

Að hjóla leiða sinna krefst þess á vissan hátt að maður taki upp nýjan lífsstíl Það þýðir lítið að stressa sig á að komast á milli staða á sem skemmstum tíma. Við þurfum að skipuleggja okkur. Eftir að hafa hjólað í vinnuna í nokkur skipti vitum við nokkurn vegin hvað við erum lengi á leiðinni og að við þurfum að ætla okkur aðeins lengri tíma ef vindurinn blæs eða ef færðin er erfið á veturna.

Fólk virðist almennt haldið veðurhræðslu og telja ennþá margir að hjól eigi að vera óhreyfð yfir vetrarmánuðina. Þegar fólk er ekki vant því að vera úti við þá virðist smá gola breytast í rok í hugum fólks og hitastig um frostmark verður að ofsakulda. Fólk sem hjólar verður að klæða sig rétt og vera tilbúið að takast á við örar breytingar í veðrinu. Það er í sjálfu sér mjög fáir dagar (a.m.k. á suðvesturhorninu) sem eru slæmir. Stærstan hluta vetrarins er vel hægt að hjóla svo lengi sem gangstéttir eru ruddar, hin raunverulega ógn er ekki veörið heldur sambýlið við bílaumferðina. Ef einhvern daginn gerir vitlaust veður í raun þá má alltaf notfæra sér strætó. Yfirleitt er þó hægt að komast allra sinna ferða á hjóli, það sem skiptir máli er hugarfarið og réttur útbúnaður.

0403-gudrun.jpg

Klæðum okkur rétt og segjum skilið við svitahræðsluna!

Þessi nýji fararmáti kallar á réttan klæðnað. Við verðum að eiga auðveit með að hreyfa okkur og vera varin fyrir vindi og veðrum. Við erum ekki lokuð inni í hylkjum heldur þurfum við að kljást við náttúruöflin.

Sumir sem byrja að hjóla og klæðast bómull næst sér er oft hrollkalt fram eftir degi eftir aö hafa svitnað á hjólinu. Bómullin dregur í sig rakann og heldur honum í sér, okkur verður kalt, líður illa og við kennum hjólreiðunum um þrálátt kvef. Lausnin felst í því að verða sér úti um þunna boli úr efnum sem halda rakanum ekki í sér, hann gufar upp og líkaminn er þurr og það slær ekki að okkur. Hægt er að fara inn í hvaða útivistarbúð sem er og láta afgreiðslufólkið leiðbeina sér varðandi slíkan fatnað. Mörgum finnst gott að vera í "fleece" peysum utan yfir (eða þunnum nær sér) af sömu ástæðu. Efnið dregur rakann ekki í sig heldur skilar honum út, burt frá líkamanum, efnið er létt, þornar fljótt og er hlýtt.

Kaldir og blautir fætur eru kvöl og pína. Til að verjast þessu er best að klæðast sokkum úr ull eða einhverskonar ullarblöndu eða gerviefnum, ef maður blotnar í fæturna í bómullarsokkum þá kólna þeir fljótt. Einnig er vert að minnst þess að betra er að hjóla í skóm með stífum botni heldur en ekki, til eru sérstakir hjólaskór og einnig má notast við létta gönguskó.
 
Gott er að vera í vindjakka yst og helst þannig að hann sé ekki mjög víður því þá tekur hann vindinn mikið í sig. Hefðbundnir regnjakkar hafa þann galla að maður verður allur rennblautur af svita í þeim þegar maður reynir á sig sem er mjög svo óþægilegt. Þótt maður eyði einhverri upphæð í að koma sér smá saman upp góðum fatnaði úr dýrum efnum (t.d. Goretex) þá eru það smápeningar miðað við þá upphæð sem sparast við að reka ekki bíl. Fólk sem hjólar allt árið um kring kemst fljótlega að því að góður klæðnaður gerir gæfumuninn.

Margir nota nær eingöngu sérstök hjólaföt vegna þægindanna en sumir vilja síður vera í þeim alla jafna, finnst kannski hallærislegt að klæðast þröngum buxum eða þá að kröfur eru gerðar á vinnustað um ákveðinn klæðaburð. Þeir sem eru heppnir geta farið í sturtu á vinnustaðnum og skipt um föt, aðrir geta verið með lítið þvottastykki eða handklæði og snurfusað sig eftir átökin ef samstarfsfólkið er hrætt við að sjá svitadropana. Annars er það mesti misskilningur að það sé alllaf einhver lykt af fólki sem svitnar. Fólk sem fer reglulega í bað og er í hreinum fötum er varla illa þefjandi eftir að hjóla í vinnuna, það virðist einfaldlega vera sem svo að fólk sé óvant því að sjá fólk svitna nema á líkamsræktarstöðvum, a.m.k. innan fjögurra veggja. Fólk er hætt að taka á nema í vernduðu umhverfi þar sem það er "töff" að svitna við "réttar" aðstæður. Fólk sem ferðast um í bíl og er ekki vant að taka á og svitna verður skiljanlega felmtri slegið að sjá sveittan hjólreiðamann! Ef þið eruð hrein og snyrtileg til fara þá þurfið þið ekki að vera hrædd um að það sé einhver svitalykt af ykkur. Ef þið eruð í góðum fötum úr hentugu efni þá er líkaminn fljótur að kæla sig niður eftir átökin og fötin þorna fljótlega

Hjól útbúið brettum gera mikið gagn þá daga þegar votviðrasamt er. Ef drullusokkur er festur neðst á frambrettið þá geta þau bjargað fatnaðinum frá tjöru- og drullubaðinu af götunum. Þessi svarti óþverri næst oft ekki úr fötunum og best að hafa bretti á hjólinu þegar það er notað til aö komast leiðar sinnar í þéttbyli. Þau gera sitt til að við getum komist á vinnustað á rigningardögum þokkaleg til fara.

Verslað í matinn án vandræða.

Helgin nálgast og það þarf að kaupa í matinn. Ekkert mál. Hjólatöskur fást nú orðið i miklu úrvali og best er að fá sér tvær hliðartöskur á bögglaberann að aftan. Þær duga ansi langt og hægt er að fjölga töskunum, til eru töskur sem festast ofan á bögglaberann og einnig eru margir með bögglabera að framan og þar er hægt að festa tvær hliðartöskur.

Blessuð börnin - Melkorka fer sinna ferða.

Hvað með börnin? Margir halda að hjólreiðar séu einungis raunhæfur möguleiki fyrir barnlausa en svo er alls ekki. Allir kannast við barnastólana sem festir eru aftan á hjólið og nú er enn einn möguleikinn fyrir hendi sem hentar jafvel betur: vagn sem festur er aftan í hjólið. Í hann komast tvö böm, fylgifiskar þeirra s.s. uppáhaldsdúkkan, teppið, bókin eða bangsinn og jafnvel innkaupapokarnir. Tengivagnar þessir eru oftast úr skærlitu efni. Sumir koma með regnhlíf til að setja yfir vagninn, þeir hafa veltigrind og eru langtum öruggari en stóll því að þótt sá sem hjóli detti þá veltur vagninn ekki. Melkorka Ragnhildardóttir, 4 ára, ferðast gjarnan um í svona vagni og líkar vel. Hún er með hjálm og notar alltaf öryggisbeltið sem hefur komið sér vel þegar vagninn valt einu sinni í beygju. Hún lét sér hvergi bregða þótt hún vaknaði af værum svefni og hló. Hún er montin af vagninum sínum. Hefur boðið vinkonu sinni far af leikskólanum og segir fullorðna fólkinu að það mengi heiminn þegar það keyrir bílinn sinn. Hún og mamma hennar, Ragnhildur, eru tilbúnar að miðla af reynslu sinni ef einhver vill forvitnast um þennan möguleika. Síminn hjá þeim er 5522213.

Eflaust hafa einhverjar konur velt því fyrir sér hvort og hvernig hjólað skuli með þau sem enn eru á fósturstigi. Af og til má sjá frásagnir og ráðleggingar til hjólreiðakvenna sem eiga von á barni. Slíkt lesmál er að finna í erlendum hjólreiðatímaritum og bókum. Áhugasömum konum er velkomið að hringja í klúbbsímann (5620099) og hægt er tína til greinar og ljósrita handa þeim sem eru forvitnar að vita eitthvað um reynslu kvenna sem létu meðgöngu barns ekki aftra sér frá því að hjóla.

Hjólað, og lifað af, í umferðinni.

Hávaði og hraði bílaumferðarinnar er mikill í þéttbýlinu og fólk veigrar sér við að hætta lífi sínu og limum, hjólandi í umferðinni. Lengi hefur verið barist fyrir bættri aðstöðu hjólreiðafólks og vonandi er að rofa til og örla fyrir skilningi hjá ráðamönnum og hjá þeim sem skipuleggja gatnakerfið. Flestir hjóla á gangstéttum meðfram miklum umferðagötum og láta sig hafa það að hossast á köntum öðru hvoru og klöngrast áfram eftir torsóttri leið Á fáfarnari götum er hægt að hjóla enda miklu auðveldara þar sem gangstéttar eru oft ónothæfar hjólandi fólki með sína kanta og hindrana. Farið varlega til að auka lífslíkur ykkar, notið hjálm og verið vel upplýst og með endurskinsmerki. Best væri ef aukasett af augum er fyrir hendi til að koma fyrir í hnakkanum því reynslan kennir fólki að bílstjórar eru óútreiknanlegir, margir þeirra virðast ekki meðvitaðir um rétt fótgangandi og hjólandi í umfcrðinni og því best að vera vel á verði.

Burt með "túttujeppakomplexana" og ferðumst á hjóli!

Þótt margir haldi að margra milljóna krónu túttujeppa þurfi til að komast í ferðalög út á land þá er staðreyndin allt önnur. Hjólið sem nýtist okkur í daglegu lífi getur líka nýst okkur í ferðalögum. Hjólið þarf auðvitað að vera i lagi áður en lagt er af stað til að minnka líkurnar á óhöppum fjarri Hjólaviðgerðum hf. og góðir bögglaberar að framan og aftan ásamt góðum töskum eru nauðsyn til að dreifa þunga. Yfirleitt byrjar fólk á dagsferðum í mestu rólegheitum, helgarferðimar eru skammt undan og áður en fólk veit af er það komið á hjólhestinum í lengri ferðalög um hálendið fjarri mannabyggðum, sjálfum sér nóg, og sumir sækja jafnvel út fyrir landsteinana til að stíga sveifarnar á vit nýrra ævintýra.

Stigið á sveif með lífinu.

En aftur í hversdagsleikann, Það er hægt að fara flestra sinna ferða á hjóli, fleiri og fleiri velja sér það. Við fáum góða hreyfingu á meðan við sinnum okkar erindagjörðum, erum óháð strætó og bensínstöðvum.

Þeir sem reka einkabíl eru að vinna fyrir kostnaðinum fyrir hádegi í vinnunni, upp úr hádegi er hægt að byrja að vinna fyrir mat o.þ.h. Hver kílómetri kostar 30-40 krónur og manneskja sem hjólar t.d. daglega ofan úr Breiðholti og niður í bæ sparar sér a.m.k. 600 krónur á dag!! Ef fólk hjólar 20 km á klukkustund þá mætti telja þetta vera þokkalegt "tímakaup"! Fólk sem hjólar sinna ferða á því mun meira afgangs af skotsilfrinu en þeir sem strita fyrir bíl.

Það er margt hægt að gera við nokkur hundruð þúsund á ári (kostnaður við rekstur einkabíls), hvernig væri t.d. að taka nokkurra mánaða launalaust frí í vinnunni og hjóla um Asíu?   
Sjáumst... Guðrún.


Birtist fyrst í Hjólhestinum júní 1995

Teikning: Ingi