Hjólaleikfélagið varð til vorið 2013 í tengslum við styrk sem Íslenski Fjalla­hjóla­klúbburinn fékk úr sjóðnum Ódýrari Frí­stundir sem notaður var til að efla hjólreiðar barna í Vesturbæ Reykjavíkur.

Hjólaleikfélagið leggur áherslu á leik og skemmtun á hjóli og á möguleika hjólsins sem leiktækis.

Hjólaleikfélagið þróaði og hélt námskeið fyrir þrjá 4. bekki í Vesturbæjarskóla vorið 2013.

Námskeiðið var fyrir einn bekk í einu og var byrjað á að hitta krakkana í bekkjarstofu, spjalla við þau og sýna stutt myndbönd af hjóla­listum svo þau sæju hvað hægt er að gera á hjóli. Eftir þetta héldu allir út á skólalóð þangað sem börnin voru mætt með sín eigin hjól. Farið var yfir notkun bremsa, jafnvægi og stjórnun hjóls. Börnin leystu þrautir eins og að hjóla eftir línu, færa glas á milli borða og hjólasvig.

Loks spreyttu börnin sig á þrautabraut þar sem fyrri þrautir voru tvinnaðar saman auk þess sem hjóla átti yfir vegasalt og eftir spýtu. Að lokum sýndi kennari nokkrar erfiðari þrautir á hjóli og börnin voru leyst út með viðurkenningar­skjölum.

Byrjað var á að setja saman handrit að námskeiðinu sem var svo þróað áfram á meðan námskeiðin voru haldin. Það lærðist margt á fyrstu tveimur nám­skeiðunum sem notað var til aðlögunar og gekk námskeiðið fyrir þriðja og síðasta bekkinn sérstaklega vel.

Hjólaleikfélagið hélt einnig fjalla­hjóla­námskeið fyrir börn og unglinga í Öskjuhlíð. Krakkarnir fengu kennslu í að bremsa, beygja í möl/mold og að fara yfir minni steina og rætur. Einnig var rætt hvernig best er að detta og kennari sýndi eina góða dettu.

Styrkurinn var notaður til kaupa á þremur Trials-hjólum til að nota við áfram­haldandi námskeið og voru þau til sýnis og prófunar á Hjóladegi Vesturbæjar vorið 2014 sem Hjólaleikfélagið sá um. Þar var í boði að yfirfara reiðhjól og svo gátu ungir sem aldnir spreytt sig á ýmsum þrautum í þrautabraut sem lögð var. Gaman var að sjá alla prófa þrautirnar.

Trials-hjól er sérstök tegund reiðhjóla sem henta til að  komast yfir erfiðar þrautir eins og til dæmis uppá og á milli steina. Það sem vekur yfirleitt mesta athygli er að hjólin eru mörg hver sætislaus.

Hjólaleikfélagið ætlar að halda áfram á sömu braut og halda námskeið fyrir börn og unglinga þar sem farið verður í erfiðari þrautir eins og að prjóna og stökkva á hjóli og fleira skemmtilegt.

Hjólaleikfélagið hefur hlotið styrk frá Skóla-og frístundasviði Reykjavíkurborgar sem verður notaður til kaupa á sérstöku stökk-hjóli til að nota á námskeiðunum. Auk nám­skeiðanna mun Hjólaleikfélagið halda sýningar í nokkrum skólum til að kynna nám­skeiðin og þessa tegund hjólreiða. 

Hjóla­leikfélagið mun aftur sjá um Hjóladag Vestur­bæjar þar sem boðið verður upp á þrauta­braut og hjólin höfð til sýnis og prófunar.

Hjólaleikfélagið samanstendur af Arnaldi Gylfasyni, Óskari Jónassyni og Hlyni Þorsteinssyni. Að auki á það ýmsa velunnara sem eru því til halds og trausts.

Hér eru svipmyndir úr starfseminni:

{oziogallery 474}

Hjólhesturinn 1. tbl. 24. árg. mars 2015