Góðir áheyrendur!
Í sumar ætlum við í Íslenska Fjallahjólaklúbbnum að vera með pistla í Útrás um hjólreiðar og málefni hjólreiðafólks. Pistlahöfundar verða ég, Heimir H. Karlsson og Alda Jónsdóttir og munum við vera hér til skiptis, þannig að næsta mánudag mun Alda vera hér, en í mér heyrið þið svo aftur að hálfum mánuði liðnum.

Fjöldi hjólandi fólks fer sívaxandi hér á landi. Sumir nota reiðhjól eingöngu til að skreppa í hjólatúr með fjölskyldunni í góða veðrinu, aðrir nota það til styttri sendiferða, út í búð eða á videoleiguna. Þeim fer einnig fjölgandi sem fara í styttri og lengri hjólatúra eða ferðalög á sumrin. Svo notar þó nokkur hópur fólks reiðhjólið sem sitt aðalfarartæki, og er ég einn af þeim.

Ég er oft spurður þeirrar spurningar hvers vegna ég hjóla? Og þá á fólk við hvers vegna ég kýs að fara sem flestra minna ferða á reiðhjóli, af hverju ertu ekki á bíl eins og allir hinir ? Við þessari spurningu er ekkert einhlítt eða endanlegt svar.

Ástæður þess að sumt fólk velur reiðhjól sem sitt aðalfarartæki, eru eflaust jafnmargar og fjöldi reiðhjólafólks. Hver og einn hefur sína ástæðu, og þær eru jafnvel breytilegar frá einum tíma til annars.

Sem kosti þess að nota reiðhjól umfram bíl má nefna hve miklu ódýrara það er að eignast reiðhjól og hve rekstarkostnaður er miklu lægri. Það þarf að borga ýmsa skatta og gjöld auk trygginga af bílnum, og viðgerðir og bensínkostnaður taka líka sinn toll. Það má segja að ég telji þúsundkallana í hvert skipti sem ég vel hjólið umfram bílinn.

En ertu ekki óratíma að komast á milli staða er oft spurt? Það þarf nefnilega alls ekki að vera. Í minni bæjarfélögum er maður oft jafnvel fljótari að komast á milli staða. Vegalengdir eru svo stuttar að varla tekur því að setjast inn í bíl og aka af stað. Það er auðveldara að setjast bara á hjólið og hjóla af stað. Og í Reykjavík eru vandamál þeirra sem ferðast á bíl alkunn. Umferðin gengur oft hægt, stundum er bara allt stopp, það eru svo margir bílar á ferðinni á sama tíma, og ekki er það betra þegar finna þarf stæði fyrir bílinn. Fréttir af umferðateppum og óánægju bifreiðaeigenda heyrast með reglulegu millibili í fjölmiðlum. Og alltaf vantar fleiri bílastæði og fleiri akgreinar. Þetta er ekki vandamál fyrir okkur sem hjólum. Það er oftast nóg pláss fyrir þá sem eru hjólandi og hjólinu má leggja næstum hvar sem er. Það er minna um sig og auðfæranlegra en bíllinn.

En hvernig er veturinn? Getur maður nokkuð hjólað á veturnar? Jú, víst er það hægt, þó ekki sé það eins auðvelt og á sumrin. Réttur búnaður og góð þjálfun skipta þar máli, alveg eins og í vetrarakstri bifreiða.

Einn er sá kostur ónefndur, sem allir þeir sem hjóla reglulega finna fyrir. Það eru áhrif hjólreiða á heilsuna. Hjólreiðar sameina holla hreyfingu og útivist. Það þykir enginn maður með mönnum í dag, nema hann hugsi vel um líkamann og sálina. Mikill fjöldi fólks borgar dágóða upphæð mánaðarlega til þess að fá að hreyfa sig, mætir í hinar ýmsu líkamsræktarstöðvar og hamast þar í hinum ýmsu tækjum og tólum, þar á meðal á hjólum, sér til hressingar og heilsubótar. Víst er það gott að stæla og styrkja líkamann undir leiðsögn fagfólks, en það er jafnvel enn betra ef regluleg hreyfing og útivera er hluti af daglegu lífi fólks. Slíkt er til dæmis mögulegt með því að nota reiðhjólið meira. Hvernig væri nú að skilja bílinn eftir heima og hjóla í sund eða í ræktina í sumar ?

Það sama gildir með ferðamátann á reiðhjóli og líkamsræktina, þar ræður hver sínum hraða. Og best er að byrja rólega. Svo þarf ekki að borga fyrir þá líkamsrækt og útivist sem reiðhjólið veitir.

En eru það ekki bara einhverjir sérvitringar sem hjóla? Og kosta reiðhjól í dag ekki voða mikla peninga? Þarf svo ekki að kaupa viðeigandi hjólaföt og allskonar útbúnað? Það er með hjólreiðarnar eins og allt annað, þar finnur hver hvað honum hentar. Sumum nægir að eiga hjól af gömlu góðu gíralausu tegundinni, með fótbremsu og stelli úr pottjárni. Aðrir kjósa svolítið veigameiri gripi, og til eru þeir sem sætta sig aðeins við það dýrasta og nýjasta. Aðalatriðið er að reiðhjólið passi þeim sem það á að nota og henti til þeirrar notkunar sem að er stefnt.

Á Íslandi eru starfandi hin ýmsu félög áhugafólks um hjólreiðar. Má þar nefna: Hjólreiðafélag Reykjavíkur sem einkum er félag þeirra sem áhuga hafa á keppnisþátttöku og keppnishaldi ýmisskonar fyrir hjólafólk. Landssamtök Hjólreiðamanna sem vinna að hagsmunum hins almenna notanda reiðhjólsins, til dæmis með ýmisskonar fræðlsu og baráttu fyrir betra skipulagi, bættum umferðarmannvirkjum og að meira tillit sé tekið til hins hjólandi vegfaranda. Íslenski Fjallahjólaklúbburinn sem upprunalega var stofnaður af áhugamönnum um ferðalög á fjallareiðhjólum innanlands sem erlendis. Starfsemi Íslenska Fjallahjólaklúbbsins nær þó yfir fleiri svið í dag, má nefna sem dæmi umhverfis- og skipulagsmál, jafnt í borgum og bæjum sem á hálendinu. Viðgerðar-, fræðslu- og kennslunámskeið hefur klúbburinn verið með á reglulegum klúbbkvöldum sínum á veturnar. Á sumrin ber mest á ferðum og ferðalögum fyrir hjólafólk, allt frá stuttum kvöldferðum fyrir byrjendur um hverfi Reykjavíkur, helgarferðir þar sem gist er eina eða tvær nætur og upp í margra daga reiðhjólaferðalög um landið fyrir þá sem reyndari eru.

Heimir H. Karlsson.

Upphaflega flutt í þættinum Útrás á RÚV