„Hvað,.ert þú enn að hjóla i þessu veðri. Um miðjan vetur?“ „Já já. Það er ekkert að þessu veðri. Ég fór meira að segja í útilegu um síðustu helgi.“ „Nei. heyrðu. Þetta eru nú öfgar. Að ferðast á hjóli í janúar. Varstu ekki alveg að drepast úr kulda? Voruð þið ekki alltaf að fljúga á hausinn? Ekki tjaldaðir þú líka?“

Þetta voru viðbrögðin hjá vinkonu minni sem ég hitti um daginn en þetta var nú líka það sama og ég hugsaði þegar Magnús Bergsson sagði mér frá vetrarbröltinu sínu í einhverri klúbbferðinni minni fyrsta sumarið sem ég hjólaði. Ekki leist mér nú á að fara að hjóla allan ársins hring hvað þá að ferðast á vetuma. Eitthvað minntist hann á nagladekk undir hjólið en slíkt hafði ég aldrei heyrst minnst á, hvað þá séð og átti erfitt með að ímynda mér hvernig það gæti virkað.

Fyrst begar snjóaði um veturinn var alveg frábært að hjóla. Snjórinn nýruddur og myndaði þessa líka frábæru fláa þar sem kantarnir höfðu verið til trafala. En svo rigndi í þetta og frysti og mér leist ekkert á hvað hjólið rann á svellinu, og ekki var nú mikið skjól í þeim þunna hjólafatnaði sem ég hafði sankað að mér um sumarið. Það annaðhvort blés í gegnum þetta svo manni varð kalt eða það andaði ekkert og varð algjört svitabað. Ég var ekki lengi að gefast upp á þessu og lagði hjólinu fram á vor.

Þegar ég ætlaði svo að fara að ferðast aftur um vorið var maður ekki í neinu formi og fór fyrri helmingur sumars bara í það að komast í form aftur. Þetta mátti ekki endurtaka sig svo ég fór að hugleiða þessi mál frekar. Annað hvort hafði ég og hjólið ekki verið rétt útbúið eða þetta fólk sem var að hjóla allan veturinn var eitthvað ofurmannlegt.

Ég fór að skoða hvernig fatnað þetta hjólafólk notaði. Undraefnið Gore-tex bar oft á góma og átti að vera betra en nokkuð annað. Ég byrjaði á því að fá mér þær buxur sem mest var mælt með, úr lycra efni með framhlið úr Gore-tex. Ég var svo ánægður að góður Gore-tex jakki sniðinn fyrir hjólreiðar fylgdi fljótlega á eftir. Með rennilásum undir höndum og víðar svo hægt var að stilla loftflæðið um líkamann. Ég hef varla litið á gömlu hjólafötin mín síðan enda virðast þau ekki hafa verið hönnuð með notkun í huga.

Innst notar maður hjólastuttbuxur og hjólabol sem dregur svitann frá líkamanum. Svitinn gufar svo jafnóðum upp og loftar út um þéttriðið netið í Gore-tex efninu sem hlífir gegn regni og vindi. Ef ég klæði mig meir er ég oftast allt of mikið klæddur; svitinn kemst ekki út og fötin blotna.

Svona klæddur hjólaði ég um alsæll fram á haust og komst þá að því mér til furðu að þessi sami fatnaður hentaði jafn vel í flestu veðri frá um 10 gráðu hita niður í næstum 10 gráðu frost en þá þarf aðrar lycra buxur innanundir. Miðað við notagildið fannst mér ég hafa gert kjarakaup í þessum fatnaði og öryggið af því að þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af dyntóttu íslensku veðurfari er ómetanlegt. Það gengur ekki að þurfa skipta um föt í hvert skipti sem nýtt veðursýnishorn svífur framhjá.

En svo kom svellið og með klúbbskírteinið á lofti var stormað inn í næstu hjólabúð og keypt tvö nagladekk gegn afslætti. Með nýju dekkin undir var svo haldið út á hálan ís að prófa naglana. Það var ótrúlegt gripið í þeim.

Öryggistilfinningin jafnaðist á við þá sem stelpurnar eru alltaf að lýsa í blessuðum dömubindaauglýsingunum. Ég tók svo næstum ekkert eftir því þegar vetraði he1dur hjó1aði bara eins og vanalega.

Formaðurinn og fleiri í klúbbnum virðast ekki mega sjá góða helgarveðurspá án þess að fá ferðafiðring í magann og þegar ég heyrði að verið væri að smala liði í létta helgarferð upp í Skorradal sló ég til eins og ekkert væri eðlilegra í miðjum janúar. Við vorum reyndar bara þrír í þetta skiptið. Við tókum Akraborgina klukkan hálf fjögur og hjóluðum þetta svo á þægilegum hraða í tvo og hálfan tíma. Það dimmdi á leiðinni en allir vorum við með góð ljós og það var yndislegt að hjóla þetta í snjónum, rökkrinu og fersku loftinu á ný ruddum veginum. Um nóttina var gist í góðu yfirlæti á eiðibýli.

Eftir góðan morgunmat var svo haldið til baka. Um nóttina hafði harðfennið sem var svo þægilegt yfirferðar kvöldið áður blotnað og frosið svo að langir kaflar af leiðinni voru bara svell. Svo mikið að yfir Dragann dugðu jafnvel ekki nagladekkin og við urðum að fara aðeins erfiðari leið úti í vegarkantinum en það hafðist allt í léttustu gírunum.

Þegar jafnsléttan tók við sigldi ég á fullri ferð á svellinu á mínum nagladekkjum meðan harðjaxlarnir Maggi formaður og Halli tvíburi héldu áfram í vegarkantinum. Þeir virðast eiga svo mörg hjól að þeir vita varla hverju þeir eiga að hjóla og höfðu báðir veðjað á það hjólið sem var með bestu snjódekkjunum undirog skilið nagladekkin eftir heima.

Ekki skemmdi svo ánægjuna hjá mér í minni fyrstu vetrarferð að geta skotist fram úr harðjöxlunum af og til á svellinu.
Reyndar er Halli búinn að heita því að ef eins viðri næst muni hann mæta á gaddadekkjunum sínumi sem hafa þvílíkt heljargrip að ekkert fái stöðvað hann. Veðrið var frábært, lygnt og bjartviðri lengst af.

Þetta var mjög skemmtileg ferð og þó ég sé ekki í topp formi veit ég nú að ég þarf ekki að bíða fram á mitt næsta sumar áður en ég kemst í nógu gott form fyrir helgarferðir.

Besta leiðin til að halda sér í formi er greinilega að hjóla allt árið. Ef þið eruð búin að leggja hjólinu ættuð þið endilega að fá ykkur nagladekk undir hjólið og prófa. Ef ykkur vantar betri föt er bara að hjóla í næstu hjólabúð og gramsa en ef þið vitið ekki hvað reynist best er bara að líta inn á næsta fund og tala við þá sem hafa reynsluna.

Páll Guðjónsson.

Birtist fyrst í Hjólhestinum 1. tlb. 5. árg. febrúar 1996