Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) héldu ársþing sitt 24. febrúar 2005 eftir annríkt baráttuár. Talsvert hafði verið um fundi, kynningar og ráðstefnur, bréfa- og blaðaskrif auk þess sem talsverður tími fór í að kynna sér málefni hjólreiðamanna erlendis. Á ársþinginu urðu smávægilegar hræringar í stjórn auk þess sem nýtt fólk kom inn.

   En málefni hjólreiðamanna gætu vel rúmast í sérstöku ráðuneyti þar sem málefninu má líkja við að breyta eyðimörk í gróðurvin. Okkur sem þar störfum er að verða það betur ljóst að flestir þingmenn þjóðarinnar hafa ekki nokkurn áhuga á því að almenningur fái valkost til samgangna. Ekki er hægt að ímynda sér hvers vegna þingmenn eru svona áhugalausir um málefni hjólreiðamanna þar sem þessi málefni eru viðurkennd í stjórnkerfi allra þeirra landa sem við berum okkur saman við. Annað hvort stafar það af því að hagsmunaaðilar moka fé í stjórnmálaflokkana eða einstaka þingmenn, eða þá að þingmenn eru yfir höfuð lesblindir.
   Í nærri tvö ár hefur þingsályktunartillaga um að koma hjólreiðabrautum í vegalög beðið afgreiðslu Alþingis. Þingmenn allra flokka í Umhverfisnefnd Alþingis standa að henni. Fjallar hún um að menn ræðist við og finni flöt á því að koma hjólreiðabrautum í vegalög í einhverri mynd. Það er því ekki verið að boða malbikaðar hjólreiðabrautir um allt land. Samgönguráðherra hefur hins vegar óttast í andsvörum sínum á Alþingi að þarna sé um að ræða aukinn kostnað fyrir ríkið, að auki séu málefni hjólreiðamanna á ábyrgð sveitarfélaganna. Af þessu má ráða að hann telur samgöngur hjólreiðamanna sér óviðkomandi.. Hann beit svo höfuðið af skömminni með því að segja í viðtali við stjórnarmenn LHM að ekki væri hefð fyrir hjólreiðum á Íslandi og því væri ekki þörf á sérstökum úrbótum. Við getum því efast um að hann hafi lesið þingsályktunartillöguna. Það er nokkuð ljóst að núverandi samgönguráðherra sinnir ekki samgöngum allra heldur aðeins þeirra vélvæddu.
   Aðrir þingmenn sem fjallað hafa um hjólreiðar til samgangna hafa haft misjafna sýn á málið. Fáir sjá hjólreiðar sem samgöngumáta. Nær allir virðast líta á þær sem afþreyingu eða líkamsrækt og tala þá oftast um slæm veður eða brekkur sem hindrun. Þingmenn draga því ályktanir af lítilli eða engri reynslu, hvað þá að þeir hafi kynnt sér málið frá sjónarmiði hjólreiðamanna. Einu þingmennirnir sem mælt hafa með fyrrgreindri þingsályktunartillögu er flutningsmaður tillögunnar, Kolbrún Halldórsdóttir frá Vinstri grænum og hjólreiðamaðurinn Mörður Árnason, Samfylkingunni.

   Heimur batnandi fer
   Fyrrnefnd þingsályktunartillaga varð hinsvegar kveikjan að því á vormánuðum 2004 að Reykjavíkurborg ákvað að koma á fót starfshópi sem hafði það að markmiði að bæta aðstöðu hjólreiðamanna. Hefur starfshópurinn nú fundað í nokkur skipti og útkoman þegar komið á óvart.
   Innan Reykjavíkurborgar eru menn þegar farnir að skoða ýmsa þætti svo bæta megi öryggi hjólreiðamanna og gera hjólreiðar meira aðlaðandi. Má þar nefna t.d endurhönnun gatnamóta svo losna megi við hlykki og beygjur, koma fyrir hjólreiðabrautum meðfram akbrautum eða í vegstæði og margt fleira. Þá er þegar farið að ræða við nágrannasveitarfélögin um samvinnu, sem þá væntanlega Vegagerð ríkisins mun þurfa að taka þátt í. Við getum hins vegar ekki búist við neinu vitrænu frá Vegagerðinni á meðan fyrrnefnd þingsályktunartillaga hefur ekki verið samþykkt.
   Við höfum þegar séð að búið er að merkja göngu- og útivistarstíga með númerakerfi að danskri fyrirmynd. Er það liður í því að einhvers staðar verður að byrja á annars stóru en ákaflega arðbæru og mikilvægu verkefni.
   Það er of langt mál að telja allt það upp sem hugsanlega í vændum er enda eru málin í skoðun og á umræðustigi. Það er heldur ekki sjálfgefið að hægt verði að taka upp óbreyttar hugmyndir frá nágrannalöndum okkar um gerð hjólreiðabrauta. Þar getur t.d. saltaustur samhliða nagladekkjanotkun vélknúinna ökutæka Íslendinga gert hjólreiðabraut í vegstæði að engu, eða alla vega að séríslensku verkefni.

   Hjálp! LHM þarf aðstoð
   Það er nokkuð þekkt staðreynd að margt smátt gerir eitt stórt. Það er líka það sem Landssamtökin þurfa. Eins og er þá liggur þessi vinna á allt of fáum og fremur lúnum herðum. Stjórn Landssamtakanna hefur því ákveðið að hafa opna fundi fyrir almenning svo fólk geti komið athugasemdum og hugmyndum til Landssamtakanna og þar með til stjórnvalda, en Landssamtökin eiga fulltrúa innan Umferðarráðs og í Starfshópi hjólreiða innan Reykjavíkurborgar.
   Landsamtökin þurfa fólk í vinnuhópa að einstökum verkefnum og fleiri sjónarmið á stjórnarfundum. Hjólreiðafólk er því hvatt til að hafa samband við landssamtökin í póstfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. Það verður enginn svikinn af því að sitja fundi á kaffihúsi og deila hugmyndum sínum með öðrum um bættar hjólreiðar og styrkja um leið trú stjórnarmanna LHM á að þeir séu á réttri braut.
   Landssamtökin hafa mikla þörf fyrir fólk með fagþekkingu t.d. í útgáfu og umbroti blaða og bæklinga, þörf fyrir lögfræðinga, verkfræðinga á umhverfissviði og umferðarmannvirkja og fólk úr heilsugeiranum. Landssamtökin þurfa líka á fólki að halda sem getur skrifað blaðagreinar, þýddar eða frumsamdar. Við erum komin hátt upp í það fjall vandmála og fordóma sem við hjólreiðamenn þurfum að sigrast á til að fá hjólreiðar viðurkenndar sem samgöngumáta, sambærilegt því sem gerist í nágrannalöndum okkar. Það mun bara taka skemmri tíma ef við sameinumst öll um að útbreiða boðskapinn til ráðamanna og almennings.
   Magnús Bergsson

Allar nánari upplýsingar:
Morten formaður LHM í síma 690-4801
Magnús Berg í síma 616-2904
Heimasíða LHM: www.lhm.is

Einnig má senda fyrirspurn á:
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

ATH:
Til að fylgjast með, eða stuðla að framgangi hjólreiðamála er mjög mikilvægt að skrá sig á póstlista Landssamtakanna
Upphaf númeramerkingu göngu- og útivistastíga Reykjavíkurborgar að danskri fyrirmynd. /
The first Numeral-markings, (Danish model), of recreational paths in Reykjavik municipality.

 

 

Hjólhesturinn 1. tbl. apríl 2005
© ÍFHK 2005