Þetta gerðist einsog sprenging. Allt í einu er Ísafjörður einn heitasti staður landsins fyrir fólk sem rennir sér niður fjöll á reiðhjólum. Hvernig stendur á því? Það þarf aðallega tvennt til. Annars vegar er það rétta landslagið. Það er til staðar í fjalllendinu uppaf Skutulsfirði, þar sem höfuðstaður Vestfjarða er. Þar er allskonar halli á brekkunum og vegir og slóðar liggja uppá heiðar. Hins vegar þarf rétta fólkið til að koma auga á möguleikana í landslaginu og gera eitthvað í málunum. Þetta fólk er líka til. Það þurfti samt eitthvað til að koma skriðunni af stað. Það eru mörg ár síðan einhver gaur byrjaði að mynda braut neðst í Hnífunum og kom sér þar upp nokkrum stökkpöllum. 

Fyrir neðan Hnífa, þar sem ævintýrið hófst. Ljósmynd: Daníel Jakobsson.

Fyrir neðan Hnífa, þar sem ævintýrið hófst. Ljósmynd: Daníel Jakobsson.

Fyrir fáeinum árum kom til sögunnar annar gaur, Óliver Hilmarsson, kallaður brautryðjandi, sem hafði sama áhugamál. Hann og fleira áhugafólk fór vinna í braut sem þau sáu fyrir sér, alla leið ofan frá Botnsheiði og niður alla Hnífa, um 6 km leið. Áhuginn er bráðsmitandi. Vinir, kunningjar og fjölskyldumeðlimir brautryðjendanna, fólk með áhuga á fjallahjólreiðum, voru fljótlega komin á bólakaf í stígagerðina. Þetta fólk hefur verið kjarninn í félagsskapnum æ síðan, þó hópurinn hafi stækkað.

Hópur uppi á Botnsheiði; Heiðinni. Ljósmynd: Óliver Hilmarsson.

Hópur uppi á Botnsheiði; Heiðinni. Ljósmynd: Óliver Hilmarsson.

Hlutirnir gerðust furðu hratt. Árið 2017 gaf Ísafjarðarbær leyfi fyrir brautinni. Árið eftir var brautin komin í það horf að hægt var að halda á henni keppni á hjólamóti í samstarfi við Enduro –Ísland og vestfirsku Hlaupahátíðina. Þetta tókst þó að félagsskapurinn ætti hvorki peninga né verkfæri. Það lögðu allir til með sér vinnu sína, tíma sinn og verkfærin sín. Fólk varð sér úti um spýtur með ýmsum klókindum, svo hægt væri að smíða brýr, stökkpalla og beygju. Það eru lagtækir smiðir í hópnum.

Hjólaviðgerðamaður bæjarins, Viðar Kristinsson er m.a.s. löggiltur smiður. Útsjónarsemi hefur alla tíð einkennt fólkið á bakvið verkefnið. Fyrirtæki sem eiga hentug vinnutæki hafa alveg fengið að lána þau til góðra verka.

Lífið er ekki bara vinna. Stundum er líka hjólað. Ljósmynd: Helga Björt Möller.

Lífið er ekki bara vinna. Stundum er líka hjólað. Ljósmynd: Helga Björt Möller.

Skriðan var komin af stað. Tungudalur og hálendið upp af honum blasir við frá Hnífunum. Hugmyndaríkt fólk með sama áhugamál er fljótt að koma auga á fleiri tækifæri. Til dæmis lá í augum uppi að það þyrfti að búa til tengingu frá brautinni niður í Tungudal og stígakerfið þar. Auðveldari leið en að steypa sér niður Hnífana. Þarmeð var komið Y-braut þar sem fólk gat haft val. Efsti hlutinn, sá sameiginlegi, fékk nafnið Heiðin (2,5 km). Framhaldið niður Hnífana heitir einfaldlega Hnífar (rúmir 3 km til að byrja með, 3,6 km núna). Tengingin niður í Tungudal heitir Tungan (1,7 km miðað við stystu skilgreiningu).

Eina vaðið, sem því nefni má kalla, í brautakerfinu í Skutulsfirði er þetta hér á Tunguá. Það er í brautinni sem kallast Tungan. Ljósmynd: Anna María Daníelsdóttir.

Eina vaðið, sem því nefni má kalla, í brautakerfinu í Skutulsfirði er þetta hér á Tunguá.
Það er í brautinni sem kallast Tungan. Ljósmynd: Anna María Daníelsdóttir.

Og áfram hélt það. Árið 2019 bættust við brautirnar Bunan, Hrossið og Múlinn. Öll nöfnin tengjast örnefnum sem til staðar eru. Bunan og Hrossið þykja reyndar líka lýsa eiginleikum leiðanna ágætlega. Þessar þrjár leiðir mynda nærri samfellt rennsli lengst ofan frá Sandfelli (454 m.y.s.) niður á láglendi. Síðar átti eftir að tengja þessar leiðir enn betur saman og bjóða upp á tilbrigði við hana. Tilbrigði við þessa salíbunu varð til um svipað leiti og fékk nafnið Vestfirðingurinn.

Unnið við brautina í Múlanum. Af öllum brautunum í Skutulsfirði liggur að meðaltali mest vinna bak við hvern metra í þessari bröttu og hlykkjóttu skógarbraut. Samskipti Hjólreiðadeildar Vestra og Skógræktarfélags Ísafjarðar hafa verið með ágætum. Kannski hefur það eitthvað með það að gera að Kristján (maðurinn í grænu treyjunni) er í báðum félögum? Ljósmynd: Óliver Hilmarsson.

Unnið við brautina í Múlanum. Af öllum brautunum í Skutulsfirði liggur að meðaltali mest vinna bak við hvern metra í þessari bröttu og hlykkjóttu skógarbraut. Samskipti Hjólreiðadeildar Vestra og Skógræktarfélags Ísafjarðar hafa verið með ágætum. Kannski hefur það eitthvað með það að gera að Kristján (maðurinn í grænu treyjunni) er í báðum félögum? Ljósmynd: Óliver Hilmarsson.

Þegar hér var komið sögu hafði dálítið mikilvægt gerst. Í apríl 2019 gekk þessi frekar óformlegi áhugamannahópur, sem þá hafði hlotið nafnið Hnífar, í Vestra. Vestri er íþróttasamband á Vestfjörðum. Þarmeð varð til Hjólreiðadeild Vestra. Þá fór í fyrsta skipti að sjást peningur. Sótt var um í allskonar framkvæmdasjóði, uppbyggingarsjóði og allskonar.

Breyttir tímar. Áður voru ekki til spýtur og allir unnu. Nú er til nóg af spýtum en flestir horfa á einn vinna. Það er annar löggiltur smiður í hjólagenginu, Addó á flugvellinum. Ljósmynd: Heiða Jónsdóttir.

Breyttir tímar. Áður voru ekki til spýtur og allir unnu. Nú er til nóg af spýtum en flestir horfa á einn vinna. Það er annar löggiltur smiður í hjólagenginu, Addó á flugvellinum. Ljósmynd: Heiða Jónsdóttir ásamt fyrstu myndinni.

Í maí 2019 fékk félagið til umráða stærðarinnar landskika á iðnaðarsvæði sem hafði verið í hálfgerðu reiðileysi. Þar var í skyndingu komið upp æfingasvæði. Það hefur frá upphafi verið mikið notað. Brautir voru gerðar úr grjóti og timbri og mótaðar beint í land. Hvort þetta svæði stendur til boða til framtíðar er enn óvíst, en það er óskandi, því áhrifin af því eru mikil. Börn og unglingar hafa notað svæðið einna mest, enda hafa þau helst verið höfð í huga þegar brautir hafa verið búnar til.

Málið er nefnilega það að Hjólreiðadeild Vestra er sérlega barnvænt (púkavænt) samfélag. Ef það á að vera framtíð í þessu sporti, þá þarf að sá til þess réttu fræjunum. Það er óspart gert með æfingum og námskeiðum fyrir börn og unglinga. Dugandi heimamenn eru fengnir til að þjálfa og kenna en líka eru keyptir til verksins atvinnumenn úr öðrum héruðum. Æfingasvæði fyrir ungviðið hafa verið sett upp innanbæjar, svo úr hefur orðið hin fínasta torgstemmning. Líka hefur verið haldið viðgerðanámskeið undir berum himni. Fólk skemmtir sér saman. Ungmennin fá líka að keppa. Haldið var svokallað ungdúrómót, sem er skylt orðinu enduro. Þá er keppt með sérleiðafyrirkomulagi á fjórum leiðum. Nýjasta brautin í leiðaneti ísfirsku fjallahjólaranna er sérstaklega hönnuð fyrir börn og byrjendur. Efsti hluti hennar heitir Ungdúró og framhaldið heitir Heimreiðin. Hún endar niðri í stígakerfi bæjarins.

Hér er verið að búa til beygjur í Ungdúró-brautina. Ljósmynd: Helga Björt Möller.

Hér er verið að búa til beygjur í Ungdúró-brautina. Ljósmynd: Helga Björt Möller.

 

Frá ungdúrómóti sumarið 2020. Ljósmynd: Heiða Jónsdóttir.

Frá ungdúrómóti sumarið 2020. Ljósmynd: Heiða Jónsdóttir.

 

Frá ungdúrómóti sumarið 2020. Ljósmynd: Helga Björt Möller.

Frá ungdúrómóti sumarið 2020. Ljósmynd: Helga Björt Möller.

Fullorðna fólkið hefur líka fengið námskeið þar sem fagfólk kennir enduro-kúnstir. Það hefur líka fengið leiðbeiningu í notkun Eyrarhjólanna svokölluðu. Á þeim hjólum er rúntað með íbúa dvalarheimilisins Eyrar. Námskeið var líka haldið fyrir fólk sem ætlar að taka að sér að leiða hjólaæfingar. Það var meira að segja kominn styrkur til að senda manneskju á þjálfaranámskeið til Wales. Svo þarf að halda kunnáttunni við. Samhjól heitir það þegar farið er á föstum tímum, einu sinni til tvisvar í viku í brautirnar. Stundum slæðast nýliðar með og þá fá þeir tilsögn.

Prufuferð í Bununni. Í henni sannaðist að það er frekar maðurinn en reiðhjólið sem gerir gæfumuninn í fjallabruni. Hér fer fjallagarpurinn Kévin Dubois á kostum. Ljósmynd: Helga Björt Möller.

Prufuferð í Bununni. Í henni sannaðist að það er frekar maðurinn en reiðhjólið sem gerir gæfumuninn í fjallabruni. Hér fer fjallagarpurinn Kévin Dubois á kostum. Ljósmynd: Helga Björt Möller.

Það er hægt að skemmta sér við fleira en að hjóla. Það er líka hægt að segja hjólaferðasögur og planleggja næstu ævintýri. Þau eru orðin ófá kvöldin sem hjólararnir hafa fjölmennt á öldurhús bæjarins og fundað um hitt og þetta og haldið myndasýningar frá svaðilförum um heiminn. Umræðuefnið á fundunum er ótæmandi. Þar eru meðal annars lögð drög að merkingum og kortlagningum brautanna, fleiri námskeið skipulögð og keppnir ákveðnar, skipst á upplýsingum um hvernig er hægt að krækja í pening eða smíðatimbur og hvað skuli framkvæma.

Stjórn Hjólreiðadeildar Vestra í þungum þönkum á Húsinu. Ljósmynd: Helga Björt Möller.

Stjórn Hjólreiðadeildar Vestra í þungum þönkum á Húsinu. Ljósmynd: Helga Björt Möller.

Það er ekki bara talað, heldur líka gert. Nú er búið að smíða kerru sem tekur 8 hjól og það er búið að gera skiltastanda mikla sem eiga að bera kort af hjólasvæðunum. Kortin verða svo teiknuð þegar ljóst verður hversu umfangsmikið leiðakerfið verður að lokum. Það er enn verið að leggja brautir. Hjólreiðadeildin hefur lagt orku í að safna þeim leiðum sem komnar eru inn á Trailforks síðuna. Kynningar og námskeið hafa verið haldin í tengslum við það.

Bútur úr útivistarkorti Skutulsfjarðar, 2021. Bláu línum kortsins hefur fjölgað ört á milli ára og mun gera það áfram. Brátt mun þurfa að gera sér kort fyrir hjólabrautirnar. Teikning: Ómar Smári Kristinsson.

Bútur úr útivistarkorti Skutulsfjarðar, 2021. Bláu línum kortsins hefur fjölgað ört á milli ára og mun gera það áfram. Brátt mun þurfa að gera sér kort fyrir hjólabrautirnar. Teikning: Ómar Smári Kristinsson.

Vinnan við Trailforks og margt annað á sér líka stað á netinu. Fésbókarsíða félagsins, sem var stofnuð sumarið 2018, er stærsti fundurinn. Þar eru öll mál rædd. Ekki síst á kóvítis árinu þegar barirnir hafa verið lokaðir. Á fésinu má gjarnan sjá einhvern félaga segjast vera að skreppa í hina eða þessa brautina og hvort einhver vilji vera samferða. Stjórnin er dugleg að segja frá öllu sem verið er að gera og pæla. Allt er opið og lýðræðislegt. Þar eru samhjól, námskeiðin, æfingarnar, vinnudagarnir, fundirnir og myndakvöldin auglýst. Þar fara fram vangaveltur um kaup á efni og græjum, hvað kollegarnir á öðrum stöðum eru að gera og hvernig staðið skal að næstu keppni og svo framvegis og svo framvegis.

Bunað niður með Buná; Bunan. Ljósmynd: Óliver Hilmarsson.

Bunað niður með Buná; Bunan. Ljósmynd: Óliver Hilmarsson.

 

© Birtist fyrist í Hjólhestinum mars 2021.