Í Háskólasetri Vestfjarða lagði hann ekki stund á hjólreiðafræði. Lokaverkefni hans fjallaði um borgaralaun. Það tengist hjólreiðum ekki á annan þátt en að fólk á borgaralaunum hefur meiri möguleika á að sinna köllunum sínum, þar á meðal hjólreiðum. Ekki meira um það.

Meðan Tyler lauk háskólanámi sínu á Ísafirði varð hann sér úti um aðra gráðu. Hann er nú löggiltur hjólaviðgerðamaður. Hann byrjaði að vinna á Verkstæði Viðars og ekki leið á löngu uns hann tók það yfir. Verkstæðið skipti um nafn; hét fyrst The Fjord Hub en heitir nú einfaldlega the hub.  Eftir nokkra leit skipti það einnig um húsnæði. Með stærra og betra rými var hægt að auka við þjónustuna. Tyler sankaði að sér reiðhjólum sem hann kom í gott lag svo hægt væri að leigja þau út. Einnig keypti hann ný reiðhjól til áframsölu. Fylgihlutir, varahlutir, fatnaður og útilegudót fæst í auknum mæli á verkstæðinu – versluninni. Þetta verkstæði sem er jafnframt hjólaleiga og verslun hefur enn einu mikilvægu hlutverki að gegna. Þar eru þægilegir sófar og lesefni og stundum heitt á könnunni og nammi í skál. The hub er samkomustaður.

 

Tyler Wacker: Ljósmyndir: Ómar Smári Kristinsson

 

Í Hólhestinum sem kom út árið 2022 er grein um Vestfjarðaleiðina. Þegar sú grein var rituð var ferðaþjónustufyrirtækið Cycling Westfjords að stíga sín fyrstu spor. Tyler var einn fjögurra sem stofnuðu það fyrirtæki. Á þeim stutta tíma sem það hefur verið til hafa orðið mannabreytingar og breytingar á starfseminni. Af þeim sem lögðu af stað í ævintýrið ber Tyler uppi hitann og þungann af fyrirtækinu, ásamt forsprakkanum, Halldóru Björk Norðdahl. Akademísk vinnubrögð, áhugi á hjólreiðum og náttúra fyrir viðskiptum eru allt góðir kostir í svona vinnu. Það er þó ekki síst gott tengslanet og hæfileiki og vilji til að eiga í samskiptum sem koma að gagni. Þar er Tyler einnig á heimavelli, hvort sem er með fartölvuna eða sófasettið og kaffikönnuna. Það er oft glatt á hjalla í the hub. Það er hin sanna miðstöð Cycling Westfjords. Þar er allt á suðupunkti í kringum stóru árlegu hjólakeppnina sem fyrirtækið stendur fyrir. Auðvitað er Tyler einn aðal skipuleggjandinn og framkvæmdaraðilinn á bakvið hana.

Tyler ásamt Halldóru Björk Norðdahl, forsprakka Cycling Westfjords. Hér eru þau stödd hjá Litlabæ í Skötufirði á fyrsta degi mikillar Vestfjarða- og Dalareisu þar sem verkefnið var kynnt fyrir ferðaþjónum. Þau fengu eintak af Hjólhestinum með grein um Cycling Westfjords
Tyler ásamt Halldóru Björk Norðdahl, forsprakka Cycling Westfjords. Hér eru þau stödd hjá Litlabæ í Skötufirði á fyrsta degi mikillar Vestfjarða- og Dalareisu þar sem verkefnið var kynnt fyrir ferðaþjónum. Þau fengu eintak af Hjólhestinum með grein um Cycling Westfjords. Ljósmynd: Ómar Smári Kristinsson.

 

Þegar skipuleggja skal hjólreiðakeppni eða ferðir með leiðsögn er nauðsynlegt að þekkja leiðirnar af eigin reynslu. Tyler var fyrstur allra til að hjóla í heild sinni hina skilgreindu ferðamannaleið, Vestfjarðaleiðina. Það hefur gerst oftar en einu sinni að undirritaður rekist einhvers staðar á Tyler, hvor í sinni rannsóknarvinnunni, annar að skrifa Hjólabækur og hinn að rannsaka leiðir sem gaman væri að bjóða upp á hjá Cycling Westfjords. Nú brennur Tyler í skinninu að komast austur á firði og hjóla þar út um allt. Fyrirtækið er búið að taka upp samstarf við ferðaþjónustuaðila á Víknaslóðum.

Meðlimir Cycling Westfjords á fyrsta starfsári þess: Smári, Dóra, Tyler og Nanný. Ljósmynd: óþekkti ferðamaðurinn.
Meðlimir Cycling Westfjords á fyrsta starfsári þess: Smári, Dóra, Tyler og Nanný. Ljósmynd: óþekkti ferðamaðurinn.

Því miður gerist flest á sama árstímanum. Á sumrin er mest að gera í hjólaviðgerðum, verslun, viðskiptum og öðrum  mannlegum samskiptum. Þá er líka besti tíminn til að fara í rannsóknarferðir og aðra leiðangra. Tyler er duglegur að nýta allar glufur til að skella sér í ævintýr. Ef ekki væri vegna slæms veðurs, hefði hann drifið sig síðsumars 2023 í einn sólarhrings hjólatúr úr Eyjafirði til Víkur í Mýrdal. Inn á milli skellir hann sér á brimbretti. Varla fer maður svo í danspartý eða annan fjörugan gleðskap á Ísafirði öðru vísi en að rekast þar á Tyler í stuði.

Lynnee Jacks og Tyler Wacker skammt frá Hólmavík. Þau eru hér að leggja upp í rannsóknarleiðangur; dagsferð sem endaði á Norðurfirði á Ströndum. Þau fóru Trékyllisheiðina! Haukur Sigurðsson, ljósmyndari og óreyndur hjólreiðamaður, fór með og lifði það af.  Ljósmynd: Ómar Smári Kristinsson.
Lynnee Jacks og Tyler Wacker skammt frá Hólmavík. Þau eru hér að leggja upp í rannsóknarleiðangur; dagsferð sem endaði á Norðurfirði á Ströndum. Þau fóru Trékyllisheiðina! Haukur Sigurðsson, ljósmyndari og óreyndur hjólreiðamaður, fór með og lifði það af. Ljósmynd: Ómar Smári Kristinsson.

Tyler er bjartsýnn á framtíðina. Samt eru erfiðir tímar. Fyrrum samnemandi hans, Lynnee Jacks, átti drjúgan þátt í uppbyggingu The Fjord Hub og er mikilvirkur meðlimur í Cycling Westfjords – ennþá. Hún er á förum. Það eykur álagið á þau sem eftir eru. En Tyler bara færir út kvíarnar. Hann hyggst færa hubbið sitt í enn stærra og betra húsnæði vorið 2024. Þá kemst hann nær skemmtiferðaskipafarþegum sem leigja reiðhjól af honum í kippum og þá ramba fleiri inn til hans til að kaupa sér eitthvað eða þiggja kaffisopa og spjall.    

 

Chris Burkard í heimsókn á verkstæði Tylers. Chris á einna stærstan þátt í að gera Vestfjarðaleiðina heimsþekkta meðal hjólreiðafólks. Hann er heimsfrægur sjálfur. Eftir að hafa fetað í hjólför Tylers og hjólað leiðina hvatti hann til að halda þar keppni. Allir vita hvernig það fór.  Ljósmynd: Tyler Wacker.
Chris Burkard í heimsókn á verkstæði Tylers. Chris á einna stærstan þátt í að gera Vestfjarðaleiðina heimsþekkta meðal hjólreiðafólks. Hann er heimsfrægur sjálfur. Eftir að hafa fetað í hjólför Tylers og hjólað leiðina hvatti hann til að halda þar keppni. Allir vita hvernig það fór. Ljósmynd: Tyler Wacker.

 

Merki the hub. Það er byggt á merki Cycling Westfjords, hannað af Ómari Smára Kristinssyni, Nínu Ivanovu, Halldóru Björk Norðdahl og Tyler Wacker.
Merki the hub. Það er byggt á merki Cycling Westfjords, hannað af Ómari Smára Kristinssyni, Nínu Ivanovu, Halldóru Björk Norðdahl og Tyler Wacker.