Skálafell Það voru hjól upp um allar hlíðar við opnun Hjólagarðsins, Bike Park, í Skálafelli 8. Ágúst 2010. Strákar á öllum aldri; pabbar, afar, skólastrákar og venjulegir íslenskir töffarar – áttu velheppnaðan dag í fjallinu enda rjómablíða og yfir 20 stiga hiti. Íslenski fjallahjólaklúbburinn bauð gestum upp á pulsu og kók, Dj. Simmi breytti íslenskum náttúruhljóðum yfir í nýjar víddir, hjólabúðir sýndu vörur sínar og keppt var á BMX í drulluhoppi.

Einnig fór fram fyrsta keppnin í Skálafellsbruni og fleiri mót auglýst á næstunni. Fylgist vel með á Skálafell Bike Park á Fésbókinni og www.hjolandi.net . Þátttakendur á svæðinu voru gríðarlega hrifnir af brautinni og ánægjan skein úr hverju andliti.
Jafnmörg dagskort í lyfturnar í Skálafelli hafa ekki verið seld á einum degi  í 18 mánuði. Dagskortið er á 2.000 kr. og stök ferð kostar 500 kr. Það verður opið allar helgar út september kl. 12 – 17.
Íslenski fjallahjólaklúbburinn þakkar þeim Magne Kvam, Ormi Árnasyni, Árna G. Guðmundssyni og David Robertson frábært framlag til íslenskrar hjólamenningar og óskar um leið öllum hjólreiðamönnum landsins til hamingju með þennan glæsilega hjólagarð.

 

Skálafell

 

Frábær hjólabraut við allra hæfi!

Skoðið myndirnar sem Sesselja Traustadóttir tók opnunardaginn.