Fimmtudaginn 25. nóvember síðastliðinn var haldin ráðstefna í Súlnasal Hótel Sögu um umferðarmannvirki og umferðarkerfið.  Mættir voru margir sérfræðingar í þessum málaflokki, meðal annarra Örn Steinar Sigurðsson, verkfræðingur frá VST hf., sem flutti erindi um kostnað við umferðarmannvirki.  Í því kom fram að þrátt fyrir að 60% slysa í þéttbýli verði við gatnamót er ástandið hér nokkuð gott miðað við akstur erlendis. Áhættustuðullinn hér er lægri heldur en gengur og gerist eða 2,3 sem er frekar litil áhætta.  

Kostnaður vegna umferðar mikill

Það sem mesta athygli vakti hjá Erni voru útreikningar hans á einingakostnaði og kostnaði þjóðfélagsins út frá því.  Meðalkostnaður við ökutæki er 22,11 krónur á hvern ekinn kílómetra og ökustundakostnaður, sem er kostnaður vegna þess tíma sem tapast undir stýri, 965 krónur á klukkustund.  Þegar þessar tölur eru reiknaðar út yfir árið verða þær mjög háar.  Árlegur ökutækjakostnaður er rúmir 33 milljarðar og ökustundakostnaður rúmir 24 milljarðar.  Þar að auki er kostnaður vegna óhappa 11,5 milljarðar á ári þannig að ljóst má vera að þjóðfélagið getur sparað sér umtalsverðar fjárhæðir með bættu umferðarkerfi.  Með hverju prósenti í lækkun þessara kostnaðarliða sparast 700 milljónir á ári.  

Samræmingu vantar

Aðrir framsögumenn á ráðstefnunni voru dr. Haraldur Sigurþórsson, verkfræðingur hjá Línuhönnun, sem flutti erindi um umferðaröryggi, Sigurður Ragnarsson, verkfræðingur hjá Forverki, en erindi hans fjallaði um mannvirki á hönnunarstigi, og Björn Ólafsson, forstöðumaður hjá Vegagerðinni, sem fjallaði um merkingar og vegvísun.  Það sem var sammerkt með erindum þeirra var að mikið vantar upp á að samræming náist í umferðinni.  Þeirri samræmingu þarf að ná í öllum flokkum.  Samræma þarf útboð og verklýsingar, merkingar og fleira.  Í dag er farið eftir almennum verklýsingum, stytt "alverk", en búa þarf til samræmdar verklýsingar sem stytta mætti sem "höfuðverk" en það er ekki einfalt í framkvæmd.  Hjá Haraldi kom einnig fram að bráðabirgðalausnir í umferðinni standa oft lengi og verða stundum endanlegar. Má í því dæmi nefna gatnamót Miklubrautar og Snorrabrautar sem eru hálfkláruð mislæg gatnamót og 90° beygju á Höfðabakka sem stafar af því að framlengja átti götuna seinna.  Koma þarf í veg fyrir að svona bráðabirgðalausnir verði óafturkræfar. 

Hjólreiðar lausn á vandanum að einhverju leyti?

Mikil fjölgun bíla síðustu árin hefur verið að sliga umferðarkerfið og stór hluti þess vandamáls er fjöldi bíla í um ferð með aðeins ökumanninn innanborðs.  Í stærri borgum, og þá sérstaklega Asíulöndum, er stór hluti umferðarinnar reiðhjól og mótorhjól og þar myndi kerfið hrynja ef allir væru þar á bíl.  Gert hefur verið átak í höfuðborginni á undanförnum árum í gerð göngu- og hjólreiðastíga en þar vantar tengingu við næstu sveitarfélög.  Ekki er um miklar vegalengdir að ræða og eflaust myndu fleiri notfæra sér það að fara á hjóli í vinnuna úr Kópavogi eða Garðabæ ef sú tenging væri fyrir hendi.  Vildu menn þar benda dálítið hver á annan í því sambandi.  Kringlumýrarbrautin er þjóðvegur í þéttbýli og þess vegna fellur hann undir Vegagerðina en hún vill ekki kannast við að gangstéttir eða hjólreiðastígar við hana séu í þeim pakka.  Þar eiga sveitarfélögin að koma til að hennar mati.  Ber þá Vegagerðin enga ábyrgð á gangandi eða hjólandi vegfarendum utan þéttbýlis? Þarna þarf að gera bragarbót og ríki og sveitarfélög að hafa meiri samvinnu.

 

 DV-041299b.jpg

 

Umræður

Eftir framsöguerindin stjórnuðu þeir Ómar Ragnarsson og Birgir Þór Bragason umræðum um efni fundarins og sátu þá fulltrúar ríkis og sveitarfélaga fyrir svörum.  Margt var rætt þar og mikið spurt um atriði eins og lýsingu á Hellisheiði og hljóðmanir, svo að eitthvað sé nefnt.  Nýjasta útspil stjórnmálamanna til vegabóta á Suðurlandi er lýsing á Hellisheiði og voru menn ekki á einu máli um ágæti hennar.  Kannanir erlendis frá sýna aukningu umferðarhraða við betri lýsingu og ekki má þessi hættulegi vegarkafli við því.  60% banaslysa verða í dreifbýli og oft vegna framúraksturs eða útafkeyrslu þannig að líklega væri skynsamlegra að verja peningum frekar í tvöföldun akreina til að minnka hættuna vegna þessara þátta.  HIjóðmanir voru einnig til umræðu og hvort hafa ætti þær öðruvísi en þær nú eru.  Vel lagaðar hljóðmanir falla vel inn í landslag og spara líka peninga sem annars færu í að keyra efni frá byggingu götunnar eða umferðarmannvirkisins. Ráðstefnur sem þessar mættu gjarnan vera fleiri og heyra mátti á flestum gestum hennar að menn vorn ánægðir með hana.  Að ráðstefnunni stóð Nestor, kynningar- og ráðstefnuþjónusta, í samráði við ýmsa hagsmuna- og áhugaaðila. -NG
© DV 4. Desember 1999