Þróunarverkefni í Hjólafærni lauk í Álftamýrarskóla vorið 2009. Þá hafði öllum nemendum í 4.-7. bekk skólans verið boðin þátttaka, völdum nemendum úr 8. bekk og foreldrum boðið til fræðslu. Viðhorfskönnun á meðal foreldra sýndi mikla ánægju með þetta námsframboð. Nemendur unnu í litlum hópum og kynntust hjólinu sínu, stilltu hjálminn og spáðu í fatnað til hjólreiða. Í framhaldinu var farið í hjólaleiki og alls kyns þrautir áður en farið var í flæði umferðar. Unnið var með umferð á stígum og gangstéttum og að lokum var farið yfir hjólreiðar í almennri umferð á rólegum umferðargötum. Breska hugmyndin úr Bikeability var færð til íslensks umferðarsamfélags og kennd sem Hjólafærni.

Í framhaldi af þróunarverkefninu kviknaði sú hugmynd að vinna markvisst að stofnun fræðaseturs um hjólreiðar; Hjólafærni á Íslandi. Það gæti orðið einskonar miðstöð þekkingar um hjólreiðar með fræðslu og ráðgjöf að leiðarljósi. Verkefnin eru næg því á Íslandi virðist vera inngróin vantrú á reiðhjól sem samgöngutæki.

Meðal verkefna sem Hjólafærni á Íslandi hefur sinnt er uppsetning hjólaþrautabrauta og aðstoðar við utanumhald á hjóladögum í grunnskólum, fyrirlestrar um hjólafærni og námskeið hjá Hlutverkasetri, þar sem m.a. 47 ára gömul kona lærði að hjóla í fyrsta sinn á ævinni. Á sama námskeiði var öðrum þaulreyndum hjólakappa leiðbeint um stöðu og samvinnu ökutækja í vinstri beygjum og á leið í gegnum hringtorg.

Fossvogsskóli samdi við Hjólafærni um að fá kennara vikulega í skólann í allan vetur og vinna með nemendum í 5., 6. og 7. bekk skólans utan húss í ágúst, september, apríl og maí en frá október og út mars, að vinna með nemendum í 6. og 7. bekk í litlu og nýstofnuðu Hjólaríi í miðstöðvarkompu skólans.

Kennaranámskeið fyrir fulltrúa úr öllum skólum Grafarvogs var haldið af Hjólafærni á Íslandi á haustdögum í Hamraskóla sem liður í undirbúningi hverfisins fyrir Græna samgöngustefnu sem Dofri Hermannsson, varaborgarfulltrúi og nefndarmaður í Hjólreiðanefnd Reykjavíkur, er höfundur að. Námskeiðið var svo innsiglað með einni stærstu hjólalest sem sögur fara af, þegar 500 nemendur og starfsmenn skólanna í Grafarvogi hjóluðu um hverfið og enduðu þannig Samgönguvikuna 2009 í blíðskaparveðri.

námskeið

Hollt og gott að hjóla

Samgöngur í sjálfbæru samfélagi grundvallast á hjólreiðum. Á Íslandi kunna nánast allir að hjóla og til landsins hafa verið flutt hundruð þúsunda reiðhjóla á liðnum árum. Þótt fæstir noti reiðhjólið sem samgöngutæki hefur þó orðið stóraukning á daglegri notkun reiðhjóla.

Þeir sem nota hjólið sem samgöngutæki í stað bílsins spara um 100 þúsund kr. á mánuði og bætir þar að auki heilsu sína. Sá hinn sami gerir mannlífið líflegra og mengar minna. Auk þess verður einum bílnum færra í umferðinni og þar með er hjólreiðamaðurinn orðinn góður vinur bílstjóranna.

Ísland er afskaplega gott land til hjólreiða. Á götum borga og bæja er rými oftast með ágætum og vandræðalítið að hjóla um flestar götur landsins. Helst eru það 50 km götur með mörgum þrengingum eins og Hverfisgatan í Reykjavík sem er erfið í samvinnu hjólreiðamanns og ökumanns stærra ökutækis. Íslenskir ráðamenn virðast um þessar mundir einhuga um að vinna að úrbótum í hjólreiðasamgöngum á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu því þeir skilja að mun fleiri vilja nú nota reiðhjólið fremur en bílinn sem samgöngutæki.

Enn hefur ekki verið horft til þess að markaðssetja Ísland sérstaklega sem hjólaland ferðalangsins. Það er líka rétt ákvörðun, því tengileiðirnar að og frá höfuðborginni eru ekki boðlegar hjólreiðafólki. Það er fínt að hjóla á Nesjavelli og öxlin til Keflavíkur er í lagi en ekki ánægjuleg sökum umferðarþunga og hraða. En Kjalarnesið og Hellisheiðin eru bara lok, lok og læs fyrir hjólandi umferð. Það er lítil ánægja fólgin í því að stíga hjólið í kapp við 90 km umferð á þröngum vegum og án vegaxla.

 

Tækifæri til framtíðar

Nærumhverfi okkar flestra er töfrum prýtt og fáir þurfa að fara um langan veg áður en eitthvað skemmtilegt fangar athyglina. Flestum grunnskólum hefur verið gert að losa sig við aksturskostnað vegna nemendaferða. Þetta er gullið tækifæri fyrir eflingu hjólreiða í landinu. Á sama tíma er mikilvægt að koma til móts við kennara, nemendur og starfsmenn skólanna og styðja þá til hjólaferða.

Börn eru að leik á reiðhjólum frá unga aldri. Eldri börn, eins og mömmur og ömmur og afar og pabbar, eru mörg hver að rifja upp hversu gaman er að hjóla. Unglingarnir okkar eru líklega sá hópur sem er í mestum vandræðum með hjólin sín. Þeir vilja ekki vera með hjálm og nenna ekki að hjóla á gangstéttinni. Seinna fá unglingarnir bílpróf og bílinn lánaðan og hika ekki við að vanda um fyrir hjólreiðamönnum á götunni að drífa sig á gangstéttina. Þessum hópi þurfum við að kenna að hjóla á götunni. Um leið og hann lærir að taka virkan þátt í ábyrgri stýringu ökutækja í umferðinni, getur hann líka á örskammri stund, tileinkað sér hjólreiðar á götunni.

Í sumar hafa fulltrúar lögreglu, ökukennarafélagsins, Grundaskóla sem móðurskóla í umferðafræðslu og fleiri aðilar fundað um Hjólafærni. Allir sem koma að borðinu eru sammála um ágæti Hjólafærninnar. Hjólreiðamenn sem hjóla á götunni greina mun á hegðun bílstjóra gagnvart hjólandi vegfarendum frá því í vor og vekur það upp spurningu hvort það sé áhrifamáttur fjöldans? John Franklin sagði; því fleiri sem hjóla á götunni, því öruggari verða slíkar hjólreiðar þar sem ökumenn annarra ökutækja venjast því að eiga ævinlega von á hjólreiðamönnum í kringum sig. Glæsilegur áfangi fyrir íslenska umferðarmenningu!

Framundan eru ólík verkefni, stór og smá. Í smíðum er heimasíðan www.hjólafærni.is og verður opnun hennar vonandi á næstu vikum. Umhverfisráðuneytið hefur leitað til okkar um samstarf og framundan eru góðir tímar til hjólaeflingar í íslensku samfélagi. Við ætlum að njóta þess að taka slaginn!