Siglufjarðarskarðið á sér reyndar stutta sögu sem bílvegur, eða varla meira um 20 ár. Opnaður um miðjan 5. áratuginn og svo leystu veggöng um fjallið Stráka veginn af hólmi árið 1967.  Honum er þó enn haldið opnum yfir sumartímann og heitir fullu nafni Skarðsvegur (nr 793) Frábær gönguleið liggur um skarðið, auk þess sem skælast má yfir á bíl og auðvitað hjóla.

Ég heyrði Siglufjarðarskarðið nefnt sem ungur drengur á miðjum 8. áratugnum því í frændgarði mínum í Skagafirði voru ýmsir sem notuðu skarðið á árum áður og töluðu ekki um veginn af neinni léttúð. Þannig greyptist í huga mér orðsporið af Siglufjarðarskarði og ályktaði ég strax þarna á barnsaldri að varla væri til háskalegri leiðangur en að fara þar yfir. En svo liðu ekki nema 45 ár og var ég þá tilbúinn að heimsækja þennan landsfræga stað - á fjallahjóli.

Í júli 2023, skellti ég hjóli í bílskottið, keypti mér hangiketssamlokur og kanelsnúða og linnti ei látum fyrr en í Fljótum og lagði á skarðið af Siglufjarðarvegi. Ég skipulagði túrinn sem miðnæturferð, til að eygja möguleika á að ná upp í skarðið milli miðnættis og óttubils og njóta útsýnis yfir Skagafjörðinn með sínum dýrlegu eyjum og dáleiðandi haffleti. Til að það gengi upp þyrfti bjart veður sem var raunin en hvasst var með afbrigðum áleiðis upp í skarðið og hrutu nokkur blótsyrði af vörum mér þegar verstu hviðurnar gengu yfir. Vegurinn er vissulega brattur, en hvergi svo að teyma þyrfti hjólið eins og maður hefur þurft að sætta sig við annarsstaðar.

Eftir því sem ég nálgaðist skarðið sjálft þar sem heitir Altari, varð mér ljóst hversu óáreiðanlegur þessi vegur hefur verið á sinni tíð. Varla hefur verið kræsilegt að keyra þarna yfir á fólksbíl í þoku, auk sífelldrar hættu á sumarhreti með þeim afleiðingum að allt yrði stopp og færi á kaf. Íslenskir fjallvegir hafa aldrei látið að sér hæða. Bratt, hlykkjótt og eins og sniðið fyrir fjallahjól, þótt varla hafi nokkur séð þá framtíð blasa við veginum fyrr á tíð. En svona er þetta víða í dag. Fjallvegir fá nýtt hlutverk, ég nefni Vatnaleiðina, og Tröllatunguheiði - áhugaverðir minnisvarðar í dag sem fjallahjólafólk ferðast um og finnur þar kröftum sínum viðspyrnu.

Maður hugsar í lotningu um þá verkamenn sem komu að vegagerð á þessum stöðum, fyrir vélaöld þar sem hafa þurfti fyrir hverjum metra. En nú erum við á hjóli, ekki hefur enn sprungið dekk, þrátt fyrir næg tækifæri og keðjan er enn óslitin. Síðasta brekkan er framundan, Skarðsbrekka, beinn kafli skáhallt undir hlíðum Klettshnjúks (722 m) og þarna grillir í sjálft skarðið. Þar blæs hressilega og kemur á óvart hvað skarðið er mjótt. Það mun hafa verið sprengt fyrir skarðinu þegar bílvegurinn var lagður og nú fellur grjót beggja vegna vegarins niður á hann.

Ég æji stutta stund, virði fyrir mér magnað útsýnið niður að Siglufirði og tilkomumikill Siglunesmúlinn og Hestskarðsfjall handan fjarðar - sem hýsir enn eitt skarðið þar um slóðir - og Héðinsfjarður handan þess. Nú er freistandi að segja þetta gott og láta sig renna undan halla til baka niður að Hraunum en ég held mig við áætlun og læt mig gossa áleiðis niður Skarðsdalinn. Stoppa þar og ét nestið við skíðasvæðið og fer síðan að puða upp í skarð á ný. Þetta hefur tekið mig um 3 tíma og klukkan er að ganga 2 eftir miðnætti.

Að ná skarðinu aftur - nú að austanverðu gefur þessum túr auðvitað tvöfalt vægi - alltaf gaman að ná hæsta punkti eftir gott puð. Þegar ég kem í skarðið að þessu sinni, ákveð ég að koma aftur að ári, kannski hjólandi, kannski ríðandi eða gangandi. Þetta má ekki verða fyrsta og eina heimsóknin.

Brunið niður í Hraunadal og þaðan yfir að Selhrygg gengur vel fyrir sig og ég þakka fyrir gott ástand á diskabremsum. Ég fer eins hratt og ég þori, þarna er ekki gott að meiða sig, einn á ferð um nótt. Samt eitthvað fáránlega rómantískt við það. Gamlir kunningjar, djúpir pollar og drullupyttir taka á móti mér þegar ég nálgast Siglufjarðarveginn og næturkulið gerir vart við sig, þótt þarna sé langt í frá eins hvasst og þar efra.

Ég pakka mínu dóti við bílinn, þakka fuglum fyrir félagsskap og tístið. Þetta urðu rúmlega 20 kílómetrar. Ég þarf ekki að gista að Hraunum eins og margur ferðalangurinn áður fyrr þegar ófært var yfir skarðið.