Morten Lange Heldur þú að umhverfismál hafi eitthvað með hjólreiðar að gera? Hjólar þú vegna þess að það er svakalega „grænt”?  Kannanir hafa sýnt að flestir sem  hjóla hafa aðrar ástæður fyrir því að hjóla en einhver gildi. Menn hjóla oft vegna þess að er ágætis leið til að halda sér í þokkalegu formi, vegna þess að það er gaman, veitir frelsi og  lætur manni liða vel. Og stundum vegna þess að hjólreiðar eru, miðað við aðstæður, skásti kosturinn til að koma sér á milli staða fyrir einn eða fleiri á heimilinu. Nýlega hefur verið endurvakning í hjólamenningu sem undirstrikar að hjólreiðar eru svalar (Cycle-chic)

En óháð því hvers vegna fólk hjólar, þá eru hjólreiðar einn allra vistvænsti samgöngumátinn sem völ er á.  Ef tekið er mið af því að orkunotkun fyrir hvern kílómeter er meira að segja lægri en í göngu og að hjólreiðar séu raunhæfari en ganga í meðalstórum bæjum og borgum, koma hjólreiðar enn betur út.  Við þetta bætist að heilsuávinningurinn af hjólreiðum til samgangna er að jafnaði meiri en heilsuávinningurinn af göngu.  Menn velja sér yfirleitt takt á reiðhjóli sem styrkir hjartað meira en menn gera yfirleitt við göngu. Þessi heilsuávinningur hefur komið fram sem sparnaður í heilbrigðiskerfinu og á vinnustöðum í borgum þar sem hjólreiðar hafa aukist. Sumt af þessu hafa yfirvöld óljósar hugmyndir um en greinilega ekki nógu skýrar fyrst hjólreiðar njóta ekki meiri virðingar en raun ber vitni.  Auk alls þessa kemur annars konar sparnaður, borið saman við notkun bíla, í beinum útgjöldum svo sem vegna eldsneytis, bílastæða, viðgerða, trygginga og svo framvegis.

Eru Landssamtök hjólreiðamanna að beita sér með eða gegn öðru en hjólreiðum?

Nú eru Landssamtök hjólreiðamanna ekki umhverfisverndarsamtök í hefðbundnum skilningi en hlutverk LHM er að benda á kosti hjólreiða og leiðir til að efla hjólreiðar.  Þegar kostir hjólreiða til samgangna frá sjónarhóli umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar eru svona miklir, ber LHM sennilega skylda til þess að afla sér þekkingar á þessu sviði og reyna að miðla til samfélagsins.  Að sama skapi getur LHM ekki þagað yfir því þegar meintum lausnum við umhverfisvanda í samgöngum er gefinn miklu meiri gaumur en hjólreiðum. Óháð orkugjafa eða mengun úr púströri eru hjólreiðar mun umhverfisvænni en einkabílar og þá sérstaklega í þéttbýli.

Hjólreiðar, ganga og almennings­samgöngur eru augljóslega vistvænstu og raunhæfustu lausnirnar.  LHM þarf  einnig að segja frá rökunum sem sýna misréttið milli samgöngumáta á Íslandi sem og í öðrum löndum. Hugsanlega skilja sumir þetta sem svo a LHM sé á móti bílum. Þetta snýst hins vegar ekki um með eða á móti, heldur um sanngirni,  jafnræði, heildarsýn, skilvirkni lausna og opinskáa umræðu.  Samvinna, fræðsla og skoðanaskipti eru málið, ekki að mála myndina í svörtu og hvítu.

Hvorki LHM né aðrir halda því fram að hjólreiðar geti leyst allar samgönguþarfir en LHM heldur því fram að hjólreiðar geti og ættu að leika stærra hlutverk og ef kostirnir eru viðurkenndir mun það gerast.  Með því að styrkja hlutverk göngu- og almenningssamgangna munu hjólreiðar jafnframt styrkjast. Bílar sem menga minna og aka hægar eru líka hluti af lausninni. Landssamtök hjólreiðamanna leggja áherslu á samstarf við bílstjóra og samgönguyfirvöldum um samnýtingu vega.  Samt er brýn þörf á sérlausnum fyrir hjólreiðar sem valkost við stofnbrautir í þéttbýli og þess háttar. Aðskildar leiðir geta auk þess aukið ánægju og öryggistilfinningu við hjólreiðar. Fjölgun hjólreiðamanna er almannahagur.

Nýlegar athugasemdir LHM til umhverfisráðuneytisins

Umhverfisráðuneytið lét kanna hag­­kvæmustu kostina til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og voru niðurstöðurnar birtar á vef ráðuneytisins í svokallaðri Brynhildar-skýrslu sumarið 2009 (Möguleikar til að draga úr nettóútstreymi gróður­húsalofttegunda á Íslandi ).  Áhugavert var  að skýrsluhöfundar höfðu nægilega góðan grunn til að vinna út frá og viðsýni til að geta sýnt fram á að auknar hjólreiðar koma mjög vel út sem lausn til skemmri eða lengri tíma og veita samfélaginu hreinan hagnað ofan á ávinninginn í loftslags- og heilsumálum.  Rafmagnsbílar og vetnisbílar koma illa út sem lausn næstu ára og þessar “lausnir” kosta morðfjár. LHM leggur enn fremur áherslu á því að mat á stærri samhengi hlutana, svo sem lífsferilsgreining og sjálfbær þróun, mundi enn veikja raunhæfismatið borið saman við t.d hjólreiðar.  Þegar drög að aðgerðaáætlun umhverfisráðuneytis í loftslagsmálum birtist í vetur var efling hjólreiða-, göngu- og  almenningssamgangna eitt af átta aðgerðasviðum.  Annað aðgerðarsviðið var að aðlaga skattaumhverfið samgöngum, í áttina að því að „sá sem mengar borgar”. LHM voru á fundi Umhverfisráðuneytis og gerði athugasemdir við drögin. 

Hér er stutt yfirlit yfir athugasemdir Landssamtaka hjólreiðamanna en lesið þær endilega í heild á LHM.is.

Aðaláherslur í tillögum LHM

1. Jöfnun samkeppnistöðu samgöngu­máta: a) Niðurgreiðslur til eigenda bifreiða lækkaðar. b) Jöfnuð skattaleg staða samgöngu­styrkja og samgöngumáta. c) Bætt aðgengi, sjá neðar.
2. Lægri hraði umferðar: a) Minni þörf verður á sérlausnum. b) Minni útblástur við lægri hraða/minna akstur. c) Meira öryggi hjólreiðafólks og í raun allra í umferðinni. d) Bætt samkeppnishæfni hjólreiða-, göngu- og almenningssamgangna. e) Bætt aðgengi í sálfræðilegum skilningi, vegna meiri öryggistilfinningar.
3. Meiri þekking - Fræðsla: a) Til almennings. b) Til ríkisstarfsmanna. c) Til starfs­manna sveitarfélaga. d) Til starfsmanna einkafyrirtækja. e) Til sérfræðinga um heilbrigðis-, umhverfis- og samgöngumál f) Til skólafólks.
4. Aðgengi – Tengingar: a) Byggja stofnbrautir fyrir reiðhjól milli sveitarfélaga og hverfa. b)       Huga að hjólreiðamönnum við gerð, endurgerð og viðhald vegaxla. c) Bæta við hentugum og öruggum stæðum fyrir reiðhjól, t.d. stálbogum. d) Setja reglur/staðla um mannvirki fyrir reiðhjól. e) Setja reglur um leiðir fyrir reiðhjól.
5.  Heildarsýn, margar flugur í einu höggi / jákvæðir hliðarverkanir: a) Ná mörgum markmiðum í einu á ódýran og skilvirkan hátt. b) Efling hjólreiða eitt af bestu dæmin um lausn þar sem allir græða.

Auk yfirlitsins fyrir ofan, eru í umsögninni ítarleg svör við tveimur spurningum sem snúa beint að drögunum að aðgerðaráætlun umhverfisráðuneytis í loftslagsmálum og koma nánar inn á aðalatriðin í yfirlitinu.
Lestu umsögnina, „Tillögur og athuga­semdir Landsamtaka hjólreiðamanna við aðgerðaráætlun í loftlagsmálum “  á vef Landssamtaka hjólreiðamanna; www.LHM.is.
Morten Lange, formaður LHM 2005-2009

Birtist fyrst í Hjólhestinum, fréttabréfi ÍFHK, mars 2010.