Rigning, rigning, rigning... Eiginlega vildum við í fjölskyldunni njóta sumarsins úti á hjóli og í tjaldi. En í fyrra voru sunnanáttir ríkjandi og oftast var grátt og blautt í Reykjavík. En sem betur fer er alltaf einhver landshluti á Íslandi þar sem sólin skín og þegar veðurspáin var skoðuð varð ljóst að ferðin lægi á Norðurland.

Áður fyrr hjóluðum við oftast langar leiðir um allt land en nú með tvö börn vildum við heldur fara í fjölskylduferð um svæði þar sem hægt er að hjóla á vegum með minni umferð og þar sem er stutt milli skemmtilegra áfangastaða og tjaldsvæða. Ferðamenn fara gjarnan um óbyggðir landsins, ýmist á hjólum eða í bílum, en okkur þykir vænt um tré og vel gróið land. Því var svæðið við Eyjafjörð, Fnjóskadal og Goðafoss valið. Auðvelt er að komast á Norðurland með Strætó. Leið 57 fer tvisvar á dag frá Reykjavík til Akureyrar og vagnar eru alltaf með hjólagrind á sumrin.

Lagt var af stað 9. júlí 2018, Annecke og Johannes (10 ára) á sínum eigin hjólum en Andreas og Christina (6 ára) á tvíhjóli (e. tandem) sem er stillt fyrir krakka að aftan. Þannig er hægt að hjóla lengri leiðir í mótvindi og í umferðinni sé þess þörf, en við tókum Chariot-kerruna með til vara og fyrir farangur.

Í gegnum Fossvogsdal náðum við í Mjódd sem er upphafsstöð flestra landsbyggðaleiða Strætó. Við mættum snemma og höfðum því nægan tíma til að koma öllu í vagninn. Ekkert mál var að setja hjólin okkar á hjólagrindina – fyrst stóra tvíhjólið svo tvö venjuleg hjól og enn var pláss fyrir eitt hjól frá erlendum ferðamanni. Barnakerran var brotin saman sem pakki og hjólatöskurnar passa ágætlega í farangurslestina þó hún sé frekar lág í landsbyggðarvögnum Strætó. Það þarf bara að skipuleggja allt vel.

Þetta var reyndar ekki fyrsta Strætóferðin okkar. Bílstjórarnir þekkja okkur vel enda erum við fjölskylda án bíls og ferðumst alltaf með reiðhjól í Strætó. Förum árlega frá Reykjavík og austur á Seyðisfjörð. Þaðan tökum við Norrænu til að ferðast um Evrópu.

Vagninn lagði af stað frá Mjóddinni stundvíslega kl. 09:00 og var skemmtileg ferð til norðurs með hið sívinsæla kjötsúpustopp í Staðarskála, spjall við ferðamenn og viðkomu á Akureyri kl. 15:29.

Á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti á Akureyri hittum við enn fleira hjólafólk. Við tjölduðum í þyrpingu á einum stað svo að enginn jeppi gæti ekið yfir okkur. Reyndar finnst okkur á mörgum tjaldsvæðum á Íslandi eins og maður sé að tjalda á bílastæði með tilheyrandi hávaða og útblæstri. Skemmtilegri eru græn náttúruleg svæði þar sem krakkar geta leikið hvar sem er. Við Þórunnarstræti vantar slíkt bíllaust svæði en að öðru leyti er staðsetningin, miðsvæðis á Akureyri, alveg frábær. Daginn eftir skoðuðum við gróður og tré, sáum eikitré í grasagarðinum á Akureyri, fórum á byggðasafnið, fengum okkur pizzu og skelltum okkur í sund.

11. júlí byrjaði með stífri sunnanátt en hálfskýjað og þurrt. Við hjóluðum í norður eftir hringveginum austan megin Eyjafjarðar. Framkvæmdir við Vaðlaheiðargöngin voru enn í gangi og því talsverð umferð á fyrstu 16 km, en með vindinn í bakið kláruðum við kaflann fljótt og á Grenivíkurvegi varð svo allt miklu rólegra. Það var mjög spennandi að skoða gamla bæinn á Laufási og sjá hvernig fólkið lifði í gamla daga, í torfbæ með litlum gluggum, án rafmagns og hitaveitu.

Eftir stopp við Fnjóskárbrú þar sem fífa vex alls staðar var næsta tjaldsvæði Ártún. Við vorum nánast ein á svæðinu og krakkarnir léku sér í litlu skýli og um allt í náttúrunni.

Þaðan fórum við í dagsferð án farangurs. Á Grýtubakka klöppuðum við sætum lömbum og hestum og þar var heiðagæs sem hafði fundist vængbrotin og fengið hæli hjá hænsnunum. Svo fórum í fjallgöngu upp á bæjarfjall Grenivíkur, Þengilhöfða. Útsýnið yfir Eyjafjörð var stórfenglegt en um leið var svo margt annað að uppgötva líka - litlu blómin, býflugur og spói efst á fjallinu. Annar spói við veginn fór fyrir okkur kollhnís í lendingu. Eftir þetta ævintýri var sundlaugin á Grenivík besti staðurinn til að slappa af – þar er einnig útsýni yfir Eyjafjörð og að einhverju leyti fannst okkur jafnvel vatnið í lauginni mýkra en annars staðar.

Frá Ártúni lá leiðin inn í Fnjóskadal eftir góðum malarvegi. Dalurinn er fallegur og vel gróinn. Á hjólinu er maður algjörlega í náttúrunni, finnur fyrir vindinum og hlustar á fuglalífið. Jaðrakanar voru á öðrum hverjum metra, við skoðuðum þórshana í polli og álftafjölskyldu í Fnjóská. Um kvöldið vorum við komin í Vaglaskóg. Við tjölduðum á aðeins opnara svæði við ána en fundum samt aðeins of mikið af dýralífinu – milljónir af flugum áttu við okkur erindi.

Fnjóskadalurinn telst á meðal úrkomuminnstu staði á Íslandi en ekki þetta kvöld og nótt. Og vegna fluganna var hvort sem er best að borða, lesa og svo bara sofa í tjaldinu. Morguninn eftir var Vaglaskógur enn mjög blautur en seinni hluta dags rofaði til og við fórum í dagsferð suður í Fnjóskadal. Veginn var létt að hjóla. Á Brunagerði / Daladýrð er skemmtilegur húsdýragarður með forvitnum geitum, sætum kisum og folaldi. Meðal kindanna var hrútur með fjögur horn. Hann vildi samt fá heyið frá okkur eins og öll hin dýrin. Á Illugastöðum prófuðum við enn eina laugina því sundlaugar eru ómissandi hluti hjóla- og tjaldferða.

Daginn eftir lá leiðin um Ljósavatnsskarð. Umferðin á hringveginum var miklu meiri en í Fnjóskadal en við náðum brátt að Goðafossi. Fossinn sjálfur er fjölsóttur ferðamannastaður en aðeins sunnar fundum við fínustu ylströnd við fljótið – sólin skein og yljaði sandinn og krakkarnir byggðu litla sandkastala. Við tjölduðum svo á Fosshóli þar sem er ágætis tjaldsvæði og kvöldmaturinn eldaður á borð og bekk rétt við tjaldið. Það má alveg giska hver er uppáhaldsmaturinn okkar: Pasta með sósu úr tómötum. Til að auka fjölbreytnina; stundum sósa úr tómötum með pasta í. En það er einnig fínt að elda íslenskar kartöflur og annað á meðan birgðir endast.

Um kvöldið kom þoka og svo rigning í heilan sólarhring – þá létum við tjaldið og hjólin bara standa á Fosshóli og tókum Strætó í dagsferð til Húsavíkur. Við vorum einu farþegarnir í rútunni, það virðist sem æ fleiri fari með einkabílum í stað þess að ferðast saman með almenningssamgöngum. Við vildum nú ekki verða sjóveik á Skjálfanda í norðanáttinni svo hvalasafnið var þá besti staðurinn til að fræðast um þessar stórfenglegu skepnur. Sundlaugin á Húsavík er líka góður staður en skemmtilegastar voru reyndar endurnar í skrúðgarðinum.

Daginn eftir rofaði til og þá var létt að hjóla um Ljósavatn og til Sigríðarstaða. Þar er lítið og einfalt tjaldsvæði – án rafmagns, eingöngu með kalt vatn og án bíla. Þar upplifðum við besta kvöld ferðarinnar – mitt í náttúrunni, kvöldsólin baðaði dældina sem svæðið liggur í og krakkarnir fóru í ævintýraleiki. Það þarf ekki mikið til að vera alsæl.

Nokkrar leiðir liggja frá Fnjóskadal í Eyjafjörð – nyrst um Dalsmynni (þar sem við hjóluðum á útleið), um Víkurskarð (enn umferðarþung í fyrra þar sem ekki var búið að opna göngin) og um Vaðlaheiðargöng (þá í framkvæmdum, nú opin en með mikilli umferð og bönnuð hjólandi umferð).

En langbesta hjólaleiðin er gamli Vaðlaheiðarvegurinn og við fengum leyfi til að fara í gegnum framkvæmdasvæði gangnanna Fnjóskadalsmegin. Vaðlaheiðarvegur er stysta og hæsta leiðin í Eyjafjörð. Yfirborðið er aðeins grófari, sérstaklega austanmegin, en samt ágætt fyrir öll hjól (nema racer hjól). Bílaumferð er hverfandi og finnst okkur Vaðlaheiði reyndar ein besta hjólaleið landsins.

Leiðin liggur í stórum sveigjum en er aldrei brött og svo við gátum hjólað hægt og rólega upp á heiðina, 540 m yfir sjávarmáli, sem var sem sagt hápunktur ferðarinnar. Með útsýni yfir Akureyri létum við svo hjólin rúlla nánast endalaust og fórum svo yfir Óshólma á gamla þjóðveginum sem er fín hjólaleið til að komast á Akureyri. Lok ferðarinnar fögnuðum við með gómsætum ís.

Heimferðin suður tókst á svipaðan hátt og leiðin norður. Morguninn eftir tókum við Strætó kl. 10:20 frá Akureyri. Á leiðinni til Reykjavíkur sáum við nokkra ferðamenn á hjóli á hringveginum en við vorum ekki alveg viss um hvort þeir væru ánægðir með ástandið á Íslandi. Vegir uppfylla ekki öryggisstaðla fyrir hjólreiðar sem eru í gildi víða um Evrópu. Það vantar vegaxlir og hjólastíga til að geta hjólað í kringum landið án þess að leggja sig í lífshættu fyrir bílaflóðinu. Þetta verður að bæta.

Strætóferðin var samt hin ánægjulegasta og eftir 6 klst. 24 mín. kom vagninn til Reykjavíkur kl. 16:44 og hjóluðum við heim eftir stígakerfi borgarinnar.

Johannes og Christina sannfærðu okkar á hverjum degi að þau vildu koma aftur. Örugglega munum við gera það – það var svo margt að sjá og upplifa. Ferðin okkar stóð í tíu daga. Við fórum ekki marga kílómetra, heimsóttum enga „must see“ ferðamannastaði og slógum engin met. En það sem við upplifðum er að við í fjölskyldunni vorum saman í íslenska sumrinu og upplifðum náttúru landsins á hverju einasta augnabliki. Mjúka fífan sem vex eftir veginum, raddir fuglanna, sætu lömbin, yljandi sólin á skjólgóðum stöðum og að komast upp heiðina á eigin orku.

Birtist fyrst í Hjólhestinum, mars 2019.