Ég hélt að það myndu líða einhver ár, jafnvel áratugir áður en við fengjum annað gos jafn nálægt byggð, en nei, 3. ágúst hófst eldgos í norðanverðum Meradölum. Þar eð ég var á leið á skurðarborðið 5 ágúst, ákvað ég að drífa mig upp að gosinu, svo ég gæti yljað mér við minningarnar á meðan ég lægi á sjúkrabeði. Sé ekki eftir því, þetta varð eina ferðin mín að eldgosinu í Meradölum. Ég var búin að plana ferð með Fjallahjólaklúbbnum, um leið og ég yrði gróin sára minna.

Ég hjólaði allar helstu leiðir á sem voru færar reiðhjólum sumarið 2021 og þess vegna vissi ég hvar best var að fara til að koma að gosinu þegar það hófst. Gasmengunin getur verið hættuleg ef vindátt er óhagstæð og ef reykurinn fer undan vindi í ranga átt, þá er ekkert útsýni og þar eð fólk þurfti að ganga eða hjóla yfir 20 km til að komast að gosstöðvunum, þá var nauðsynlegt að það væri skaplegt veður.

Ég fór á venjulegu reiðhjóli með mjóum dekkjum. Hefði betur verið á grófari dekkjum, það var nýbúið að setja möl ofan í veginn og hún var það gróf að ég þurfti að ganga 2ja km kafla á meðan hjólarar á grófari dekkjum þeystu fram hjá mér. Svo þurfti ég að teyma hjólið upp síðustu brekkuna, ég hefði vel getað geymt það fyrir neðan hana, en hey, hluti af prógramminu var að taka töff sjálfu.

Ég ætlaði að vera þarna fram í myrkur og hjóla svo heim um miðja nótt. En æ... hjólaljósin urðu eftir heima á náttborðinu. Ég stakk þeim í samband til að vera örugg um að það væri næg hleðsla á þeim. Svo bara gleymdust þau í æsingnum yfir gosinu. Ég varð að hjóla til baka á meðan ég hafði einhverja birtu. Ég var í góðum endurskinsfatnaði og sem betur fer með vara-vara ljósin, stórmarkaðsljós sem lýsa mér ekki, en aðrir vegfarendur sáu mig.

Þar eð gosið byrjaði með látum og var mun tilkomumeira en gosið sem hófst í Geldingadal taldi ég (og allir aðrir) að gosið myndi vara nokkra mánuði. Ég planaði ferðir með sonum mínum, sem og félögum í Fjallahjólaklúbbnum, en það var mikill áhugi á að fara og skoða gosið. En gosinu lauk jafn skyndilega og það hófst. 20 ágúst var allt búið. Í bili. Það má búast við frekari jarðhræringum og eldgosum á Reykjanesi í nánustu framtíð. Bara spurning hvort það eru nokkrir mánuðir í næsta. Eða ár. Eða áratugir. En þetta var gaman og minningarnar ylja.

© Birtist í Hjólhestinum mars 2023