Reykjanesbraut úr Turninum Í dag var afar góð úttekt í Morgunblaðinu um hjólreiðastígana sem enn vantar meðfram stóru stofnæðunum, þrátt fyrir það að bæði ríkisvald og sveitarstjórnir hvetji almenning til hjólreiða og almennrar hreifingar. Við látum allan pistilinn fylgja. Páll Guðjónsson

 

Hjólreiðar eru heilsusamlegur, umhverfisvænn og hagkvæmur samgöngumáti (eins og segir á heimasíðu átaksins Hjólað í vinnuna) og bæði ríkisvaldið og sveitarstjórnir hafa hvatt til hjólreiða og almennrar hreyfingar. Og eftir því sem fleiri hjóla því minni verða umferðahnútarnir. Í ljósi alls þessa hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hvers vegna hjólreiðastígar voru ekki lagðir um leið og Vesturlandsvegur og Reykjanesbraut voru tvöfölduð í umfangsmestu vegagerð síðari ára á höfuðborgarsvæðinu.

Sjö milljarðar. Það er um það bil kostnaðurinn við að tvöfalda Vesturlandsveg um Mosfellsbæ og Reykjanesbraut þar sem hún liggur um þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu.

Þú – Nei, þú!

Meðan umræddar framkvæmdir voru á skipulagsstigi reyndu Landssamtök hjólreiðamanna að koma þeirri hugmynd að hjá Vegagerðinni, samgönguráðuneytinu og sveitarfélögum að um leið og bílvegirnir væru tvöfaldaðir yrði gert ráð fyrir hjólastígum meðfram vegunum og þannig yrðu bæjarfélögin sem þessar stofnbrautir liggja um tengd saman.

Á þessar ábendingar var hlustað en ekkert gert, a.m.k. ekki ennþá. Þurfi hjólreiðamenn að fara þessar leiðir verða þeir þess vegna annaðhvort að fara miklar krókaleiðir eða hjóla úti í vegkanti og bíta á jaxlinn þegar bílarnir þeysast fram úr á 80-100 km hraða eða hraðar.

Hjá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar hjá Jónasi Snæbjörnssyni, svæðisstjóra á Suðvesturlandi, að þar á bæ hefðu menn litið svo á að það væri hlutverk sveitarfélaga að skipuleggja og greiða fyrir hjólreiðastíga. Þar að auki hefði Vegagerðin ekki haft heimild til að leggja fé í hjólreiðastíga fyrr en eftir að vegalögum var breytt árið 2007. Vegagerðin hafði á hinn bóginn heimild til að borga fyrir reiðvegi og hefur haft þá heimild lengi.

Hjá sveitarfélögunum, a.m.k. sumum, var hins vegar litið svo á að ríkinu bæri að koma að uppbyggingu hjólreiðastíga meðfram stofnbrautum.

Í kjölfar ofangreindrar breytingar á vegalögunum var settur á laggirnar vinnuhópur sem í sitja fulltrúar samgönguráðuneytisins, Vegagerðarinnar og Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem hefur það hlutverk að fjalla um hjólreiðastíga við stofnbrautir.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, vonast til þess að starf vinnuhópsins leiði til þess að óvissu í þessum efnum verði eytt og ráðist verði í stígagerðina sem allra fyrst. Bæjarstjórnin hafi mikinn áhuga á að leggja þessa stíga enda séu þeir beinlínis forsenda þess að reiðhjól geti verið raunhæfur samgöngumáti. „Þetta er eitthvað sem þarf nauðsynlega að koma á koppinn,“ segir hann.

Betra að fara beinustu leið

Staðan í sveitarfélögunum er misgóð – eða misslæm, eftir því hvernig á það er litið.

Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 er gert ráð fyrir göngu- og hjólreiðastígum beggja vegna Vesturlandsvegar.

Frá Mosfellsbæ liggur nú þegar göngu- og hjólreiðastígur en hann er meðfram strandlengjunni. Haraldur segir stíginn góðra gjalda verðan, svo lengi sem menn eigi leið þangað niður eftir. Vesturlandsvegurinn sé hins vegar stysta, beinasta og fljótlegasta leiðin og því verði stígarnir að liggja meðfram honum, það verði að vera auðvelt og þægilegt að velja fremur að

hjóla en keyra. Aðspurður hvort sveitarfélagið geti ekki lagt stígana í eigin reikning segir Haraldur eðlilegt að ríkið taki þátt í því enda séu hjólreiðar aðeins einn samgöngumáti af mörgum og í þessu tilviki myndu stígarnir tengja saman bæjarfélög.

Ríkið leggi til fé til slíkra verkefna þegar bílar eigi í hlut og ætti að gera hið sama þegar málið snúist um hjólreiðar.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er gert ráð fyrir göngu og hjólreiðastígum við eða skammt frá Vesturlandsvegi. Samkvæmt skipulagsuppdrætti virðast þeir hins vegar töluvert kræklóttir og liggja ekki stystu leið meðfram veginum. Þá að Reykjanesbraut.

Á skipulagi í Garðabæ

Ekki er að sjá að gert sé ráð fyrir göngu og hjólreiðastígum meðfram Reykjanesbraut þar sem hún liggur um Kópavog.

Garðbæingar eru meiri hjólavinir, a.m.k. í orði ef ekki á borði, því í aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016 er gert ráð fyrir göngu- og hjólreiðastígum meðfram Reykjanesbraut þar sem hún liggur um Garðabæ og liggja stígarnir nokkurn veginn samsíða brautinni. Að sögn Arinbjarnar Vilhjálmssonar, skipulagsstjóra Garðabæjar, hefur þó engin ákvörðun verið tekin um hvenær verði ráðist í gerð þeirra. Hann taldi þó líklegt að byrjað yrði á þeim á skipulagstímabilinu, þ.e. fyrir árið 2016.

Hjá Hafnarfjarðarbæ fengust þær upplýsingar hjá Helgu Stefánsdóttur, forstöðumanni umhverfis- og hönnunardeildar, að búið væri að leggja stíga meðfram Reykjanesbraut að mestu leyti. Um leið og Reykjanesbraut yrði tvöfölduð milli Strandgötu að Krýsuvíkurvegi yrði lokið við stígagerð meðfram þeim kafla. Þá eigi eftir að leggja stíga um Bæjarhraun en það verði vonandi gert innan tveggja ára. Þar með yrðu komnir göngu- og hjólreiðastígar meðfram allri Reykjanesbraut.

Af þessu má sjá að von er á hjólastígum,fyrr eða síðar. Þangað til er líklega ætlast til þess að fólk keyri í vinnuna. Og borgi 160,9 krónur fyrir lítra af bensíni.

Eftir Rúnar Pálmason

Morgunblaðið 26 maí 2008.