Ferðanefnd ÍFHK er búin að móta dagskrá fyrir ferðir sumarsins. Þar er bæði gamalt og nýtt efni í boði og ferðir við allra hæfi.

Úr Þriðjudagskvöldferð

Fyrst ber að nefna hinar vikulegu þriðjudagsferðir. Alfreð Emil Alfreðsson, Mætingabikarhafi síðasta árs, verður í forsvari fyrir þeim og hefjast þær formlega í Mjódd þriðjudaginn 6. maí.  

Fyrsta kvöldferðin er að sjálfsögðu beint í kaffi í klúbbhúsið á Brekkustígnum. Síðan taka við aðrir áfangastaðir; fuglaskoðun í Grafarvoginn, Mosfellsbær, Garðabær, Viðeyjarferð, Rauðhólar og víðar. Síðustu ár hefur skapast heilmikil keppni um þriðjudagsbikarinn og væntanlega verður sama upp á teninginn í ár. Merkt er við þátttakendur og sá sem á flestar mætingar eftir sumarið, verður krýndur með Mætingabikarnum 2008 að kveldi 26. ágúst.

Copenhagen-Berlin cycle route Útrás Íslenska fjallahjólaklúbbsins er staðreynd. Við látum okkur ekki nægja að þeysa um íslensk holt og línuvegi, heldur verður líka hópur á götum Kaupmannahafnar 7. júní nk. og hjólar með á Stora cykeldagen undir merkjum félagsins. Þetta verður upphitun fyrir þá sem ætla að hjóla frá Kaupmannahöfn til Berlínar, alls 630 km leið á átta dögum. Formaður ferðanefndarinnar, Sesselja Traustadóttir, hefur skipulagt og bókað gistingar fyrir 16 manna hóp sem ætlar að hjóla þessa vinsælu leið sem varð til sem vel merkt hjólaleið árið 2000 þegar Berlín og Kaupmannahöfn voru báðar menningarborgir Evrópu. Dagleiðir eru heldur lengri en þegar venjulegar ferðaskrifstofur skipuleggja þessa leið, frá 50 – 90 km. Við hjólum með ströndinni frá Kaupmannahöfn til Mön og þaðan til Gedser. Ferja flytur okkur yfir til Þýskalands þar sem við gistum í gamla Hansakaupmannabænum Rostock og þaðan verður hjólað á 5 dögum til Berlínar. Sú leið er um gamla Austur-Þýskaland, um héruð sem voru nánast óáreitt á meðan borgarskipulög og iðnaðahverfi tröllriðu ósnertum svæðum Evrópu á síðustu öld. Leiðin liggur um friðuð þjóðgarðssvæði og við hjólum fram hjá Stechlin, einu hreinasta vatni Þýskalands. Hópurinn kemur til Berlín að kveldi 16. júní og heldur heim á leið, frá og með 17. júní.

Úr þriðjudagskvöldferðÍ lok júní verður Næturævintýr á Vesturlandi. Þetta er helgin eftir Jónsmessuna, 27. – 29. júní. Nóttin er björt og við hvílum okkur á daginn en hjólum á nóttunni. Línuvegir, kindaslóðir, óbrúaðar ár og hljóð nóttin. Næturbirta. Leggjum af stað úr bænum á föstudagskvöldi, reisum búðir á Vesturlandi og hjólum út í nóttina. Komum í búðir, hvílum okkur langt fram á dag, grillum, leggjum okkur og hjólum á ný út í nóttina – þegar lömbin eru sofnuð. Þetta er ferð sem aðeins getur orðið á norðlægum slóðum og við njótum til ítrasta sérstöðu íslenskrar náttúru.

um Gamla ÞingvallaveginnUm Verslunarmannahelgina ætlar Pétur formaður að lóðsa okkur í ferð , sem liggur um Mosfellsheiði og Fjölnir ætlar enn og aftur að fara með okkur dásamlega hringinn í kringum Skorradalsvatnið. Þeir sem einu sinni hafa hjólað hringinn í kringum vatnið vita að þar er alltaf brakandi sólskin og meðvindur – allaveganna öðru megin við vatnið. Ferðin verður alfarið hjóluð af alhörðustu görpunum en aðrir gera ráð fyrir einhverju trússi og aðstoð fjórhjólatækja.

Mynd frá MagnúsiFyrstu helgina í september er Magnús Bergsson búinn að taka að sér fararstjórn í Óvissuferð haustsins. Og það verður hann sem kemur okkur á óvart þegar nær dregur og enginn veit í dag hvað það þýðir. En að sjálfsögðu verður mjög gaman, gott ferðaveður og þægilegur meðvindur.

Hér getið þið lesið dagskrána en þar sem við eigum það til að bæta inn viðburðum og ferðum með stuttum fyrirvara mælum við með að þið skoðið dagskrána hér á vef klúbbsins fjallahjolaklubburinn.is og skráið ykkur á póstlistann okkar til að fá fréttir af því sem er að gerast í starfinu með því að senda okkur póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. Við reynum líka að sýna alltaf á forsíðunni hvað er næst á dagskránni.

Sesselja Traustadóttir formaður ferðanefndar.