Hjólunum var pakkað í kassa fyrir flugið og skiluðu sér heil út. Við nýttum okkur kosti þess að vera á hjólum og könnuðum Helsinki og áhugaverða staði þar í kring. Fyrstu nóttina gistum við á farfuglaheimili og vorum ekki fyrr komnir inn en það gerði hellidembu, þvílíka að helst minnti á hitabeltisskúr. Hún hélt áfram viðstöðulaust þar til götur fylltust af vatni, fráveitukerfið hafði engan veginn undan og neðst í götunni myndaðist stærðar pollur sem stækkaði og stækkaði. Okkur sýndist stefna í að það færi að flæða inn í bílana þarna enda vatnið komið upp að hurðunum áður en slotaði. Við áttum eftir að lenda í annarri hressilegri rigningu daginn sem við hjóluðum að landamærum Rússlands.

Þetta var í maí um það leiti sem Eurovision keppnin var haldin. Eins og alltaf voru Íslendingar sigurvissir enda keppti Hera Björk þetta ár með lagið „Je ne sais quoi“. Á ferð okkar um Finnland gistum við oft á sérstökum stöðum og daginn sem Hera átti að taka þátt í undankeppninni vorum við í litlum bæ, Hamina, og gistum í afar virðulegu húsi sem kennt er við borgarstjóra sem eitt sinn bjó þar. Þetta var reisulegt hús frá 1866 byggt fyrir efnaða stórfjölskyldu og sér bygging til hliðar fyrir vinnufólkið. Þar gistum við og þar var ekkert sjónvarp.

Við bönkuðum upp á hjá fína fólkinu sem átti húsið. Skiljanlega hefur húsið kostað sitt og þess vegna leigðu þau hýbýli vinnuhjúanna út í ferðagistingu til að drýgja tekjurnar. Þau lögðu mikla áherslu á að halda öllu í stíl við sögu hússins og þá passaði ekki að setja sjónvörp í herbergin. Hjónin komu til dyra og við spurðum hvort það væri möguleiki að fá að horfa á undankeppnina hjá þeim. Fína frúin tók nú ekki vel í það, sagðist helst aldrei horfa á sjónvarp eða hlusta á dægurtónlist heldur aðeins á menningarlega klassíska tónlist. En svo lét hún sig hafa það að bjóða þessum hjólaferðalöngum inn í húsið fína og við fengum meira að segja skoðunarferð um húsið sem var eins og leikmynd úr Ibsen fjölskyldudrama.

Við vorum svo leiddir í eina af fjölmörgum stofum hússins þar sem lítið túbusjónvarp var úti í horni. Frúin kom með kaffi og meðlæti og við stilltum okkur upp í kringum lítið borð, hjónin snéru baki í sjónvarpið alla undankeppnina nema rétt meðan Hera kom fram. Samræðurnar voru hinar menningarlegustu og erfitt að fylgjast með keppninni en Hera komst þó áfram og fékk meira að segja hrós frá fínu hjónunum.

Það var auðvelt að hjóla leiðina í gegnum Finnland. Meðfram umferðaþungum vegum var yfirleitt ágætur stígur til að hjóla eftir. Ég hafði meðferðis Nokia síma með Ovi Maps leiðsögu appi sem hægt var að nota án tengingar við internet, enda roaming gjöld í Rússlandi alveg stjarnfræðileg. Þetta var alveg nýtt og þótti mikið betra en Google maps sem var líka ný komið í farsíma. Það leiðbeindi vel og benti okkur á gistimöguleika, matarbúðir og veitingastaði og allt gekk vel þar til síðasta daginn þegar við ætluðum að hjóla sem næst landamærum Rússlands til að geta farið þar snemma dags og haft tíma fyrir hugsanlegar tafir á landamærunum.

Þann dag fór aftur að rigna viðstöðulaust. Við fórum að svipast um eftir hóteli eða gistingu sem víða fannst á kortinu en þegar á reyndi var ýmist búið að loka þeim eða við fundum þau ekki. Kröfurnar hríðféllu hjá okkur eftir því sem rigndi meir en engin fannst gistingin. Við höfðum að endingu auga á tjaldstæði nálægt landamærunum en þegar við komum þangað var inngangurinn lokaður. En það var miði með símanúmeri við innganginn, við hringdum og eftir korter kom umsjónarmaðurinn og bauð okkur gistingu í litlum bústað þar. En þar sem þetta var jú Finnland þá fylgdi með prívat tími í gufunni á staðnum, frábær endir á kerfjandi degi.

Það gekk vel að komast yfir landamærin inn í Rússland enda höfðum við sótt um vegabréfsáritun með góðum fyrirvara. Til að fá hana þurftum við meðmælabréf frá einhverjum í Rússlandi og það var enginn skortur á því gegn vægu gjaldi til „einkavina”.

Vegakerfið breyttist snögglega úr vestrænum hraðbrautum yfir í þrönga sveitavegi sem tré þrengdu að. Þarna voru vegirnir ekki lengur hannaðir með öryggissvæði til hliðanna til að forða þeim frá tjóni við útafakstur sem ekki höfðu stjórn á bílum sínum og víða voru minnismerki um fólk sem hafði látist þegar tré skyndilega stökk í veg fyrir það. Eitt skiptið fór framúr okkur Trabant eða ámóta skrapatól og ökumaðurinn frekar óstöðugur á veginum. Seinna sama dag sáum við að því er virtist sama bíl vafinn utan um tré og blóð á stýrinu en ökumaðurinn virtist hafa komið sér út af sjálfsdáðum.

Við höfðum prentað út upplýsingar um gistingu á nokkrum stöðum á leiðinni og pantað með tölvupóstum á einhverjum stöðum. Það var ekkert AirBnB komið til sögunnar og ekki höfðum við internet í Rússlandi. Við ætluðum að gista á litlu hóteli þægilega dagleið frá landamærunum fyrstu nóttina í Rússlandi. En þegar við bönkuðum upp á var ekki búið að opna það fyrir sumarið, viðgerðir stóðu yfir og átti að opna viku seinna. Þau buðu okkur samt herbergi á gangi fjarri viðgerðunum og ég hrósaði happi því nú var úrslitakvöldið í Eurovision og góðar líkur á að Hera tæki þetta alla leið. Sjónvarpið var lítið túbutæki og loftnetið skilaði ekki betra merki en svo að myndin var svart hvít með snjó og gengu snjóhríðirnar yfir skjáinn reglulega svo myndin næstum hvarf en maður lét það ekki trufla gleðina.

Annað óvænt atvik er minnisstætt af þessu hóteli. Það bankaði upp á einn af verkamönnunum sem var að vinna við viðhaldið og sagði eitthvað á rússnesku sem við skildum ekki en hann benti á klósettið svo við gerðum ráð fyrir að einhverju þyrfti að kippa í liðinn þar. Hann fór inn og lokaði á eftir sér og var þar í dágóða stund, ekki til að gera við nei hann gerði númer tvö. Já sinn er siður í landi hverju.

Fyrsti stóri bærinn sem við komum til var Vyborg, fallegur bær aðallega þekktur fyrir mansal samt. Eitthvað var um að Finnar færu í helgarferðir þangað, eða eins og einn sem við spjölluðum við í biðröð í matvöruverslun orðaði það „ódýrt viskí og ódýrt kvenfólk“. Við keyptum okkur hinsvegar bara vegakort, annað á ensku og hitt nákvæmara en með kýrillísku letri til að hafa eitthvað ef síminn góði væri ekki jafn nákvæmur innan Rússlands og hann hafði reynst okkur í Finnlandi.

Næstu daga ætluðum við bara að hjóla á okkar hraða og finna gistingu eftir hendinni eins og við höfðum gert árið áður þegar við hjóluðum frá Vín í Austurríki niður meðfram Dóná alla leið til Rúmeníu. Ferðin gekk vel og síðdegis tókum við stefnuna á hótel á Ovi Maps kortinu í símanum. Það var þó eitthvað einkennileg aðkoman að því, en hvað, þetta var jú Rússland. Í móttökunni sat kona bak við gler með gati og allt frekar drungalegt. Hún hló þegar við sögðumst vilja tékka okkur inn, þetta reyndist nefnilega vera geðsjúkrahæli. Lítið skárri voru viðtökurnar á næsta „hóteli“, því þar tékkaði fólk sig inn í áfengismeðferð. Jæja, það þurfti bara að halda áfram og á endanum fundum við hótel, frekar undarlegt í laginu, enda hét það Snekkju Kaffi og í laginu eins og stór blá snekkja á þurru landi.

Á leið okkar rákumst við á ýmsa misglæsilega minnisvarða um hetjudáðir hersins í seinni heimstyrjöld enda 65 ár frá lokum hennar þetta ár. Ferðalagið gekk vel og Ovi maps leiddi okkur af öryggi í átt að Sankti Pétursborg. Allt var frekar hrörlegt og fátæklegt fyrst þegar við komum yfir landamærin en velsældin jókst með hverjum deginum sem við nálguðumst borgina. Vegirnir bötnuðu smám saman og daginn sem við hjóluðum inn í borgina vorum við allt í einu komnir í mislæg gatnamót. Ekki einföld heldur tvöföld og það fór aðeins um mann að vera innan um hraða umferð á þriðju „hæð“ í mislægum gatnamótum en allt gekk vel. Við höfðum bókað gistingu fyrirfram og síminn leiðbeindi okkur beint þangað, eða reyndar ekki beint því það var farinn smá hringur því leiðsögutækið passaði að við hjóluðum hvergi á móti einstefnu.

Borgin var hin glæsilegasta að sjá, gullhúðaðar kirkjur og glæsibyggingar stjórnsýslunnar. Við eina slíka var stórt torg og einhver hátíðarhöld í gangi. Fjöldi manns og stórt svið. Þar var heil sinfóníuhljómsveit og kór að flytja tónlist. Eða hvað? Við nánari athugun var eitthvað ósamræmi á tónlistinni úr hátölurunum og því sem fór fram á sviðinu. Tónlistin virtist koma af geisladisk og tónlistarfólkið á sviðinu lét sem það spilaði tónlistina en var ekki alveg í takt. Spes.

Einn daginn gengum við meðfram ströndinni og sáum framundan glæsilegt seglskip, svona eins og í sjóræningjamyndunum. Þegar við nálguðumst var þó eitthvað skrítið við þetta. Varla tíðkaðist í þá daga að hafa stóra útsýnisglugga á seglskipum og útsýnissvalir að aftan? Nei þetta reyndist fljótandi líkamsræktarstöð fyrir ríka fína fólkið. Svo fínt að við sáum einn viðskiptavin renna í hlað á Rolls Royce. Við ætluðum að lauma mynd af glæsikerrunni þegar stæðilegur lífvörður stökk úr bílnum í átt að okkur, dró jakkan frá svo skammbyssa blasti við og sagði nokkur vel valin orð við okkur á rússnesku. Við létum okkur hverfa hið snarasta.

Borgin státar af glæsilegum neðanjarðarlestarstöðvum þar sem ekkert var sparað, enda byggðar að skipun Stalín. Við ákváðum að taka þetta út og prófa lestarkerfið. Frosti fór á undan en ég missti af lestinni. Ekkert mál, ég stökk í næstu lest og hitti hann á næstu brautarstöð. Hún var ekki síður glæsileg og augljóst að við vorum túristar þarna.

Við ætluðum síðan að halda áfram og passa að við færum báðir í sömu lest. Aftur var ég á eftir en þegar ég ætlaði inn komu tveir á móti mér og þrír að troðast á eftir mér. Ég reyndi að troðast framhjá þeim og vildi ekki missa aftur af lestinni en sama hvað ég reyndi var ég fastur í þessari óvæntu þvögu á tíma sem ekki mikið fólk var á ferðinni. Skyndilega hættu þeir fyrir aftan mig við að fara inn og hinir tveir komust framhjá mér út. Ég leit til baka og sá mennina labba alla sitt í hverja áttina en fannst þetta allt eitthvað einkennilegt. Ég var í buxum með hnepptum hliðarvasa þar sem ég geymdi stundum símann góða. En þegar ég þreifaði eftir honum var vasinn tómur. Skildi ég hafa skilið hann eftir á hótelinu? Þegar við komum þangað fannst enginn sími þar. Nei, þarna hafði ég orðið fórnarlamb vel skipulagðar glæpastarfsemi.

Nú voru góð ráð dýr, enginn sími ekkert leiðsögutæki. Við skoðuðum kortin sem við höfðum keypt í Vyborg betur og leiðina framundan. Á landakortum eru þjóðgarðar merktir með tilteknum hætti og á kortinu með enska letrinu leit leiðin vel út. En á því rússneska lá leiðin framundan um svæði sem virtist fallegur þjóðgarður en var með nokkrum merkjum, gulur hringur með þremur svörtum geirum og svörtum punkt í miðjunni. Við sýndum konu kortið og spurðum hvað þetta væri og það kom svipur á hana. „Ekki fara þangað! Þið þurfið grímur ef þið farið þarna. Geislavirkni!“

Þetta gerði útslagið með Rússlandshluta þessarar ferðar. Það lá alltaf fyrir að við gætum ekki hjólað alla leiðina til Póllands á þeim tíma sem við höfðum. Við fórum daginn eftir með rútu beinustu leið til Eistlands. Það var yndisleg ferð, rútan þægileg með snyrtilegu salerni og fríu þráðlausu neti. Þegar við stigum út var eins og við værum komnir til einhvers norðurlandanna. Maður fann drunga Rússlands létt af sér, fólkið var frjálslegra og glaðara, manni fannst maður hálfpartinn kominn heim.

Áfram hjóluðum við um Eystrasaltslöndin og voru þau hvert öðru yndislegra. Þaðan tókum við aftur rútu til Varsjár þar sem við áttum bókað flug heim. Borgin kom á óvart á góðan hátt, nútímaleg og lífleg. Ég er til í að heimsækja alla þá staði aftur og kanna Finnland betur og hef reyndar heimsótt aftur Tallin í Eistlandi og Helsinki eftir þessa ferð. En til Rússlands langar mig ekki aftur.