Í lok júlí sköpuðust aðstæður fyrir mig að fara í nokkuð langa hjólaferð. Ég hef lítil hjólað á hálendinu norður af Vatnajökli og þar sem langvarandi austanátt var í spilinum, beindi ég sjónum mínum að upphafsstað á Austurlandi. Ég fékk far til Akureyrar á föstudagskveldi, gisti hjá Ingvari frænda mínum og ætlaði að hefja leiðangurinn á laugardagsmorgni með því að taka strætó til Egilsstaða upp á Möðrudalsöræfi.

Ingvar taldi mig hins vegar á að fylgja honum í skálann Lamba í Glerárdal, þar sem að ýmsu þurfti að hyggja. Varð það úr að fresta austurför um dag, og kom það sér vel. Við komum þó vistum á hóp frá Ferðafélagi Akureyrar, sem ætlaði með trúss í Dreka, sem létti mér hjólun nokkuð næstu tvo daga. Hjólaði ég síðan inn Glerárdalinn en Ingvar gekk og urðum við samferða, skiptum um batterí, löguðum vatnsveitu og fleira smálegt, en á niðurleiðinni skildu með okkur leiðir. Leiðin var tæknilega nokkuð erfið, sérstaklega á uppleiðinni, og sjálfsagt leiddi ég hjólið helming leiðar, e.t.v. meira en ég þurfti til að vera samferða Ingvari, en á niðurleiðinni var nokkurn veginn allt hjólað. Þarna var stígurinn á köflum svo þröngur og djúpur að ekki var hægt að stíga hjólið heldur varð að nota sparkhjólsaðferð á uppleiðinni. Var þetta nokkuð krefjandi ferð, en gaman að hafa farið þetta.

Næsta morgun tók ég strætó frá Akureyri og hóf leiðangurinn þar sem nýi og gamli hringvegurinn um Möðrudal mætast að austan. Allnokkur austanátt hjálpaði mér fyrstu 8 km í átt að veginum milli Brúar og Sænautasels, en þar fékk ég mér kakó og lummur og hélt síðan áfram suður 24 km, uns ég beygði til austurs um Þríhyrningsfjallgarð aðra 24 km. Þegar komið var á vegamót norður í Möðrudal eða suður, hélt ég suður nokkra km , og síðan yfir hálsinn í Arnardal þar sem ég gisti í skálanum góða eftir u.þ.b. 60 dagsverk. Hafði verið nokkur vindur en sól og hlýtt og ég kominn í náttstað upp úr kl. 16 lítt þreyttur. Um kvöldið komu tjaldgestir í dalinn og kom í ljós að við þekktumst næstum því.

Morguninn eftir fyllti ég á vatnið í Álftadalsá, 1,25 l því ekkert vatn yrði fyrr en í Dreka og hélt síðan veg í Krepputungur og síðan undir Upptyppingum yfir Jökulsá á Fjöllum og áfram í Dreka. Ég hleypti nokkuð vel úr dekkjum í sandinum/vikrinum í Krepputungu en annars gekk mér umfram væntingar að hjóla Krepputungurnar, en færið þyngdist þó syðzt. Erfiðustu kaflarnir voru þó í rauða sandinum undir Herðubreiðartöglum og mátti ég leiða hjólið e.t.v. nokkur hundruð metra í heildina. Kom ég á sjötta tímanum í Dreka, komst þar í vistirnar frá Akureyringunum, át vel og hvíldist. Ég vildi hins vegar stytta næsta dag og hélt því suður í Svartárbotna, en þar hugðist ég tjalda. Nú var ég hins vegar kominn á þann stað sem ég hafði óttast hvað mest, sandana suður af Öskju. Fyrstu 5-6 km að Dyngjuvatni voru samt nokkuð auðveldir, en eftir það fór að þyngjast færið, en laus foksandur safnaðist saman í hjólförunum. Nú hleypti ég nánast öllu lofti úr dekkjum og fór upp úr hjólförunum og gat nú haldið 13 km hraða utanvega í meðvindinum, sem var framar öllum vonum, nægur raki var í sandinum til að hann þjappaðist vel undir dekkjunum. Vék ég því frá vegi og tók stytting í Svartárbotna og tjaldaði þar, eftir 70 missendna kílómetra, við síðasta örugga vatnsbólið fram að efstu upptökum Sandár við Þríhyrning.

Um nóttina var þrumuveður og rigning og um morguninn var lágskýjað og súldaði. Varð ég því seinn af stað, þar sem ég beið nokkuð eftir uppstyttingu en það gekk ekki eftir. Hélt ég nú áfram í átt að aðalveginum og fljótlega eftir það fór sandur að þéttast það vel í bílförum að ég þurfti ekki lengur að hjóla utan slóðans. Meðvindur var sem fyrr og nú af ANA. Sóttist leiðin allgreiðlega þótt skyggni væri lítið og þegar ég kom í fyrstu læki norður af Þríhyrningi var klukkan ekki nema rúmlega 19 og því haldið áfram eftir nestisstopp. Lítið hafði gengið á vatnið á þessari tæplegu 50 km leið í súld og hráslaga. Fór nú heldur að létta til og þegar ég kom að Réttartorfuafleggjaranum fylgdi ég honum norður í 3 km og beygði síðan til SV svokallaða Laufrandaleið og tjaldaði eftir ca. 10 km við lækjardrag nokkuð eftir um 70 km dagstúr.

Á fjórða degi hjólatúrsins var komin sól en sterk austanátt sem þjónaði mér vel vestur á bóginn framan af, en eftir að komið var yfir hina eiginlegu Laufrönd og á veginn í Hraundal þar sem beygt var til suðurs fór vindurinn heldur að gera ógagn. Þegar ég kom á Marteinsflæðurnar nennti ég ekki að fara í bað í strekkingnum, enda lítil þörf á því, ég hafði jú tekið bað síðasta laugardag, og nú ekki nema miðvikudagur. Hélt ég því áfram suður. Landvörður í Dreka hafði varað mig við vatnavöxtum í ánum fyrir norðan Tungnafellsjökul, og þegar ég spurði hana hvort að ég ætti þá ekki bara að fara Vonarskarðið, tók hún vel í það. Um svipað leiti höfðu tveir jeppar nánast farið í kaf á Flæðunum og áhöfn verið bjargað í þyrlu, þannig að vatnavextir voru lítt ýktir. Ákvað ég því að tefla ekki öryggi mínu í tvísýnu og fara Vonarskarðið. Vindur var sem fyrr allsterkur að austan, stundum til gagns en stundum ógagns en þegar ég kom að vaðinu sunnan Dvergöldu, gekk vindurinn snögglega niður og eftir nestisstopp var haldið áfram í nánast logni og afbragðsveðri. Fór upp Gjóstuklif og síðan niður gamla vegstæðið, upp á varnargarðinn og óð (eða hjólaði Rauðá) þar fyrir innan. Gönguleiðin liggur nú yfir öldu nokkra stystu leið í Snapadal, en ég fylgdi ógreinilegum og alveg ótroðnum bílförunum útfyrir ölduna. Enginn raki var þarna eins og verið hafði undir Öskju, og var því nokkuð átak að hjóla þetta á ca. 7 km/klst hraða þegar vel lét, en ef ég leiddi hjólið fór ég niður í tæpa 4. Skipti litlu þó ég hleypti nær alveg úr dekkjum því að jarðvegurinn var svo gljúpur að hann þurfti að troða. Voru hjólförin því að sjá jafndjúp hvort sem ég hjólaði eða leiddi, en sýnu dýpst í skóförunum. Sóttist því leiðin seint og var hjólið leitt að mestu þegar sneitt var norður fyrir Deili. Nyrst í Snapadal kom ég inn á gönguslóðina og fylgdi henni síðan með afbrigðum áleiðis yfir Koluskarðið og tjaldaði undir sunnanverðum Svarthöfða þar sem ég hafði tjaldað 9 árum fyrr. Þá hafði ég verið snemma í september, síðasta árið sem bílumferð var leyfð um skarðið og þá hafði ég flogið áfram eftir vel troðnum slóðum sem nú höfðu reynst mér svo þungar. Var klukkan farin að ganga tólf þegar ég kom á náttstað úrvinda eftir 65 km.

Ég var seinn af stað morguninn eftir, en veður var hið besta. Hjólaði meðfram Köldukvíslarlóni og fór svo að úrtaki lónsins, til að sjá hvort þar væri fært yfir á fæti, og þannig möguleg tenging yfir á Bárðargötuna og þannig sleppa vaði yfir Sveðju og jafnvel Köldukvísl. Þar sem lónið var á yfirfalli, var slíkt ekki mögulegt. Hélt ég nú vestur á bóginn, tók slóðann suður fyrir Skrokköldu og síðan Sprengisandsleið til suðurs. Sprengisandsleiðin var gróf, holótt og hundleiðinleg og nokkur umferð. Við Skrokköldu fór ég inn á stytting og tjaldaði þar við lítinn læk eftir um 55 km.

Á sjötta degi kom ég fljótlega aftur inn á Sprengisandsleið, kom ögn við í Versölum og hélt svo upp á uppbyggða (Landsvirkjunar) veginn. Planið hafði verið að fara af Stóru Kjalöldu áfram SSV í stað þess að fylgja uppbyggða veginum að brúnni yfir Köldukvísl. Leiðin sú var hins vegar öll sundurtætt af nýlegri umferð ca. 90 hesta stóðs, sem hafði m.a. þrætt slóðina og því afar ill-hjólanleg. Þess í stað ákvað ég því að fylgja Sprengisandsveginum niður að Köldukvísl og kanna leiðina sem þaðan liggur niður á hægri bakka Köldukvíslar. Varð það úr, og snæddi ég nesti við vaðið yfir Grjótá. Leiðin lá síðan upp í móti og sveigir vel til norðurs í átt að leiðinni sem var skemmd af hestunum, en ég ákvað taka stytting beint í vestur, hjóla og leiða hjólið upp brekku að þeim slóða. Þar var slóðinn e.t.v. eins og búast mátti við, ómögulegur eftir umferð hestana. Ég hjólað með talsverðu erfiði nokkuð til hliðar við slóðina, enda sandur nokkuð gljúpur. Eftir um 5 km var ég kominn með nóg af þeirri leið, og þar sem ekki var nema hálfur þriðji km í „aðalleiðina“ á milli Búðarháls og Kjalvatna, og heldur undan fæti, ákvað ég að skipta yfir í þá leið, enn á vegleysum. Þegar þangað kom fylgdi ég þeirri leið til suðvesturs. Leiðin var nokkuð gróf og ekki gerð betri af nýlegri ferð tveggja vélhjóla sem höfðu ákveðið að þurfa að spóla hana alla upp. Vék ég svo af henni eftir slóða niður á Klifhagavelli, en þegar þangað kom, „hitti“ ég aftur fyrir hrossastóðið, en þó bara í skamma stund þar sem stóðið hafði farið yfir Köldukvísl á vaði, þar skammt fyrir neðan. Var ég nú í fyrsta skipti í allmarga klukkutíma kominn á þokkalega óskemmdan veg. Kom nú að hinu nýja Sporöldulóni, og fylgdi „nýja“ veginum sem hafði verið færður upp fyrir lónstæðið að inntakinu að Búðarhálsvirkjun. Snæddi ég þar kvöldverð. Fylgdi ég þaðan heldur grófum vegi upp að malbiki á Búðarhálsi og síðan niður á Hald og yfir Tungná og á þjóðveg. Hélt nokkra km til SV og skipti síðan af malbiki yfir á Landveg. Var farið að rökkva, en ég mig langaði til að ná í hús sem ég er með ítök í, skammt norður af Galtalæk, og kom ég þangað skömmu fyrir miðnætti og röska 100 km, en leiðin hafði sóst nokkuð greiðlega um kvöldið, eftir erfiðleikana fyrri partinn. Var þá ekkert eftir af vistum nema einn pakki af þurrmat sem ég nennti ekki að elda.

Á sjöunda degi hélt ég áfram suður Landveg þar sem frúin pikkaði mig upp, nokkuð svangan, eftir tæpa 30 km þar sem heitir Púluhóll. Lauk þar þessum leiðangri eftir röska 450 km á sjö hjóladögum í allskonar færi.

Birtist fyrst í Hjólhestinum, mars 2020.