Við sem stöndum að starfi Reiðhjólabænda höfum líka fundið fyrir því að langur listi verkefna og mögulegra viðburða sem hægt væri að sinna ef nógu margar hendur væru til þess, verður oft styttri en ella því það eru takmörk fyrir því hversu miklu er hægt að ná. Að undanförnu hefur þetta þó breyst svolítið og það er byrjaður að myndast ákveðinn kjarnahópur innan félagsins sem reynir að skipta með sér verkum svo álagið á hvern og einn verði ekki meira en hollt er.

Það er skynsamlegt að skoða vel þá möguleika sem bjóðast til samstarfs milli þeirra sem vinna að keimlíkum málum og þess vegna vildi ég skrifa þessa grein og koma á framfæri svo meðlimir Fjallahjólaklúbbsins geti aðeins kynnt sér og myndað sér skoðun á því hvort ekki sé ástæða til að kanna möguleika á samstarfi milli klúbbsins og félags Reiðhjólabænda. Ég tel að það gæti styrkt starfsemi beggja félaga, ef við vinnum saman að því sem við eigum sameiginlegt, og þá verði jafnvel hægt að leggja aukinn kraft í það sem hvert félag fyrir sig vill einbeita sér að.

Reiðhjólabændur voru í upphafi óformlegur félagsskapur, eiginlega bara vinahópur, sem hittist einu sinni í viku til að fara í stuttar ferðir hringinn kring um Reykjavík. Hópurinn varð á skömmum tíma eins konar upphafs- eða móttökustaður þeirra sem vildu stunda hjólreiðar sem íþrótt, sérstaklega þeirra sem stunduðu götuhjólreiðar, hvort sem var sér til heilsubótar eða til að undirbúa sig fyrir keppni af einhverju tagi. Þegar svo almenningsíþróttafélögin eins og t.d. Víkingur í Fossvogi og Breiðablik í Kópavogi fóru að bjóða upp á skipulagðar æfingar í hjólreiðum sem almenningsíþrótt, breyttist hlutverk Reiðhjólabænda töluvert.

Síðust ár hefur þessi óformlegi hópur, sem nú er orðinn að formlega stofnuðu félagi, tekið að sér ýmiss konar hagsmunabaráttu fyrir hjólreiðafólk almennt og annað sem tengist útbreiðslu hjólreiða. Þar ber hæst Hjólasöfnun Barnaheilla sem tókst einstaklega vel síðastliðið sumar en þá voru um 1.400 reiðhjól löguð og gefin þeim sem á þurftu að halda og ekki höfðu aðrar leiðir til að eignast hjól. Einnig hefur félagið átt í samtali við fulltrúa innan Samgöngustofu og Lögreglu um að halda sameiginlega fræðslufundi um þau mál sem snerta hjólreiðar og tengjast þessum stofnunum. Reiðhjólabændur hafa verið í samstarfi við ÍSÍ um átakið Hjólum í Vinnuna og meðal annars verið með færanlegt verkstæði við helstu hjólaleiðir á meðan á átakinu stendur. Einnig komu Reiðhjólabændur að vinnu starfshóps á vegum Reykjavíkurborgar sem miðar að því að finna leiðir til að draga úr reiðhjólaþjófnaði innan borgarinnar og fleira mætti nefna.

Það að Reiðhjólabændur geta haldið úti sínu félagsstarfi er að miklu leyti því að þakka að félagið hefur góða aðstöðu fyrir starfsemina að Sævarhöfða 31, rétt vestan við Bryggjuhverfið í Reykjavik. Þar er búið að koma upp ágætlega útbúnu verkstæði í einni af þeim byggingum sem áður voru nýttar fyrir Sementsverksmiðju Ríkisins og síðar Björgun hf. Hér er til að mynda hægt að vinna að söfnun og viðgerðum á hjólum í Hjólasöfnuninni ásamt því að gera upp eldri hjól frá grunni. Gömul málning er hreinsuð af hjólum og hjólapörtum með því að ýmist sand- eða glerblása hjólahluti, gír- og drifhlutir eru hreinsaðir með því að leggja þá í hreinsibað með hátíðnihljóði, ásamt því að hægt er að plasthúða (pólýhúða) smærri hluti. Aðstaðan geymir líka ýmsa hluti sem hægt er að lána félagsfólki um skemmri tíma eftir því sem á þarf að halda, svo sem kerrur og aftanívagna ásamt sérstökum ferðatöskum undir hjól og hjólafestingum aftan í bíla til að flytja hjól milli staða. Félagið hefur sendibíl til umráða sem einnig nýtist sem smárúta fyrir minni hópa í hjólaferðir utan borgarinnar, ásamt því að hafa aðgang að litlum fundar- og fyrirlestrarsal í annarri byggingu á sömu lóð.

Það er þannig búið að skapa ágætan ramma um allt það starf sem félagsfólk vill að fari fram hvort sem það eru verkstæðiskvöld, myndasýningar, fræðslustarf, námskeiðahald, vinna við að gera upp gömul hjól eða hvaðeina annað sem fólk hefur áhuga á að hagsmunafélag hjólreiðafólks eyði tíma og kröftum í. Og allt á þetta sínar rætur að rekja til stærsta verkefnis ársins, Hjólasöfnunarinnar, sem gengur út á það að hjálpa fleira fólki og þá aðallega börnum til að stunda þá skemmtilegu og heilsubætandi iðju sem hjólreiðar eru. Frá kl 18 til 21 á hverju mánudagskvöldi, halda Reiðhjólabændur Opið Verkstæði. Þá getur hver sem er komið í heimsókn til okkar og fengið aðstoð og góð ráð við viðgerðir á hjólinu sínu. Og það er alltaf tími fyrir spjall og jafnvel kaffibolla.

Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja meðlimi Fjallahjólaklúbbsins til að koma í heimsókn og kynna sér hvað er að gerast á Sævarhöfðanum. Húsið liggur við eina fjölförnustu hjólaleið í austurhluta borgarinnar við Elliðaárósana, er vel merkt að utan með stóru skilti og þið eruð öll hjartanlega velkomin.

Það verður sérstakur kynningarfundur fyrir félagsfólk Fjallahjólaklúbbsins sem og Reiðhjólabænda þann 22. febrúar 2024 að Sævarhöfða 31, opið hús frá kl. 20.

Birgir Birgisson