Helgina 6. - 7. september verður farin óvissuferð ársins. Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að gefa út nákvæma dagskrá en rétt er þó að gefa helling af "vísbendingum".

Skiltið sýnir áætlaða vatnshæð eftir virkjun

Leiðin sem varð fyrir valinu liggur um ægifagurt landslag á bökkum Þjórsár, um svæði sem mun kannski fljótlega fara undir virkjanir. Leiðsögumaður er Björg Eva Erlendsdóttir sem starfar við leiðsögn um svæðið og er því mjög kunnug. Hjólað verður eftir vegslóðum og troðningum sem eru í heildina léttir yfirferðar og fær öllum sem hafa sæmilegt vald á fjallahjóli. Brekkur eru svo fáar og litlar að það tekur því ekki að nefna það. Gist verður í Fossnesi í Gnúpverjahreppi.

Spáin er ljómandi góð, hægur andvari og bjartviðri. Þó er rétt að vera við öllu búin/n því farið er að hausta lítillega.

Lagt verður af stað á laugardagsmorgun og komið aftur seinnipart sunnudags.

Þjórsárver

Undirbúningsfundur verður haldinn fimmtudaginn 4. september í klúbbhúsinu að Brekkustíg 2 kl 20:00 til 22:00 og mun Björg Eva lýsa ferðinni betur og fara yfir það sem þarf að hafa meðferðis. Byrjað verður að skrá í ferðina þá um kvöldið og símleiðis á föstudag. Magnús Bergsson sér um skráningu í síma: 616 2904.

Kostnaður:
Fyrir fullorðinn félagsmann 4000.-  2000.- sé hann 16 ára og yngri.
Fullorðinn ófélagsbundinn 7000.-    3500.- fyrir 16 ára og yngri.

Innifalið: Gisting í svefnpokaplássi, kvöldverður (grill), akstur til og frá gististað og Eðal leiðsögn og flutningur á hjólum.

Grófur listi yfir það sem þarf að hafa með sér:

  • Fjallahjól

  • Hlífðarfatnað í takt við árstíðina (þó spáin sé mjög góð)

  • Gott nesti að undanskildum kvöldmat

  • Litla tösku á hjólið fyrir nestið fyrir daginn (eða lítinn bakpoka)

  • Lámarks viðgerðarsett svo sem bætur og pumpu.

  • Söngbækur og góða skapið...

Ferðanefnd.