11. - 12. maí.  Eurovision teiti

Samkvæmt hefð munum við halda Eurovision teiti 11. maí.  Hvar nákvæmlega verður að koma í ljós þegar nær dregur.  Á hóteli eða í bústað.  Ekki mjög langt frá höfuðborginni.  Dagleiðir á laugardag og sunnudag ca. 50 km, þátttakendur þurfa að vera á rafmagnshjólum eða í nógu góðu formi til að geta haldið í við rafmagnshjól.  Erfiðleikastig 5 af 10.  Fararstjóri Hrönn Harðardóttir

 

14. - 17. júní.  Snæfellsnes

Þriggja daga hjólaveisla.  Við keyrum hringinn í kring um Snæfellsnes, gistum á tjaldsvæðum 3 nætur, hjólum 4 daga.  Hítardalur, Eysteinsdalsleið, Kolgrafafjörður, Berserkjahraun.  Dagleiðir 40-80 km.  Þátttakendur þurfa að vera á rafmangshjólum eða í nógu góðu formi til að halda í við rafmagnshjól.  Það þarf að gera ráð fyrir því að teyma hjól um grýtta og bratta vegarslóða, svo fólk þarf líka að vera í góðu gönguformi.  Erfiðleikastig 8 af 10.  Það verður undirbúningsfundur þegar nær dregur.  Fararstjóri Hrönn Harðardóttir

 

6. - 7. júlí.  Siglufjarðarskarð og Kolugljúfur

Hittumst í Varmahlíð kl. 16 laugardaginn 6. júlí og förum samferða út að Hraunum í Fljótum (tæplega klukkustundar akstur). Leggjum á skarðið og toppum það með glæsibrag í 630 m. hæð. Förum svo niður í Skarðsdal, borðum gott nesti og klífum upp í skarð á nýjan leik og alla leið niður í bíl. Ökum síðan í gistingu á  lóð Hulduhóls, bústaðar í nágrenni Sauðárkróks (gistum í bústaðnum sjálfum ef hann er laus) en aðgangur að klósetti og kaffihitun og öll slíku er í boði hvað sem öllu líður. Þetta er strembin ferð, fólk þarf að vera í góðu hjóla- og gönguformi.  9 erfiðleikastig af 10. Vegalengd um 20 km. Mögnuð saga, og landslag. Búnaður: Hjól og viðgerðardót. Tjald, svefnpoki og dýna og mergjaða ferðaskapið. Fararstjóri Örlygur Sigurjónsson.  Þar eð sama leið er farin til baka er hægt að létta leiðina með því að fara styttra upp í mót og snúa þá við.  Um leið og hópurinn kemur aftur niður, þá verðum við samferða og endum á sama tíma niðri við bílana.

Á sunnudeginum munum við hjóla 30 km hring niður að Kolugljúfri.  Malarvegur um fallegar sveitir, ryk og rómantík.  Endum daginn á að fá okkur hamborgara áður en leiðir skilja og hver heldur til síns heima.  Erfiðleikastig 4 af 10.

 

Ágúst

Í ágúst eru á teikniborðinu tvær ferðir, önnur er utanlandsferð um Móseldalinn, hin er einhvers staðar á Íslandi.  Veður, vindar, rigning og þess háttar ræður för.  Gist á tjaldsvæði og hjólaðar 50-80 km dagleiðir.  Þátttakendur í innanlandsferðinni sem Hrönn Harðardóttir sér um þurfa að vera á rafmagnshjólum eða í nógu góðu formi til að halda í við rafmagnshjól.  Fjölnir Björgvinsson sér um að skipuleggja utanlandsferðina og kemur með leiðarlýsingu, gistimöguleika og þess háttar þegar nær dregur.

Þriðjudagskvöldferðir

Við ætlum að halda áfram með þriðjudagskvöldferðirnar, en nú verða þær í samstarfi við Reiðhjólabændur, sem hafa lagt af stað í sína hjólatúra á þriðjudögum, frá Sævarhöfða 31 . 19:00.  Við ætlum líka að fara þaðan, á sama tíma, svo fólk getur valið hraðari eða hægari hóp. 

Reiðhjólabændur fara oftast svokallaðan Reykjavíkurhring, hjóla stíginn meðfram ströndinni, æfa draft og allskonar. 

Hægari hópurinn verður samkvæmt dagskrá, þar sem hraði miðast við 15 km/klst. á jafnsléttu. 

Fyrsta ferðin verður þriðjudaginn 7. maí kl. 19:00 frá höfuðstöðvum Reiðhjólabænda og Fjallahjólaklúbbsins, Sævarhöfða 31.

 

Fylgist með

Við erum með viðburðaalmanak á heimasíðunni þar sem við skráum viðburði í klúbbhúsinu, hjólaferðir á höfuðborgarsvæðinu, lengri ferðalög og einnig áhugaverða viðburði skipulagða af öðrum en okkur.

Við sendum einnig fréttapósta á póstlistann okkar þegar eitthvað er á döfinni, endilega skráið ykkur á hann á forsíðu heimasíðunnar, fjallahjolaklubburinn.is.

Einnig er gott að „líka við“ Facebook síðu klúbbsins fyrir minni tilkynningar og einnig er spjallgrúppa á Facebook með nafni klúbbsins þar sem félagsmenn mega spyrja og spjalla um allt milli himins og jarðar.

 

Félagsaðstaðan Sævarhöfða 31

Frá kl 18 til 21 á mánudagskvöldum er Opið Verkstæði Reiðhjólabænda og nú bætist Fjallahjólaklúbburinn við.  Þá getur hver sem er komið í heimsókn og fengið aðstoð og góð ráð við viðgerðir á hjólinu sínu.  Og það er alltaf tími fyrir spjall og jafnvel kaffibolla.

Öll áhöld til viðgerða eru til staðar en ætlast er til þess að fólk geri við sjálft og gangi fallega um aðstöðuna.

Það verða líka haldin kompukvöld, myndasýningar, viðgerðanámskeið og ýmsar óvæntar uppákomur sem við kynnum á póstlistanum okkar eða Facebook síðu klúbbsins.

 

Takið þátt í starfinu

Klúbburinn rekur sig ekki sjálfur en þegar margir leggja hönd á plóg verður þetta allt auðveldara og skemmtilegra. Ertu með hugmynd að nýju verkefni eða viltu taka við og leiða hefðbundin verkefni klúbbsins? Saman búum við yfir mikilli reynslu og erum til í að prófa nýja hluti.

Það er enginn starfsmaður á launum til að vinna verkin svo okkur vantar ekki bara hugmyndir heldur líka fólk til að framkvæma þær. Endilega hafið samband ef þið eruð með tillögur eða viljið koma inn í starfið með virkum hætti. Við erum grasrótarsamtök og ekki mikið fyrir að flækja hlutina fyrir okkur.

 

Birtist fyrst í Hjólhesturinum 33. árg. 1. tbl. mars. 2024