Ég má til með að segja frá atburði sem átti sér stað í lífi mínu nú um daginn. Þannig var að ég var á leiðinni heim seint að kveldi. Var ég staddur á Kleppsveginum á móts við Laugarásbíó. Þar sem ég hjóla þarna með full ljós að framan og aftan og með hjálminn á höfðinu er flautað fyrir aftan mig. Þar sem ég er staddur á hægri akrein (á milli hjólfara því bleyta var og ég brettalaus) og öll sú vinstri auð til framúraksturs sinni ég þessum flautuleikara ekki frekar. Upphefst þá mikill konsert fyrir bílhorn fyrir aftan mig þannig að ég sé minn kost vænstan að láta skoðun mína á laginu í ljós með því að rétta upp löngutöng. Skiptir þá engum togum að flautuleikarinn kemst framúr og skellir sér í veg fyrir mig.

Upphefst nú mikill darraðadans þar sem móðgaður maestró reynir ítrekað að keyra niður hinn dómharða gagnrýnanda, keyrir í sífellu í veg fyrir mig og hemlar niður. Þannig gengur þetta fyrir sig í nokkra stund, hann rennir sér milli hægri og vinstri akreinar, allt eftir því hvar ég ætla að fara framúr þessum (g)óða strákling. Það þarf vart að taka fram að ekki gaf hann stefnuljós við þessar æfingar sínar. Í einni af þessum stórsvigsæfingum hemlar hann snögglega fyrir framan mig og til þess að forða árekstri nauðbeygi ég til hægri. Ekki tekst betur til en svo að stýrisendinn rekst í hægra afturljós og það brotnar lítillega.

Nú var svo komið að nokkur bílalest var farin að myndast fyrir aftan okkur og leituðust bílstjórar við að skjótast framúr. Við eina þannig tilraun svínaði ökuþórinn okkar fyrir aðvífandi sendibíl og hefði þar með orðið valdur að stórtjóni. Allt endaði þetta svo (í bili) með því að hann ekur við hlið mér og gasprar heil ósköp um gangstéttir og annað þesslags. Skildust svo leiðir að sinni.

Þegar ég er kominn heim í “heiðardalinn”, sé ég þar sem margumtalaður bílstjóri ekur hjá. Hafði hann þá ellt mig heim í hæfilegri fjarlægð. Stuttu seinna er bjöllum hringt og húsum riðið. Er hann þar mættur með mömmu gömlu, sem átti víst árásarvopnið. Eftir nokkurt tuð í dyrasímanum hleypi ég þeim upp, enda hafði ég ekkert að fela og vildi koma mínum málum á hreint. Í þetta sinn var mamman talsmaður litla drengsins, en hann faldi sig bak við pilsfaldinn. Kærastan og “aðalvitnið” var á bak og burt en í staðinn var mamman semsagt komin í heimsókn til að krefjast bóta fyrir afturljósið.

Hefst nú annar kafli í þessum farsa. Kemur fljótt í ljós að mömmustrákurinn var í einhverjum annarlegum hugleiðingum þarna á Kleppsveginum, og sagan sem mamma gamla hefur fengið að heyra hjá þessum væna syni sínum hefur verið nokkuð breytt frá raunveruleikanum. Kom það í ljós þegar rimman hófst okkar á milli, því útgáfa mín að þessum málum kom henni greinilega á óvart.

Hann játaði til dæmis að hafa verið á 80 km. hraða og ætlaði að taka hægri beygju á næstu ljósum. Gatnamótin voru ca. 20 m. fyrir framan mig þegar ballið byrjaði sem þýðir að hann hefði svínað svívirðilega á mig. Að hans sögn átti ég að víkja alveg út í kant og hægja á mér (ég var á 18-20 km. hraða) svo hann gæti tekið beygjuna nokkrum metrum framar. Beitti hann því flautunni í gríð og erg með áðurgreindum afleiðingum. Óþarfi er að taka fram að bílflautuna á ekki að nota til að stjórna umferðinni í kringum sig. Ekki kom til greina að hægja á sér og bíða eftir að ég væri kominn framfyrir gatnamótin því hann var víst að flýta sér. Um tíma var mamman og afkvæmið komin í hár saman yfir því hvað ætti að gera í málinu, átti að hringja á löggu eður ei. (...“Þú ræður, þú átt bílinn.”...”þú ákveður þetta, þú ókst. Ég vil bara fá ljósið borgað”...). Eftir mikið japl, jamm og fuður ákváðu þau að kalla til yfirvaldið. Þessu var ég afar hlynntur enda krakkinn í margföldum órétti. Ég sagði að ég myndi glaður kæra hann fyrir margítrekaða morðtilraun og ofbeldi í umferðinni.

Hann hefði einfaldlega brotið allar helstu reglur í umferðinni og lagt líf mitt og annara í stórhættu. Með þetta í farteskinu hurfu þau á braut. Er skemmst frá því að segja að ég hef ekkert heyrt í þeim eftir þetta.

Því miður virðist þetta ekki vera neitt einsdæmi um ofbeldi í umferðinni. Fjölmörg dæmi má heyra þar sem hjólreiðamenn verða fyrir barðinu á stressuðum og óðum bílstjórum sem beita bílnum fyrir sig til að trana sér áfram.

Jón Örn Bergsson