Það hefur orðið að venju innan klúbbsins að fara n.k. fjölskylduferðir. Ferðir sem eru léttari yfirferðar en aðrar og henta þannig vel bæði byrjendum og fjölskyldufólki. Ein þannig ferð var farin upp í Veiðivötn dagana 21.-23. ágúst og er óhætt að segja að hún hafi heppnast að öllu leiti vel, nema hvað undir lok ferðarinnar gerðist smá óhapp, sem sagt verður frá síðarmeir.

Að venju var lagt af stað á föstudagskvöldi um kl.21:30. Spáin lofaði góðu og á daginn kom að hún stóðst með miklum ágætum; rjómablíða, heiðríkja og hiti. Reyndar lá leiðin ekki í Veiðivötn, svona fyrsta kastið, heldur í skálann í Jökulheimum. Þangað var komið seint um nótt, enda vegurinn með eindæmum leiðinlegur á kafla, auk þess sem myrkrið og ljósleysið tafði nokkuð fyrir. Ljósin voru jú næg á Múkkanum, en vegna fjölda reiðhjóla, farþega og mikils farangurs, (við vorum alls 19 manns og allir á hjólum sem verður að teljast helst til fjölmennur hópur þannig að vel fari um alla) voru nokkur hjól geymd framaná bílnum og komu þau í veg fyrir að hægt var að nota aðal ljóskastarana. Voru menn því náttblindir mjög meginhluta tímans sem tók að þoka sér uppeftir, eftir að hálendismiðstöðinni í Hrauneyjum sleppti. Á tíma var svo komið að menn vissu vart hvar vegurinn var, og síst þeir sem sátu frammí. Oftar en ekki var ekið við hlið vegarslóðans, eða bara eitthvað út í buskann, eða þar til við vorum farin að halla heldur mikið út á hlið. Aðstæður voru líka hinar verstu, svartur foksandur í svartamyrkri, þannig að allt rann út í eitt. Vegstikur voru einnig oft fáar, lágu niðri eða voru svo sandblásnar, að vart mátti greina þær. En að lokum var komið á áfangastað og þreyttir og þvældir ferðalangar skjögruðu úr kjötkássunni sem hafði myndast í troðningnum á leiðinni.

Daginn eftir skriðu menn úr púpum sínum og fengu sér misútlýtandi dögurð. Að venju fengu sumir sér (gómsætt) bjúga með (gómsætari) útrunnum þurrmat meðan aðrir svældu í sig nýmeti og tilbúnum viðgjörningi. Þegar öllum skyldustörfum var lokið, var svo rennt af stað til Veiðivatna, á bílnum... að lokum fengu hjólin þó frelsið aftur þegar þau, eftir langan barning, voru leyst ofanaf Múkkanum við Litlasjó. Tilfinningin að fá aftur hjólið í hendurnar var fyrir mig eins og margann mörlandann, að fá hvalrengið Keikó heim í innsiglinguna til Vestmannaeyja. Munurinn er kannski helst sá að ég færi aldrei að éta hjólið með kartöflum og uppstúf. Eftir að allir voru komnir með fákana milli fóta sér, var að lokum rúllað af stað.

Veiðivötn eru í allt um 50 talsins, frá Snjóölduvatni í s.v. til Hraunvatna í n.a. Þau liggja í um 560-600 m.y.s. og eru hluti af gossprungu sem myndaðist um 1480. Þetta hefur verið heilmikið gos á sínum tíma, því gjóskumagnið á svæðinu hefur mælst allt að 10m á þykkt. Heildarlengd gossprungunnar, sem er t.d. afar áberandi við Fossvötnin, er um 67 km. Áður gaus á þessu svæði á landnámsöld. Það væri í rauninni ónauðsynlegt að segja frá því hvar Veiðivötn lægju, allir ættu að vita það, og þeir sem ekki hafa komið þangað og vita ekki hvar þau liggja nákvæmlega... þá verða þeir hinir sömu að eiga það með sjálfum sér, en leita á korti (1:250.000) á svæðinu milli Mýrdalsjökuls, Vatnajökuls og Þórisvatns, eða svona rétt norðan Tungnaár.

Með í þessari för voru tveir kanar, og gátu þeir vart vatni haldið yfir náttúrufegurð þeirri sem við okkur blasti í síðsumarsólinni. Höfðu bara aldrei séð annað eins. Og vissulega eru Veiðivötn fallegur staður og margt að skoða á skömmum tíma. Ætlunin var að hjóla stóran hring í hæðóttu og grösugu landslagi milli blárra og spegilsléttra vatna. (Tja, þau hefðu verið spegilslétt, ef það hefði ekki verið þessi norðangjóstur). En fyrst var komið að Litlasjó sem fyrr segir. Það var greinilega margt um manninn við vötnin, því veiðitímabilið var senn á enda. Þarna voru heilu fjölskyldurnar samankomnar með veiðistangir og háfa í leit sinni að þeim stóra. Á hæstu hólum mátti sjá til Hrafntinnuskers, og einhverstaðar í hvarfi lágu heittelskaðar Landmannalaugar, enda ekki nema örskotsspölur í Laugarnar, ef ekki væri fyrir Tungnaá.

Það má til sannsvegar færa að þetta svæði og það sem kallað er "friðland að fjallabaki" sé einstaklega gott til útivistar og hjólreiða. Mikið er um slóða (þarna á ég við um torfarna vegi og götur) sem liggja um hrjóstrugt og hrikalegt landslag sem er tiltölulega stutt frá Reykjavíkinni. Að vísu er einnig margt um annarslags slóða, nefnilega jeppaslóða, sem sumirhverjir skilja eftir sig ómetanleg landsspjöll og ruslahauga til fjalla. Auðvitað eru þessir slóðar í miklum minnihluta, en því miður má sjá merki þeirra æði víða.

Gróðurfar er afskaplega viðkvæmt á þessum slóðum, svona þar sem eitthvað nær að festa rót á annað borð fyrir sandfoki og jarðvegseyðingu. Gróðurþekjan er þunn og má alls ekki við átroðningi farartækja og manna. Verðum við hjólreiðamenn að passa okkur vandlega að fá ekki sama orð á okkur og sumir kollegar okkar í t.d. Bretlandi, þar sem ógætilegur "akstur" utan merktra leiða hefur valdið ýmsum leiðindum. Við erum fámennur hópur og verðum að sýna okkar bestu hliðar, ekki síst í náttúruverndarmálum. Nú myndu margir benda á að við vorum einmitt að villast utanvegar, á leið okkar upp í Jökulheima. En sem betur fer var þarna örfoka land og enginn gróður. Ekki var þetta heldur gert að gamni okkar, þó svo að við hefðum að ósekju mátt vera á ferð í birtu.

En hættum nú að "besservisserast" og þvaðra um náttúruverndarsjónarmið og snúum okkur aftur að ferðinni góðu. Eins og áður sagði liggur leiðin um hæðótt og grösugt landslag en sem er um leið afskaplega viðkvæmt; þunnur jarðvegurinn berst við að "halda sér á mottunni" og allstaðar mátti sjá mold- og sandfok í kringum okkur. Það teygðist nokkuð úr liðinu eins og vill oft gerast með þetta stóran hóp, enda enginn að flýta sér. Menn renndu skeiðið hver á sínum hraða, en svo mættust allir við skálana við Tjaldvatn, og rifu í sig nestið. Aðstaða ýmiskonar er öll hin besta þarna. Eiginlega of góð fyrir þá sem eru að leita eftir friðsælli náttúru og hreinni víðáttu, en alltaf er maður nú samt blessuðu postulíninu feginn. (Og eins og dæmin sanna er hægt að gleyma sér gersamlega á kassanum). Að lokinni orkuinntöku og vatnsáfyllingu var svo búist til áframhaldandi ferðar umhverfis vötnin sunnan skála.

Hin furðulegustu nöfn eru á sumum vatnanna, sem sum hver eru þó vart annað en pollar og pyttir; Ónefndavatn, Ampapollur, Ónýtavatn, Nýrað, Skeifupyttla og annað í þeim dúr. En þetta er svosem ekkert einsdæmi. Íslendingar hafa í gegnum árþúsundið nefnt umhverfi sitt stundum þannig nöfnum að ætla mætti að það hafi verið gert í einhverju ölæði eða bara hreinum kvikindisskap. Þarna var semsagt hjólað í dágóða stund, skoðað og teknar myndir eða bara látið sig gossa milli hóla og vatna. Allt gékk að óskum fyrir flesta, nema hvað sumir slitu teina í átökum sínum við veginn, og aðrir risu tignarlega úr hnökkum og svifu óaðfinnanlega um loftin blá, áður en aðdráttarafl jarðar dró þá til sín og tók sinn toll af yfirhúðinni. Sama leið var farin til baka, þ.e.a.s. að Litlasjó og upp með Hraunvötnum. Öllum var í sjálfvald sett hversu langt var hjólað, því Múkkinn lullaði á eftir hópnum og gleypti þá sem höfðu stoppað. Þannig tóku sumir bílinn strax eftir að hringnum var lokið, en aðrir skiluðu sér langleiðina upp í Jökulheima. Þegar allir höfðu troðið sér í bílinn var brunað upp í skála þar sem kvöldvakan og ýmiskonar góðgæti beið grillunar.

Kvöldvökur klúbbsins eru alltaf hin mesta skemmtun. (Þetta fer reyndar eftir því hvaða skilning maður setur á orðið "skemmtun". Að öllu jöfnu má hafa gaman af öllum innanbúðar bröndurunum, svo lengi sem maður er innanbúðar. Fyrir utanaðkomandi gætum við allt eins litið út sem breiður hópur hálfgeggjaðra fjallahjólafurðufugla sem þvaðra tóma þvælu, og hlæja og skríkja eins og smástelpur (afsakið allar smástelpur innan ÍFHK) af einhverri fyndni sem er með öllu óskiljanleg). En við höldum sumsagt kvöldvökur þegar þess er kostur. Þær samanstanda aðallega af fyrrnefndu gríni, einhverslags grillmat (eða hverju því sem gæti mögulega eldast við opinn eld og glóð) og hverjum þeim görótta drykk sem menn nenna að burðast með.

Það var komið fram á myrkur þegar ilmurinn af hinum ýmsu dauðu og misbrenndu dýrum barst með gjólunni um svarta sandana. Sem fyrr voru menn misjafnlega nestaðir og verður ekki farið út í þann matseðil hér. Um nóttina var farið í stjörnu- og gervihnattaskoðun, auk þess sem aðeins týrði á norðurljósunum. (Fundum enga FFH, ET eða BSRB, bara IFHK). Þrír jarðfræðingar í næsta skála sögðu okkur upp og ofan af nýjustu breytingum á landinu (þær voru þónokkrar), og sýndu okkur nokkur ný jarðfræðikort sem þau voru að gera af svæðinu. Eftir að síðasti sauðurinn var sviðinn og étinn, og búið að gera skyldugrín dagsins, var búist til hvílu. Á morgun skyldi rennt til byggða.

"Sunnudagur svefndrukkinn..." kváðu menn hér áður fyrr, og sumir voru víst hressari en aðrir þegar brottfarardagurinn rann upp með sól í heiði og golu í rass. Eftir morgunmat og Müllers-æfingar var ákveðið að fara fyrst upp að jökli. Tungnaárjökull er skriðjökull vestast undir Vatnajökli og hefur að sögn jarðfræðinganna breytt sér mikið undanfarin ár, sem er jú siður skriðjökla. Miklar jökulurðir og gróðursnauðir kambar þekja svæðið og Tungnaáin veltur fram í boðaföllum, úfin og grá. Fjarlægar drunur vísuðu til mikilla fossa sem áin hafði nýverið myndað í miklum giljum og gljúfrum undir Jökulgrindum. Mikið og gott útsýni er af hæstu ásum ofan skálanna yfir svartann eyðimerkursandinn (þeim stærsta í heiminum að sögn nágranna okkar jarðfræðinganna) og fjarlæg fjöll. Eftir stuttan stans, myndatökur og gláp, var snúið við og allur hópurinn renndi sér í suðvesturátt.

Það verður að segjast eins og er að landið virðist liggja þannig að mótvindur er ríkjandi áttin, en þegar maður fær meðvind langar mann helst að snúa við og fara leiðina aftur, svo gaman getur það orðið. Þessa tilfinningu fékk ég þar sem ég rann í blíðskaparveðri þessa 35 km. frá skálanum að vegamótum Veiðivatna. Allt landið breytir um svip og vegurinn sem var í gær svart strik í svartri eyðimörk í svartnætti, verður að svörtu striki í svartri eyðimörk í glaða sólskini. Fjallasýnin birtist manni í allri sinni dýrð og fjölbreytileika, golan kyssir vanga og sólin stækkar húðkrabbann. Að lokum var svo komið að maður hjólaði nakinn að mestu (ég var auðvitað með hjálminn og í skóm) og vind-þurrkaði gumpinn í góðviðrinu. En rétt áður en Freyr bílstjóri náði niður að vegamótum, þar sem flestir biðu bílsins, gerðist hið óvænta; það kviknaði í Múkkanum.

Ekki varð ég vitni að því þegar Benzinn breyttist í "brunabíl" en svo herma sagnir að það hafi gerst allsnöggt. Með eldsnöggum viðbrögðum nærstaddra tókst að kæfa eldinn og voru notaðar til þess allar vatns- og orkudrykkjabyrgðir sem í bílnum fundust auk sands, sem var víst nóg af á þessum slóðum. Við atgang þennann brenndist Freyr á fingri, en aðrir sluppu með skrekkinn. Kom í ljós að það hafði kviknað í út frá rafmagni og bensínleiðsla farið í sundur. Til allrar lukku voru öll nauðsynleg verkfæri með í för, sem og auka hosuklemmur, vírar, leiðslur, barkar, og plástrar. Upphófst nú mikill darraðadans undir bílnum þar sem við reyndum að átta okkur á því hvað væri að. Heldur gekk það brösulega, því enginn okkar var sérfróður um rafkerfi fertugra hertrukka. Gekk nú svona lengi vel. Forustusauðir hjólamanna snéru til baka frá stöðvum sínum við vegamótin, sem eftir alltsaman reyndust vera rétt handan við hæðina. Þar hafði meginhópurinn dvalið um hríð, en farið að eymast biðin.

Nú voru góð ráð dýr; allt bilað undir bílnum, og enginn vissi neitt, annað en að eitthvað meiriháttar klandur var á kerfinu. Nokkrir okkar ákváðu að renna til Veiðivatna og fá einhvern á bíl með startkapla meðferðis til að hjálpa okkur með að starta trukknum. Það gekk greiðlega fyrir sig og eftir stutta stund voru komin hjón frá Akureyri okkur til aðstoðar. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir alla aðstoðina og allan matinn sem frúin færði okkur úr gnægtarbúri sínu. En það fór nú reyndar svo að það var bara lítil þúfa sem velti þessu þunga hlassi. Í ljós kom einn lítill aðalrofi hafði brunnið yfir og korslúttað öllu klabbinu. Þegar okkur loxins skyldist hvernig rafmagn virkar, svona almennt séð, og við föttuðum að tengja framhjá, var bara allt í stakasta lagi, svona þannig séð. Eftir smá brambolt með nýjar bensínleiðslur og þess háttar, og agnarsmáa byrjunarörðugleika brenndum við lox í bæinn, eftir fjögurra tíma töf.

Í bæinn var komið um klukkan þrjú að nóttu og það voru þreyttir en ánægðir félagar sem skiluðu sér heim, hver í sína átt. Stuttri en ánægju- og viðburðarríkri ferð var lokið.

Skráð í Reykjavík 10.-15. sept. 1998

Jón Örn

ENDIR