Nei, en við reddum því bara.  Hann Ómar Smári er höfðingi heim að sækja.  Mín beið veisluborð, við gæddum okkur á alls konar á meðan við teiknuðum upp ferðina, slóum Óshlíðina út af dagskrá vegna hláku og grjóthrunshættu og svo tókum við prufurúnt, til að kanna ástand stíga.

Þegar ég var lítil hnáta hjólaði ég bara á Hlíðarveginum.  Innan við fyrstu brekku.  Það var ekki fyrr en á unglingsárunum sem ég hætti mér utar á Hlíðarveginum og síðan smám saman lengra, út í Tunguskóg og upp á Breiðadalsheiði.  Svo keypti ég skellinöðru fyrir fermingarpeningana og þá tók ég pásu frá hjólreiðunum.  Einhverra hluta vegna tók ganga við þegar skellinaðran bilaði endanlega.  Ég hætti að hjóla og gekk öll menntaskólaárin á Ísafirði.  Þegar ég var ekki á rúntinum á Dodge Dart bíl pabba.

Eitt sumar var ég að vinna í Hafnarfirði þegar rúta sem skutlaði okkur heim í mat tók útsýnisrúnt um allan Hafnarfjörð og ég áttaði mig á að ég hefði meiri tíma ef ég hjólaði heim og aftur til baka.  18 ára hjólaði ég sumsé í fyrsta sinn til vinnu árið 1982.  Mér er lífsins ómögulegt að muna hvar ég geymdi hjólið á meðan ég var í vinnu og hvort ég læsti því við eitthvað.  Hjólið var 3ja gíra og með innbyggðan lás.  Silfrað.  Það man ég.

Já, aftur að Ísafirði.  Ég hjólaði raunar til vinnu í fiskvinnslunni Norðurtanganum áður en ég eignaðist skellinöðruna, svo það leiðréttist hér með.  Frá 13-15 ára.  Þá var ég 20 mínútur að labba hvora leið og því fljótlegra að hjóla heim í mat.  Í dag er búið að leggja malbikaðan stíg frá Króknum niður að Norðurtanga og meðfram Sundstræti að höfninni.  Alveg við sjóinn.  Skipuleggjendur þessa stígs fá stóra stjörnu frá mér.  Vel gert.

Ég var nú ekki sérlega hrifin af varnargörðunum sem voru reistir fyrir ofan bæinn.  Það hafa aldrei, mér vitanlega fallið snjóflóð á Ísafjörð, þ.e. á Eyrina sjálfa, en vissulega hafa aurskriður fallið niður bratta hlíðina og alveg niður á veg rétt fyrir utan Krókinn.  Varnargarðarnir eru ekki lengur lýti, þeir eru gróðri vaxnir og ofan á þeim er vel þjappaður breiður stígur, svo það er auðvelt að hjóla eftir þeim með útsýni yfir Ísafjörð.  Það er líka góður vegur fyrir aftan garðana, fyrir þá sem vilja ekki of mikla hæð, svo næg eru tækifærin til útivistar fyrir bæjarbúa og aðkomufólk.  Ég lék mér í hlíðinni í æsku minni en man ekki eftir neinum stígum, öðrum en þeim sem kindurnar bjuggu til.

Á Ísafirði er líka komin fjallahjólabraut frá Breiðadalsheiði niður með gamla skíðasvæðinu og niður hlíðina að sjó.  Ég hef ekki þorað að fara í þá braut eða aðrar álíka, þegar aldurinn færist yfir þá eykst hræðslan við óhöpp, færnin minnkar og við eldri borgararnir erum lengur að jafna okkur á slysum ef þau eiga sér stað.  Svo ég held mig bara við góða vegi eins og ... já, Óshlíðina.  Bara passa sig á hrynjandi hnullungum.  Ergó, ekki fara Óshlíðina stuttu eftir miklar rigningar eða leysingar.

Við hjóluðum um bæinn, upp á Hlíðarveg, út í skóg, hring um Tungudalinn, komum við í Hjólagarðinum, sem er svæði í mótun með „pump-tract“ braut og alls konar.  Vel gert.  Svo var Ísafjörður hjólaður þver og endilangur og í lok ferðarinnar settumst við inn á Dokkuna, til að kneifa heimagert öl.  Góður endir á góðum degi.