Frumvarp til breytinga á umferðarlögum  var lagt fram á Alþingi í haust. Í því voru m.a. lagðar til breytingar á skilgreiningum og reglum um svo kallaðar rafvespur eða rafskutlur, sem heita samkvæmt frumvarpinu „létt bifhjól í flokki 1”, það eru tæki sem ekki komast hraðar en 25 km/klst. (hér eftir kallaðar skutlur).

Ýmislegt var þar til bóta, eins og að skutlur skuli nú flokkast sem bifhjól en ekki sem reiðhjól eins og áður var túlkað í umferðarlögum og einnig að skýrt er nú kveðið á um hvað séu rafknúin reiðhjól og hvað ekki, en rafknúin reiðhjól falla undir sömu ákvæði og reiðhjól. Rafknúið reiðhjól er tæki með sveifarbúnaði, sem ekki gefur hjálpar­afl nema fótstig sé knúið og hættir að gefa hjálparafl þegar 25 km/klst. hraða er náð. Í frumvarpinu var líka lagt til bann við akstri skutla á akbraut með 50 km hámarkshraða eða yfir, en lagt til að akstur skutla yrði leyfður á öllum gangstéttum og stígum.

Landssamtök hjólreiðamanna gerðu ýmsar athuga­semdir við frumvarpið. LHM telur það óráð að banna akstur skutla á akbrautum enda er umferð allra annarra farartækja leyfð á akbrautum, þar á meðal reiðhjóla, og ef slíkt víðtækt bann væri samþykkt við einni gerð öku­tækja án rökstuðnings, væri það hættulegt fordæmi fyrir notkun reiðhjóla. LHM lagði líka til að akstur skutla yrði almennt bannaður á stígum og gangstéttum en að sveitarfélög gætu leyft akstur þeirra á stígum með boð­merkjum enda væri þá tekið mið af því hvort stígurinn væri öruggur fyrir skutlur og aðra notendur stíga. Einnig gerði LHM athuga­semd við skilgreiningu á reiðhjólum og við sérstakar þverunarreglur fyrir skutlur og að notendur skutla skuli skyldaðir til að nota hjólastig ef hann er samsíða gangstétt eða göngustíg.

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis gerði síðan talsvert veigamiklar breytingar á frumvarpinu hvað varðar skutlurnar. Það sem breyttist í meðförum nefndarinnar á frumvarpinu var að akstur skutla verður ekki bannaður á akbrautum og einnig voru felldar niður kröfur frumvarpsins um að þessi öku­tæki væru tryggð með ábyrgðar­tryggingu og að til aksturs þeirra þyrfti þar til gert ökuskírteini. Nefndin setti þó inn ákvæði um aldurstakmark og má engin yngri en 13 ára stjórna skutlum. Nefndarálitið var samþykkt og lögin því í samræmi við það.

Frá sjónarmiði LHM er það til bóta að raf­reiðhjól séu nú skýrt afmörkuð, að skutlur séu ekki lengur reiðhjól og að aka megi skutlum á akbrautum. Neikvætt er að leyfilegt verður að aka skutlum á öllum gangstéttum og stígum án gæðaeftirlits sveitarfélaga með hvort þær henti til þessarar umferðar og að ennþá séu tæki sem ekki eru reiðhjól skilgreind sem reiðhjól í umferðarlögunum  og að sérstakar reglur um umferð skutla hafi verið settar án þess að gera heildarendurskoðun á þessum reglum fyrir öll ökutæki.

Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015